Áramót Tækifæri, tækni og tími. Allt að gerast. Á Times Square í New York.
Áramót Tækifæri, tækni og tími. Allt að gerast. Á Times Square í New York. — AFP/Angela Weiss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tækniþróun dagsins í dag er mjög hröð og að fylgja henni eftir er talsverð áskorun,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Driftar EA. Aðsetur fyrirtækisins, sem var stofnað af þeim frændum Þorsteini Má…

„Tækniþróun dagsins í dag er mjög hröð og að fylgja henni eftir er talsverð áskorun,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Driftar EA. Aðsetur fyrirtækisins, sem var stofnað af þeim frændum Þorsteini Má Baldvinssyni og Kristjáni Vilhelmssyni, er á Akureyri og áhersluverkefnin eru nýsköpun í heilbrigðismálum, öldrunarþjónustu, grænum lausnum, líftækni, matvælaframleiðslu og tæknilausnum í sjávarútvegi.

„Þær greinar sem við horfum einkum til tengjast að nokkru leyti. Þær eru jafnframt mikilvægar stoðir í atvinnulífi hér við Eyjafjörð. Í allri atvinnustarfsemi er mikilvægt að svara kalli tímans og brydda upp á einhverju nýju. Jafnframt þarf að finna gott jafnvægi milli mekkanisma og mennskunnar, nú þegar gervigreind tölvunnar er orðin svipuð meðaltali vísitölu greindar mannfólksins. Þarna þurfa siðferðisleg sjónarmið að koma inn,“ segir Sesselja,

„Hjá Drift ætlum við okkur stóra hluti og ég finn væntingar í nærumhverfinu hér. Menntunarstig hér er hátt og þegar stuðningur til góðra verka býðst gerist eitthvað skemmtilegt. En tæknin er ekki allt; við verðum líka að lifa og njóta. Nýársheit mitt er því að taka mér pásur frá snjalltækjum og neti; tímaþjófum í fjarlægð frá raunheimum.“

„Árið 2025 verður sá tími þar sem fólk fer fyrst að hagnýta gervigreindina almennilega. Ég býst við miklum uppgötvunum til að mynda í læknavísindum og eðlisfræði þegar sérfræðingarnir og þessi háþróaða gervigreind geta unnið saman,“ segir Sveinn Gauti Einarsson, verkfræðingur í Hafnarfirði.

„Nú styttist líka í þann tímapunkt að samfélagið og stjórnmálin þurfi að ákveða hvernig tækla á vandann sem til verður ef tæknibyltingin verður til þess að stór hluti starfa verði sjálfvirknivæddur. Þarna kallar veröldin eftir lausnum á því hvernig tryggja eigi almenningi framfærslu í veröld sem þróast hraðar en nokkur kynslóð hefur áður upplifað. Tímarnir eru spennandi,“ segir Sveinn og heldur áfram:

„Bylting með skammtabitatölvum virðist ekki langt undan. Slíkar nota aðra tækni en hefðbundnar vélar gera í dag. Hvert gildi þarf ekki að vera bara 0 og 1 heldur öll gildi þarna á milli. Þessar tölvur geta reiknað margfalt meira en hefðbundnar. En þó tæknin sé komin verður samt líka að halda því til haga að alltaf tekur nokkurn tíma að ávinningurinn skili sér út í samfélagið. Þá eru orkumál í hraðri þróun hvarvetna í heiminum. Þau eru mikið rædd, meðal annars út frá markaði og tækninni. Nú má til dæmis gera ráð fyrir því að verð á sólarorku og vindorku haldi áfram að lækka á Vesturlöndum, sem gæti leitt til lægra orkuverðs. Kolaöldinni er líka að ljúka.“

„Nú er viðbúið að 2025 verði ár gervigreindarinnar. Spurningin núna er: hvernig á að notfæra sér þessa tækni,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá OECD í París. „Í mínu alþjóðlega umhverfi beinum við sérstaklega sjónum að þróunarríkjum. Þar snýst okkar vinna um að finna leiðir og marka stefnu sem tryggir að þau verði ekki skilin eftir í þessari þróun. Einnig að tekið verði tillit til aðstæðna þeirra og sérstöðu við þróun gervigreindar. Að þau fái einnig notið ágóðans af stafrænu umbyltingunni.“

Bil á milli þróaðra og þróunarríkja hefur aukist frekar en hitt á síðustu misserum, ekki síst vegna ótryggrar stöðu og átaka víða um heim, að sögn Ragnheiðar. Pólitíska bilið fari einnig almennt vaxandi víða um heim eins og sést hafi í útkomu meirihluta fjölmargra kosninga á árinu.

„Sviðsmyndin fyrir næsta ár litast líklega af auknum pólitískum óstöðugleika og átökum, frekar en pólitískri samstöðu. Í því samhengi er líklegt að endurkoma Trumps setji stóran svip á komandi ár og hvernig Trump 2.0 stýrir Bandaríkjunum, sérstaklega í alþjóðamálum og viðskiptum. Þó tel ég að meirihluti leiðtoga heimsins átti sig á að til þess að tryggja stöðugleika er nauðsynlegt að leita leiða til þess að byggja brýr á milli ólíkra sjónarmiða. Ég fer með þá von inn í nýtt ár, 2025.“

„Í heilbrigðisþjónustu verður árið 2025 mjög spennandi,“ segir Ólafur Baldursson, læknir og sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. „Starfsfólkið er afar öflugt og mun standa sig með sóma á nýju ári. Breytingar eru fyrirsjáanlegar á yfirstjórn málaflokksins. Spurningin er hvort eingöngu verði pólitískar áherslubreytingar eða hvort ný stjórn hafi áhuga á að breyta skipulagi og stjórnun málaflokksins að einhverju leyti.“

Þróun nýrra meðferða og tæknilausna í heilbrigðisþjónustu er gríðarlega hröð, segir Ólafur. Starfsfólk og stjórnendur þurfi að hafa sig alla við til þess að fylgja henni og taka þátt í mótun.

„Á þetta mun reyna mikið strax á næsta ári og á komandi árum: þetta eru mjög spennandi tímar og tækifærin víða. Sprotafyrirtæki geyma hluta tækifæranna og nýr háskólaspítali er nú loksins í sjónmáli. Nýjar meðferðir spretta upp og þarf að taka til notkunar með skilvirkum og hagkvæmum hætti. Allt kostar þetta mikla vinnu og óskipta athygli á veginn fram undan. Einstaka blik í baksýnisspeglana má ekki standa nema í örfáar sekúndur. Þó svo að margt gamalt sé líka gott í okkar ágæta heilbrigðiskerfi, þá er skýrara núna en nokkru sinni fyrr að áskoranir framtíðar verða ekki eingöngu leystar með aðferðum fortíðar.“