Hólmgeir Baldursson
Ég rek af áhugamennsku lítinn afþreyingarmiðil sem er þó skráður hjá fjölmiðlanefnd og hefur verið í loftinu frá því í byrjun október á síðasta ári. Þeir sem kannast eitthvað við mig vita að ég er ötull talsmaður frelsis í ljósvakamálum og stend gegn alls kyns hagsmunapústrum og bara drepleiðist þegar verið er að mismuna einum á móti öðrum í sama bransanum. Loksins nú nýverið auglýsti fjölmiðlanefnd styrki fyrir þá sem hafa stutt við bakið á textuðu og talsettu barnaefni og er það eitt og sér gott framtak, þannig að ég sótti um að fá eitthvað af þeim kostnaði sem mitt áhugamannsbatterí hefur kostað til vegna útsendinga Skjás 1 á barnaefni síðasta árið.
En menningar- og viðskiptaráðuneyti hefur ákveðið, að fengnum tillögum fjölmiðlanefndar sbr. 4. gr. reglna nr. 1148/2024 um úthlutun styrkja úr talsetningar- og textunarsjóði fjölmiðlaveitna, að synja Skjá 1 um styrk þar sem fjölmiðillinn uppfyllir ekki „öll skilyrði“ 2. mgr. 5. gr. þeirra reglna sem ráðuneyti Lilju Alfreðsdóttur setti. Sem sagt frávikið er einfaldlega það að Skjár 1 er ekki „áskriftarmiðill“ þegar bestu vinir aðal, „fjarskiptafélögin“, eru það.
Sem sagt: Lyktar aðeins of mikið af hagsmunapólitík og spillingu þegar verið er að verðlauna þá sem hafa tekjur af áskriftarsölu á kostnað þeirra sem engar tekjur hafa og því klárlega látið viðgangast algjört misræmi í miðlun til barna.
Fv. menntamálaráðherra hefur með þessu endað sinn ráðherraferil á því að bíta hausinn af skömminni, þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar um verndun íslenskrar tungu og að standa vörð um tungumálið í samkeppni við erlendar streymisveitur. Takk fyrir, Lilja mín, jólagjöfin til íslenskra barna var fúlegg í ár, eins og öll hin árin þín á ráðherrastóli; allavega til þeirra sem eiga foreldra sem leyfa börnum sínum að horfa á ókeypis og endurgjaldslaust barnaefni í sjónvarpi. Þau börn þar sem foreldrarnir greiða fyrir áskrift fá 60 milljónir í meðgjöf frá ríkinu til að viðhalda „samkeppni“ um miðlun íslenskaðs barnaefnis fyrir börn þessa lands næstu þrjú árin.
Ég bara gat ekki annað en kært málið til Umboðsmanns Alþingis og hef óskað eftir að hann hlutist til um að tilgreina hvort opinn miðill geti ekki verið áskriftarmiðill þótt línulegur sé, enda færi ég ágætis rök fyrir því að „áskrift“, þótt ókeypis sé, að línulegri dagskrá sem byrjar á tilgreindum sýningartíma, þurfi allavega það til að viðkomandi áhorfandi stilli sig inn á tilsettum sýningartíma og breytir þá engu hvort „áskriftin“ er með gjaldi eður ei.
Þegar þetta er ritað þann 27. des. þá er ekki komið fram hverjir hlutu umræddan styrk, allavega ekki Skjár 1, sem bara bítur á endajaxlinn og heldur áfram að miðla ókeypis sjónvarpi, þótt línulegt sé, til íslenskra barna með textuðu og talsettu íslensku tungumáli, en auglýsir jafnframt eftir íslenskum kostunaraðilum sem vilja hjálpa mér að viðhalda þessu áhugamáli og eru til í að kosta þessar útsendingar, því íslensk stjórnvöld eru klárlega ekki á þeim buxunum að styrkja einu opnu og endurgjaldslausu sérhæfðu kvikmyndastöð landsins.
Allavega: Takk Lilja, ég vona svo sannarlega að nýr menningarmálaráðherra sjái ljósið og taki loksins af skarið og styrki íslenska tungu, því allt fjas og þvaður sem á undan er gengið í mörg ár reyndist eftir allt saman bara grautfúlt fúlegg, nema hjá þeim sem eru bestu vinir aðal. Það er ljótt að segja það, en hver er það sem skrifar svona reglugerðir eiginlega?
Ekki draga taum eins á kostnað annars framvegis og vandaðu þig í að sjá til þess að það sama gildi fyrir alla, ekki bara suma.
Höfundur er áhugamaður um sjónvarp.