Stórt 55 spariklæddir karlmenn gnæfa yfir gesti sýningarinnar Usla á Kjarvalsstöðum nú um þessar mundir.
Stórt 55 spariklæddir karlmenn gnæfa yfir gesti sýningarinnar Usla á Kjarvalsstöðum nú um þessar mundir. — Ljósmyndir/María Margrét Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Reykjavíkur Usli ★★★★· Sýningarstjórar Ólöf Kristín Sigurðardóttir og Aldís Snorradóttir. Sýningin stendur til 9. febrúar 2025. Opið alla daga kl. 10-17.

Myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

Það var forvitnileg ákvörðun hjá Listasafni Reykjavíkur að velja Hallgrím Helgason sem áttunda listamanninn til þess að taka þátt í sýningaröð safnsins á Kjarvalsstöðum þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Áður hafa verið teknir fyrir listamenn á borð við Heklu Dögg Jónsdóttur og Guðjón Ketilsson og nýlega var tilkynnt að Kristín Gunnlaugsdóttir yrði næst til þess að hljóta þennan heiður.

Hallgrímur er einna þekktastur fyrir skáldsögur sínar sem notið hafa mikillar velgengni eins og til dæmis 101 Reykjavík sem gerð var að vinsælli kvikmynd, Höfund Íslands sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001 og stutt er síðan hann lauk við sextíu kílóa þríleikinn um Siglufjörð. Yfirlitssýningin, Usli, vekur spurningar um stöðu Hallgríms sem myndlistarmanns og hvort hann hafi sem myndlistarmaður liðið fyrir það að vera frægur rithöfundur. Hefur myndlist Hallgríms fengið að njóta sín á eigin forsendum? Fer fólk kannski óhjákvæmilega að bera saman hvort hann sé betri rithöfundur en myndlistarmaður? Er þetta enn eitt „selebið“ sem ákveður að nýta frægð sína til þess að selja snotrar myndir? Er listasafnið að nýta sér frægð hans í samfélaginu til þess að trekkja að? Allt er þetta matsatriði og verður hver að dæma fyrir sig en veigamesta spurningin er hins vegar sú hvort innistæða sé fyrir svona veigamikilli yfirlitssýningu á Kjarvalsstöðum. Og svarið er já, ekki spurning!

Langur ferill skoðaður

Fæstir hafa eflaust gert sér grein fyrir hversu langur ferill Hallgríms sem myndlistarmaður er en ferillinn spannar fjóra áratugi. Hann nam stuttlega við MHÍ og Listaakademíuna í München og hefur haldið yfir 30 einkasýningar heima og erlendis og tekið þátt í á fjórða tug samsýninga. Þá má geta þess að verk hans eru í eigu safna á borð við MOMA og FRAC Poitou-Charentes auk íslenskra listasafna. Í kynningartexta sýningarinnar segir: „Hallgrímur fær okkur til þess að staldra við og íhuga það sem blasir við, hvort heldur það er ástandið annars staðar í veröldinni eða aðstæður í okkar eigin hversdagslífi,“ en það sem einna helst einkennir verk Hallgríms er beitt samfélagsrýni og vísar titill sýningarinnar, Usli, til þessarar nálgunar. Hallgrímur leitast við að valda usla og hefur iðulega tekist það. Þá er hann einnig oft og tíðum mjög persónulegur og notar sitt eigið sjálf eða hliðarsjálf í verkum sínum eða tekst á við eigin lífsreynslu með einum eða öðrum hætti.

Vönduð og hnitmiðuð miðlun

Sýningarstjórar eru Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, og Aldís Snorradóttir verkefnastjóri. Sýningin er vel úr garði gerð og miðlun með besta móti. Hnitmiðaðir textar fylgja mörgum verkanna sem setja þau í samhengi við líf listamannsins og samtímann. Samhliða sýningunni er einnig gefin út vegleg sýningarskrá um verk Hallgríms.

Verkin eru mörg og fjölbreytt og sjá má bæði teikningar og stærri málverk. Verkunum er raðað í línulegri tímaröð þar sem við fáum sterka tilfinningu fyrir þróun listamannsins síðustu áratugi, frá upphafi ferils og til dagsins í dag. Lífræn og geómetrísk form einkenna elstu verkin sem þróast svo út í fígúratívari og stærri verk sem eru að sama skapi mun persónulegri. Í nýjustu verkunum hefur svo Hallgrímur að vissu leyti „tékkað sig út“ og beinir sjónum að ástandi heimsins með mun ópersónulegri hætti en hann er þekktur fyrir.

Óhætt er að segja að tímabilið þar sem Hallgrímur gengur hvað næst sjálfum sér sé tímabilið sem höfðar mest til manns. Þetta eru verk sem flest eru unnin á tíunda áratugnum og í upphafi nýrrar aldar þar sem Hallgrímur eða hans hliðarsjálf Grim eru í aðalhlutverki. Grim kom fyrst fyrir sjónir almennings á sýningu Hallgríms árið 1996 í Galleríi Sævars Karls og er sagður blanda af Gosa og Drakúla, og á það að vísa til þess að rithöfundur byggir feril sinn á lygum og nærist á öðrum. „Á bak við „grímuna“ gat listamaðurinn leyft sér að benda á skopleg atriði í hversdagshegðun fólks og einkalífi. Grim var sjálfhverfur og kannski of heiðarlegur þannig að margar uppákomur sem hann lenti í voru nokkuð neyðarlegar,“ segir í sýningartexta en Hallgrímur sagði að endingu skilið við Grim eftir að hafa unnið úr áföllum. Hallgrímur er fyndinn, og notar oft húmor í verkum sínum til þess að varpa ljósi á samtímann. Í tússverkunum „Grimsævintýr“ má sjá meðal annars gert grín að listheiminum í formi teiknimyndasagna og eins kristallast einmanaleiki samtímans og þörfin fyrir nánd í verkinu „Can I Be With You?“.

Ótrúlega stór verk

Verk Hallgríms eru mörg hver afar stór og njóta sín sérstaklega vel í vestursal Kjarvalsstaða. Stærst er verkið af karlakórnum Heimi frá árinu 2000 og er 2,5x4 metrar að stærð. Það er afar tilkomumikið verk í einfaldleika sínum. Þar má sjá 55 uppstillta karlmenn í rauðum jökkum á hvítum grunni og nær Hallgrímur að fanga dramatíkina sem fylgir íslenskum karlakórum og hversu djúpar rætur kórastarfið á í íslensku menningarlífi. Eins má nefna verkið „Ástin og ástin: svefnherbergið góða“ sem er 2x2,65 m og er skemmtilega glettið.

Sýningin Usli er mjög vert framtak hjá Listasafninu sem varpar heildstæðu ljósi á líflegan myndlistarmann sem hefur ef til vill fallið í skugga fyrirferðarmeiri rithöfundarferils. Hallgrímur á að baki langan feril og það kemur á óvart hversu fjölbreytt efnistök hans eru en hann nær að nálgast lífið út frá ýmsum sjónarhornum. Hann spilar á tilfinningar áhorfandans, stundum með gamansömum hætti og stundum háalvarlegum. Undirrituð þreytist seint á að ítreka að ljósmyndir gefa sjaldnast rétta mynd af listaverkum og ná aldrei að fanga upplifunina sem fylgir því að berja þau eigin augum. Þessi sýning er því einstakt tækifæri til þess að upplifa þessi stóru og voldugu verk á einum stað. Það má mæla með Usla.