Sigurður Jónsson sendi kveðju eftir flótta Assads til Rússlands sem líklega varð honum til lífs, að minnsta kosti um stundarsakir. Eins og fram kemur hefur Assad mjög sérstakt höfuðlag: Hann Assad er ansans kjáni og algjör bófasláni

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Sigurður Jónsson sendi kveðju eftir flótta Assads til Rússlands sem líklega varð honum til lífs, að minnsta kosti um stundarsakir. Eins og fram kemur hefur Assad mjög sérstakt höfuðlag:

Hann Assad er ansans kjáni

og algjör bófasláni.

Með sinn dínaríska haus

hann dvöl hjá Pútín kaus,

dóninn þáði framhaldslíf að láni.

Einnig barst kveðja frá Árna Bergmann:

Ég fljótur er að finna orð

yfir flest á mínum diski,

en þekki hvorki haus né sporð

á heimsins mikla fiski.

Steindór Tómasson er farinn að hlakka til þorrablóta:

Þorrablótin ég þrái heitt,

þykist vanda nún' í.

Því vegna veðurs – það er leitt,

verða þau í júní.

Jón Jens Kristjánsson yrkir eftir kvöldfréttir:

Í Kringlunni fólkið flest er

fellandi marga pest er

ei rafmagn má nýta

sem Rússarnir slíta

Liverpool sigraði Leicester.

Rúnar Þorsteinsson er ánægður með gengi sinna manna og leggur út af þekktu lagi stuðningsmanna þess:

Ekki er á því efi neinn

að enginn er vegur til sigurs beinn.

Ef Anfield er sviðið,

er Liverpool liðið

og aldrei þú ert á gangi einn.

Meira af fótbolta. Jón Jens las fyrirsögn í Vísi um leikmenn Manchester City: „Látnir gista á æfingasvæðinu“. Honum varð að orði:

Getið er naumast verri vista

verður lítið úr næðinu

hjá leikmönnum því að látnir gista

líka á æfingasvæðinu.

Ingólfur Ómar Ármannsson hefur notið veislufanga yfir jólin:

Eintóm leti aftrar mér

allra síst er natinn.

Vambsíður nú orðinn er

eftir jólamatinn.