Notendum tölvuleiksins Fortnite gefst núna tækifæri á að kaupa dansspor Laufeyjar Línar tónlistarkonu í leiknum og dansa eins og hún á meðan þeir spila tölvuleikinn. Frá þessu var greint á samfélagsmiðlareikningi tölvuleiksins á nýársnótt.
Fortnite er vinsæll tölvuleikur sem kom fyrst á markað 2017. Hann hefur notið mikilla vinsælda víðs vegar um heim og ekki síst á Íslandi. Yfir 400 milljónir eru skráðir virkir notendur leiksins.
Þeir sem spila leikinn þekkja vel til þess að hægt sé að kaupa dansspor frá heimsfrægum tónlistarmönnum á borð við Dua Lipa, Snoop Dogg og Justin Bieber. Dansspor Laufeyjar sem hægt er að kaupa eru úr tónlistarmyndbandi hennar við lagið From The Start sem er að finna á plötu hennar Bewitched, sem hún hlaut Grammy-verðlaunin fyrir. Lagið er það vinsælasta sem Laufey hefur gefið út, með yfir 575 milljón hlustanir á Spotify.