Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Tónleikar helgaðir sveiflutímabilinu sem stóð yfir frá um 1930 til 1950, verða haldnir í Eldborg í Hörpu sunnudaginn 5. janúar kl. 20 og að venju með pompi og prakt. Á þessu tímabili sveiflunnar réðu stórsveitir ríkjum í tónlistarheiminum og voru stjórnendur, söngvarar og einleikarar poppstjörnur þess tíma, eins og segir á vef Hörpu.
Efnisskráin samanstendur af verkum sem stórsveitir manna á borð við Glenn Miller, Benny Goodman, Duke Ellington og Count Basie gerðu ódauðleg á sínum tíma og verða aðeins fluttar upprunalegar útsetningar. Atburðurinn verður hinn glæsilegasti og gestasöngvarar ekki af verri endanum, þau Stefanía Svavarsdóttir og Bogomil Font.
Sama þema, ólíkar efnisskrár
Sigurður Flosason er stjórnandi og kynnir tónleikanna og margreyndur í þeirri stöðu. Hann er spurður að því hversu oft hann hafi stýrt nýárstónleikum Stórsveitar Reykjavíkur og segist hann hafa gert það allt frá fyrstu tónleikunum sem voru haldnir árið 2014. „Þá kviknaði þessi hugmynd að vera með nýárstónleika helgaða þessu swing-tímabili,“ segir Sigurður og að tónleikarnir séu ávallt helgaðir því.
„Maður getur sagt að það sé, gróft sagt, tímabilið 1930 til 1950, þegar stórsveitir voru aðalmálið í tónlistarheiminum. Tímabilið þegar djass var popp og popp var djass. Þetta eru vinsælustu listamenn síns tíma, hljómsveitarstjórar, einsöngvarar og allt þetta.“
Sigurður segir þema tónleikanna það sama, ár frá ári en efnisskrárnar hins vegar breytilegar. Eitt eða tvö lög séu flutt svo að segja árlega en að öðru leyti sé efnisskráin breytileg. „Þetta er svo stór sjóður, svo mikill gullpottur af frábærri tónlist að hægt er að vera með nýtt prógramm árlega undir þessum fána,“ segir Sigurður.
Söguleg nákvæmni
Eingöngu verða fluttar upprunalegar útsetningar á verkunum á efnisskránni og Sigurður er spurður að því hvort það sé mikilvægt, þ.e. að útsetningar séu upprunalegar. „Já, okkur finnst það skemmtilegt, að nálgast þennan hljóm eins og hann var og endurskapa hann. Hins vegar syngja söngvararnir, sem eru með okkur, eins og þeir sjálfir og þeir sólistar í hljómsveitinni, sem impróvísera sóló, spila eins og þeir sjálfir líka. En þegar kemur að útsetningunum erum við að reyna að nálgast þennan hljóm af sögulegri nákvæmni,“ útskýrir Sigurður.
Er það flókið verk?
„Já, þetta er dálítið mál, bæði að setja saman prógramm og finna til útsetningar og stundum þarf að leita að þeim úti í heimi, jafnvel fá einhvern til að skrifa þær upp eftir upptökum og svo vinna þær með hljómsveitinni. Það er dálítill aðdragandi að þessu,“ svarar Sigurður.
Frábært hvort um sig
Þið eruð með gestasöngvara, Bogomil Font og Stefaníu Svavarsdóttur. Þetta eru mjög ólíkir söngvarar eða hvað?
„Já, já, en frábær hvort um sig. Bogomil, eða Sigtryggur Baldursson, mun reyndar spila svolítið á slagverk líka, við munum aðeins kíkja á latínmúsíkbylgju sem reið yfir heiminn og skarast við þennan tíma líka. Við munum nýta hans hæfileika aðeins þannig en svo munu þau syngja og ég held að það muni passa frábærlega við þau lög sem við erum búin að velja,“ svarar Sigurður.
Hvað æfingar varðar segir hann þær oftast fjórar með öllum flytjendum fyrir tónleika en hljómsveitarmeðlimir hafi þó fengið nótur áður og ef unnið sé með eldri tónlist fái þeir líka upptökur til að hlusta á. „Þannig að fólk getur mætt töluvert vel undirbúið til leiks,“ útskýrir hann. „Þetta er sérhæfður stíll að setja sig inn í, það er töluvert langt um liðið frá því þetta gerðist og fólk spilar ekki endilega nákvæmlega eins í dag og það þurfa allir að setja sig í ákveðinn gír. En það er rosalega gaman og þetta er bara svo frábær músík.“
Verður ekki leiðinlegt
Sigurður er beðinn um að segja þeim, sem aldrei hafa farið á stórsveitartónleika í byrjun nýs árs, hvers vegna þeir ættu að slá til og bregða sér í Hörpu. „Af því að þetta er grípandi og skemmtilegt og kraftmikið og kannski svolítið öðruvísi en aðrir áramótatónleikar sem eru í boði. Þetta er eiginlega alveg einstakt. Það er um að gera að prófa og ég get lofað því að það verður ekki leiðinlegt heldur stórskemmtilegt,“ svarar Sigurður, léttur í bragði og greinilega fullur tilhlökkunar.
Allar nánari upplýsingar um tónleikana og miðasölu má finna á vef Hörpu, harpa.is.