Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Árið 2024 var það kaldasta á þessari öld á Íslandi. Þetta er þveröfugt við stöðuna á jörðinni allri þar sem leiddar hafa verið að því líkur að 2024 verði hlýjasta ár sögunnar.
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á Moggablogginu að ársmeðalhitinn á Íslandi á nýliðnu ári standi í 3,4 stigum.
Það er -0,6 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020. Hitinn er -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. „Árið er því það kaldasta síðan 1998, en þá var sjónarmun kaldara en nú,“ segir Trausti.
Og bætir svo við: „Segja má að þetta sé því kaldasta ár allra íbúa landsins undir þrítugu (nema þeirra sem voru sérlega veðurnæmir fyrstu æviárin). Ritstjóri hungurdiska telur hins vegar 23 kaldari ár á sinni ævi – og nokkur með sama hita að auki.“
Á bloggi sínu Hungurdiskum fjallar Trausti einnig um veðurmælingar í Stykkishólmi. Þær ná aftur til ársins 1798 og er röðin því orðin 227 ára löng. Nokkur óvissa sé að sjálfsögðu í tölunum fyrstu hálfa öldina – sérstaklega þó fyrir 1830.
Nýliðið ár reynist vera það kaldasta það sem af er þessari öld í Stykkishólmi. Fara þarf aftur til áranna 1998 og 1999 til að finna svipaðar eða sömu hitatölur og aftur til 1995 til að finna kaldara ár.
Meðalhiti ársins 2024 í Hólminum reiknaðist 3,7 stig. Það er -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára (2014-2023) og -0,8 stigum neðan við meðallag tímabilsins 1991 til 2020, +0,2 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og -0,5 stigum neðan meðallags 1931-1960, nákvæmlega í meðallagi 20. aldar og +0,8 stigum ofan meðallags 19. aldar, samkvæmt útreikningum Trausta.
Fram kom í tilkynningu á vef Veðurstofunnar í september sl. að hnattrænn meðalhiti síðustu tólf mánuði (september 2023 til ágúst 2024) væri sá hæsti frá upphafi mælinga, óháð því 12 mánaða tímabili sem miðað er við. Hitinn var 0,76°C yfir meðaltali áranna 1991-2020 og 1,64°C yfir meðaltali áranna 1850-1900, sem notuð eru til viðmiðunar fyrir tímann áður en áhrifa iðnbyltingar fór að gæta á loftslag.
„Meðalhitafrávik fyrir restina af þessu ári þyrfti að lækka um að minnsta kosti 0,30°C til að 2024 yrði ekki heitara en 2023. Þetta hefur aldrei gerst í öllu ERA5-gagnasafninu, sem gerir ákaflega líklegt að 2024 verði hlýjasta ár sögunnar,“ sagði í frétt Veðurstofunnar.