TÓNLIST
Arnar Eggert Thoroddsen
arnareggert@arnareggert.is
Stelpur horfið ögn til baka / á allt sem hefur konur þjakað / Stelpur horfið bálreiðar um öxl! / Ef baráttu að baki áttu / berðu höfuðið hátt og láttu / efann hverfa, unnist hefur margt.“ Ég greip þessar línur nánast af handahófi úr baráttusöngnum magnaða „Áfram stelpur (í augsýn er nú frelsi)“ sem lokar tímamótaplötunni Áfram stelpur (1975). Platan var gefin út þegar miklar hræringar voru að eiga sér stað í kvenréttindabaráttu heimsins en í október það ár var Kvennafrídagurinn svonefndi. Hann gat af sér einn fjölmennasta útifund Íslandssögunnar þegar konur sem lögðu niður vinnu þann dag söfnuðust saman á Lækjartorgi.
Ég vildi að ég gæti sagt að nú, tæpum 50 árum síðar, sé allt önnur mynd og samfélag sem blasir við konum en svo er ekki. „Unnist hefur margt,“ segir í laginu en samt svo lítið finnst manni. Ég er félagsfræðingur að mennt og starfa sem slíkur auk tónlistarfræðamennsku. Mér hefur tekist að samþætta þetta tvennt á margvíslega vegu og m.a. hef ég skrifað aðeins um stöðu kvenna í tónlist. Þegar maður leggst í þessi fræði glottir maður í kampinn yfir villuráfandi feðraveldissauðum sem sjá enga þriðju vakt, hvað þá að um einhverja mismunun sé að ræða hvað viðkemur tónlistariðnaðinum almennt.
Í haust hitti ég svo á kollega í þessum fræðum, fólk frá Norðurlöndunum, og bárum við saman bækur okkar í háskólabænum Uppsala í Svíþjóð. Margt forvitnilegt kom upp úr dúrnum og fróðlegt að sjá hvar grannar okkar standa. Danir eru t.a.m. að keyra verkefni sem kallast GEMMA (Gendering Music Matter) og í Finnlandi stendur til að rannsaka stöðu barnatónlistar út frá því hverjir það eru sem eru að skapa hana. Rannsóknir á upplifun og reynslu, bæði með megindlegum aðferðum (stórir spurningalistar t.d.) og eigindlegum (djúpviðtöl), eru í gangi og svo búa Danirnir að safni, KIM (Kvinder i musik), sem var komið á fót árið 1980 og bíður fræðilegrar úttektar. Hér er fátt eitt nefnt og verkefnin sem ég lýsi voru á mismunandi stigi framkvæmda en þessi upptalning gefur vonandi einhverja innsýn í þau rannsóknarstörf sem fyrir liggja.
Á Íslandi er síðan ýmislegt í gangi, það vantar ekki, og mig langar til að beina sjónum mínum að grasrótarstarfi sérstaklega. Hagsmunasamtökin KÍTÓN t.d. (Konur í íslenskri tónlist), hvers hlutverk er að „standa vörð um hagsmuni, réttindi, sýnileika og tækifæri kvenna, kynsegin- og trans fólks í íslensku tónlistarsenunni ásamt því að stuðla að samstöðu, valdeflingu og tengslum þeirra í tónlist á Íslandi“. Meðvituð vinna að þessu leytinu til fer líka fram í gegnum Músíktilraunir, ýmsar tónlistarhátíðir og Læti! / Stelpur rokka!, „sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa af femínískri hugsjón við að efla ungar stelpur (sís og trans), trans stráka, kynsegin og intersex ungmenni í gegnum tónlistarsköpun og jafnréttisstarf“.
Ein hávær rödd getur hnykkt á ýmsu, sjá t.d. ótrúlegt brautryðjandastarf Kathleen Hanna á 10. áratugnum er hún leiddi sveitina Bikini Kill. En gagngerar kerfisbreytingar verða ekki að veruleika nema í gegnum samstilltan samtakamátt, það hefur sagan sýnt okkur. Áfram stelpur, strákar, kvár og öll þau sem vilja ærlegheit og yl fram yfir íhaldssemi og ómennsku.