Annar tveggja flugrita úr vél Jeju Air, sem brotlenti á Muan-flugvellinum í Suður-Kóreu 29. desember, verður sendur til Bandaríkjanna til greiningar. Vélin brotlenti á flugvellinum með 181 mann innanborðs

Annar tveggja flugrita úr vél Jeju Air, sem brotlenti á Muan-flugvellinum í Suður-Kóreu 29. desember, verður sendur til Bandaríkjanna til greiningar. Vélin brotlenti á flugvellinum með 181 mann innanborðs. Aðeins tveir komust lífs af. Er slysið eitt það mannskæðasta sem orðið hefur á síðustu árum, og það mannskæðasta í sögu suðurkór­eskra flug­fé­laga síðan 1997.

Flugritinn sem fannst er illa farinn og sjá yfirvöld í Suður-Kóreu sér ekki fært að sækja gögnin úr honum með öruggum hætti. Því var ákveðið að flytja hann til Bandaríkjanna þar sem gögn af honum verða sótt.

Tveir flugritar voru í vélinni og var þeim báðum bjargað úr brakinu. Annar, sá sem hefur að geyma upptöku úr flugstjórnarklefa vélarinnar, var óskemmdur. Sagði Joo Jong-wan flugmálaráðherra landsins að búið væri að afrita gögn af honum. Hinn flugritinn, sá er sendur verður til Bandaríkjanna, hefur að geyma önnur gögn um flugleið vélarinnar.