Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Magnús Birgisson hefur verið golfkennari síðan 1991. Hann hefur haldið námskeið heima og erlendis og þar á meðal þriggja kvölda námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands um árabil, en það næsta verður 6., 8. og 9. janúar og er uppselt. „Við höfum verið með frá tveimur upp í sex námskeið hjá Endurmenntun á ári og yfirleitt hefur verið fullt og biðlistar á námskeiðin en 16 manns komast að hverju sinni,“ segir Magnús, sem er ekki aðeins PGA-golfkennari menntaður í Svíþjóð heldur jafnframt þroskaþjálfi og húsasmiður að mennt.
Magnús hefur verið yfirgolfkennari hjá golfklúbbum í Garðabæ frá 1993 og í yfir 20 ár hjá GKG og síðan í Golfklúbbnum Oddi. Hann hefur auk þess verið með verkefni hjá ýmsum golfklúbbum á landsbyggðinni og var kennari hjá Golfkennaraskóla Íslands frá upphafi skólans til 2019. Frá 1997 hefur hann verið með golfskóla fyrir Íslendinga erlendis, fyrst fyrir ferðaskrifstofur og frá 2005 á vegum Golfsögu, fyrirtækis sem hann á með Herði Arnarsyni og Ragnhildi Sigurðardóttur. Golfsaga, sem er í samstarfi við ferðaskrifstofuna Verdi Travel, er með golfskóla á Costa Ballena á Spáni og býður auk þess upp á golfferðir til Montecastillo, Novo Sancti Petri og Fairplay í Andalúsíu, La Sella norðan við Alicante og La Gomera og Salobre á Gran Canaria.
Golf fyrir alla
„Markmiðið með námskeiðinu „Byrjaðu í golfi – fyrir byrjendur og lengra komna“ er að kynna golf fyrir fólki á aðgengilegan og skemmtilegan hátt,“ segir Magnús um námskeiðið hjá Endurmenntun, sem hefur notið mikilla vinsælda. Nemendur nota SNAG-golfútbúnað, sem er sérhannaður fyrir byrjendur. Kennslan fer fram tvö kvöld í húsnæði Endurmenntunar og verklegar æfingar eru síðan eitt kvöld í golfæfingasal í Hraunkoti á æfingasvæði Golfklúbbsins Keilis í Hafnarfirði. „Námskeiðið er hugsað fyrir alla sem hafa áhuga á að kynnast siðum og venjum í golfi við þægilegar aðstæður og læra grunnhreyfingarnar,“ heldur hann áfram.
Magnús hefur stundað golf frá unga aldri. Hann varð meðal annars tvisvar drengjameistari Íslands, Íslandsmeistari 21 árs og yngri 1978 og var í sveit Íslands á EM unglinga 1978-1979. Hann hefur nokkrum sinnum orðið Íslandsmeistari í sveitakeppnum golfklúbba. Eftir að Magnús byrjaði að kenna golf mátti áhugamaður ekki hafa tekjur af íþróttinni. „Ég varð því að segja mig frá áhugamennsku og golfkennarar á þessum tíma máttu hvorki spila í áhugamannamótum né fylgjast of náið með nemendum sínum í keppni, til að koma í veg fyrir að þeir hjálpuðu þeim of mikið! Svíar breyttu þessum reglum um aldamótin og síðan höfum við getað verið með.“ Kennslan sé samt aðalatriðið hjá honum og þar kemur iðnnámið sér vel. „Góður grunnur skiptir öllu máli þegar byggja á gott hús.“