Geir Waage
Geir Waage
Mál er að linni hvoru tveggja: Stríðinu í Úkraínu og þvælunni sem látin er vera frjettir af því.

Geir Waage

Snemma morguns hinn 17. desember var rússneski hershöfðinginn Igor Kirillov myrtur ásamt bílstjóra sínum í sprengjutilræði sem fólk úr leyniþjónustu úkraínska hersins segist hafa staðið að. Sú leyniþjónusta hefur staðið að morðum á „andstæðingum Úkraínu“ víða um jarðir, svo sem rithöfundinum Darinu Duginu, blaðamanninum Tatarsky og einum samningamanna Úkraínu í Istanbúl-friðarviðræðunum vorið 2022, Denis Kieryev. Sílesk-bandaríski blaðamaðurinn Gonzalo Lira dó í úkraínsku fangelsi. Kiril Boudanov hershöfðingi, yfirmaður leyniþjónustunnar, heldur úti „dauðalista“ þar sem finna má nöfn hundraða meintra andstæðinga Selenskí-stjórnarinnar víða um lönd. Lira var á listanum. Ísis-hryðjuverkamenn voru látnir gangast við hryðjuverkinu í Krókus-tónlistarhúsinu í Moskvu 11. apríl 2024, þar sem 133 týndu lífi en hundruð lágu sár eftir. Síðan var verkið rakið til leyniþjónustu úkraínska hersins og Boudanovs og munu fáir nú efast um hverjir stóðu að baki.

Wall Street Journal birti myndskeið af tilræðinu þann 17. desember þar sem tilgreindar voru meintar ástæður morðsins af hálfu Úkraínu, en Igor Kirillov hershöfðingi var yfirmaður eiturefna- og sýklavarna hersins og Úkraínumenn höfðu einmitt sakað Rússa um þess háttar hernað.

Hins vegar er þess að gæta, að samkvæmt frjett Daily Mail 5. marz 2022 hjeldu Bandaríkin úti 46 rannsóknarstöðvum á þessu sviði í Úkraínu á vegum „Defense Threat Reduction Agency“. Kirilov hafði á hendi rannsókn á starfsemi þeirra rannsóknarstofa sem Rússar náðu á sitt vald í upphafi átaka árið 2022. Ýmsir aðrir en úkraínsk stjórnvöld kunna því að hafa haft áhuga á Kirilov, einkum í ljósi þeirrar gríðarlegu spillingar sem þrífst á þeim milljörðum bandaríkjadala sem flæða þar um og eru hvarvetna samofnir öllu þjóðlífi.

Sir Michael Clarke, hin virta og fágaða áróðursmálpípa stjórnvalda í Bretlandi hjá Sky News, flutti skelegga varnarræðu fyrir morðinu, sem hann taldi „að myndi hræða Rússa“. Þó kallaði hann verknaðinn hryðjuverk, en Úkraínumenn væru í fullum rjetti til að beita slíkum ráðum!

Enginn hefur skýrt ljósar tilgang hernaðar Bandaríkjanna gegn Rússum en bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham, sem í sjónvarpsviðtali sagði: „Úkraína er gullnáma, virði 12 trilljóna bandaríkjadala í fágætum jarðefnum. – Ef við hjálpum Úkraínu nú geta þeir orðið beztu viðskiptafjelagar sem við nokkurn tíma gætum hafa látið okkur dreyma um. Það er stórmál hvernig Úkraínu farnast. Við skulum hjálpa þeim til að vinna stríð sem við höfum ekki efni á að tapa. Finnum lausn á þessu stríði, en þeir sitja á gullnámu. Ég vil ekki láta Pútín njóta þessara verðmæta til þess að deila þeim með Kínverjum.“ (CBS 10. júní 2024)

Graham hefur einnig verið ötull talsmaður þess að Bandaríkin, ásamt Evrópusambandsríkjum, ljetu greipar sópa um rússneskt fje í vörzlu vestrænna fjármálastofnana til að verja því til hjálpar við Úkraínu.

Nú er það ekki tilgangur þessarar greinar að ljúka upp fyrir lesendum Mbl. leyndardómum og afkimum úkraínsk-vestrænnar „samvinnu“, heldur að vekja athygli þeirra á þeim tvískinnungi og hræsni sem hvarvetna einkennir allan frjettaflutning af styrjöld NATO-veldanna og Rússa í Úkraínu sem er vígvöllurinn og landi og lýð er þar fórnað í annarra þágu. Í helztu fjölmiðlum íslenzkum hefi ég heyrt morðinu ýmist hrósað eða það skýrt í anda sir Michaels hins brezka sem áður er nefndur. Í bráðum á þriðja ár hefur allur frjettaflutningur af orsök, framgangi og atburðum í stríði NATO og Rússa verið samfelldur áróður: Afflutningur á öllu því sem frá Rússum kemur en áróðri Bandaríkjanna og annarra NATO-velda skilað með virktum, nær alltaf án sjálfstæðra athugana af hálfu miðlanna eða athugasemda. Þótt margar glufur hafi opnazt inn í þennan einhliða áróður í erlendum fjölmiðlum, sem þó lengst hafa farið fyrir honum, gætir þess nær hvergi í innlendum frjettaflutningi. Hjá New York Times, Washington Post og Guardian hefur stundum kveðið við annan tón; jafnvel BBC, Sky News, Wion, French 24 og aðrir þ.h. miðlar nálgast það nú stundum að segja frá vígstöðunni í „átökum Rússa við Úkraínu“ út frá veruleikanum þar í stað þeirrar óskhyggju sem hjer hefur verið brugðið ljósi á. Mál er að linni hvoru tveggja: Stríðinu í Úkraínu og þvælunni sem látin er vera frjettir af því.

Höfundur er pastor emeritus í Reykholti.

Höf.: Geir Waage