Kristín Heiða Kristinsdóttir
Ég datt óvænt inn á þætti á Rás1 um hátíðirnar sem heita Súrinn. Þar leggur Ragnheiður Maísól Sturludóttir af stað í rannsóknarleiðangur til að komast að uppruna súrdeigsins á Íslandi. „Við nánari skoðun á þessari litlu deigklessu vakna stórar spurningar um mannfólkið og tengsl okkar við heiminn. Hvernig endar súrdeigsmóðir, sem er beintengd sænsku konungsfjölskyldunni og Nóbelsverðlaununum, í Mosfellsbæ? Og hvernig flækist hún þaðan á Djúpavog?“ segir m.a. í kynningu og óhætt er að segja að afar skemmtilegt og fróðlegt er að hlusta á þættina. Í fimmta þætti voru t.d. nokkur nöfn dregin fram sem fólk hefur tekið upp á að gefa sínum eigin súr sem það býr með. Þar ræður orðaleikur oft för, Gísli Súrsson og Súrsanna eru þar á meðal, og fólk snýr líka upp á nöfn frægra og þar má nefna Hjalta Súrsus, Súrarin Eldjárn og Brauðun Blöndal. Án þess að skemma fyrir þeim sem eftir eiga að hlusta get ég ekki sleppt því að nefna frásögn frá gullæðisárum í Bandaríkjunum þar sem menn sváfu með súrdeigsmóður sína í krukku undir handarkrika til að halda henni á lífi. Einnig sagði af Ítala sem fór að gráta þegar hann smakkaði brauð sem bakað var úr fornum súr, bragðið minnti á móður hans og bernskuna.