Ljósadýrð Skólavörðustígur fallega lýstur á síðustu Vetrarhátíð.
Ljósadýrð Skólavörðustígur fallega lýstur á síðustu Vetrarhátíð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Reykjavíkurborg og Veitur stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025 og urðu tvö verk fyrir valinu, „Sólólól“ og „Sam-Vera“. Um það fyrra segir m.a. í rökstuðningi dómnefndar að það lýsi upp myrkrið eins og dagsbirtulampi

Reykjavíkurborg og Veitur stóðu fyrir samkeppni um tvö ljóslistaverk í almannarými borgarinnar fyrir Vetrarhátíð 2025 og urðu tvö verk fyrir valinu, „Sólólól“ og „Sam-Vera“. Um það fyrra segir m.a. í rökstuðningi dómnefndar að það lýsi upp myrkrið eins og dagsbirtulampi. „Áhorfendur tengjast vefsíðu með símanum sínum og velja þar um 6 mismunandi sólir til að kanna og baða sig í birtu þeirra,“ segir m.a. í umsögn dómnefndar. Að verkinu standa Rebekka Ashley Egilsdóttir og Þorkell Máni Þorkelsson.

„Sam-Vera“ er gagnvirkt ljós- og hljóðverk sem sagt er skapa einstök hughrif og sameiginlega hópupplifun í borgarumhverfi Reykjavíkur yfir vetrartímann. „Innsetningin er púlsandi ljós- og hljóðskúlptúr sem bregst við fjölda einstaklinganna sem inn í það stíga, frá einum upp í tíu,“ segir m.a. í umsögn. Að verkinu standa Arnar Ingi Viðarsson, Kári Einarsson, Ragnar Már Nikulásson og Valdís Steinarsdóttir.