Flugeldar sjást á lofti yfir brasilísku borginni Rio de Janeiro skömmu eftir að nýtt ár gekk í garð þar vestra. Yfir gnæfir Kristsstyttan sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Áramótagleðin í borginni er sögð ein sú fjölmennasta í heiminum, en skrifstofa borgarstjórans Eduardos Paes telur að um tvær milljónir manna sæki borgina heim í kringum áramótin.
Hin fræga strönd Copacabana er iðulega þétt setin á áramótunum og byrja gestir að streyma að snemma dags til að tryggja sér góðan stað. Þannig fer gleðin að mestu fram utandyra, á götum borgarinnar og á bátum við höfnina. Þá er einnig vinsælt að bóka herbergi á hótelum með góðu útsýni yfir ströndina. Flugeldum er skotið á loft á miðnætti og gestum boðið upp á fría tónleika.