Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Á nýju ári mun hægt og rólega koma í ljós raunverulegt innihald sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og um hvað var raunverulega samið á dögunum í desember. Á gamlársdag kom sitthvað í ljós í umræðum formanna flokkanna í Kryddsíldinni

Á nýju ári mun hægt og rólega koma í ljós raunverulegt innihald sáttmála nýrrar ríkisstjórnar og um hvað var raunverulega samið á dögunum í desember. Á gamlársdag kom sitthvað í ljós í umræðum formanna flokkanna í Kryddsíldinni. Þá sagði til dæmis forsætisráðherra að ný ríkisstjórn teldi ekki þörf á að fara í frekari aðgerðir að neinu ráði í málefnum þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd og stöðunni á landamærunum.

Það eru rétt um tveir og hálfur mánuður frá því að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu, ekki síst vegna þeirrar afstöðu samstarfsflokka að afgreiða ekki fleiri breytingar á málaflokknum. Það töldum við óboðlegt enda málaflokkur sem er kvikur og þarfnast í raun stöðugra breytinga til að bregðast við. Á síðustu kjörtímabilum höfum við ítrekað lagt fram breytingar sem loksins fleiri flokkar studdu, en þó ekki fyrr en vandinn varð sýnilegri og áþreifanlegri fyrir íslenskt samfélag. Eins og við höfðum varað við í nokkur ár.

Markmiðið okkar hefur alltaf verið skýrt, að stytta málsmeðferðartíma, draga úr séríslenskum reglum og minnka kostnað ríkissjóðs. Þetta hefur tekist að hluta til og breytt löggjöf hefur sýnt árangur en betur má ef duga skal.

Nú virðast ríkisstjórnarflokkarnir ánægðir með þær breytingar sem gerðar hafa verið þrátt fyrir að hafa við afgreiðslu málanna kosið út og suður, lagt til ívilnandi breytingar og hafa áður lýst frumvörpum Sjálfstæðisflokksins sem afleitum og harðneskjulegri stefnu. Það er skref í rétta átt en eftir stendur að nokkur frumvörp bíða nýs dómsmálaráðherra sem ættu að vera fyrstu skrefin í frekari aðgerðum kjörtímabilsins. Eina frumvarpið sem ný ríkisstjórn hefur boðað er það sem er tilbúið um að brotamenn missi alþjóðlega vernd. Hin frumvörpin eru þó ekki síður mikilvæg, þar má nefna að afnema fleiri séríslenskar reglur og koma á lokuðum búsetuúrræðum til að halda betur utan um brottvísanir á landamærunum. Þá er mikilvægt að innleiða tæknilausnir til að hraða málsmeðferð og nýta framtak einstaklinga sem hafa þróað slíkar lausnir.

Það skiptir máli fyrir Ísland hvernig við ætlum að takast á við áskoranir samfélagsins, meðal annars fjölgun fólks og varðveislu íslenskrar tungu og menningar. Við þurfum að tryggja að atvinnulífið vanti ekki mannauð til að auka verðmætasköpun hérlendis, tryggja að við bjóðum upp á öfluga íslenskukennslu og auðvelda viðurkenningu á menntun innflytjenda.

Um þetta er minni ágreiningur en áður, en ekki eru þetta síður stór verkefni til að ná utan um. Það er þó ekki hægt að nota þau sem skálkaskjól til að forðast að taka afstöðu til brýnna breytinga á málum þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd – þó að það hafi reynst mörgum stjórnmálaflokkum erfitt. Ég vona að nýr dómsmálaráðherra sjái það fljótt og afstaða ríkisstjórnarinnar breytist um að frekari aðgerða er einmitt þörf.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. aslaugs@althingi.is

Höf.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir