Á þessum tíma ársins er viðeigandi að fara yfir farinn veg og meta stöðuna. Yfirleitt vitum við hvort við erum að koma eða fara en oft er þægilegra að láta lífið bara líða hjá án þess að við þurfum sjálf að leggja eitthvað á okkur

Á þessum tíma ársins er viðeigandi að fara yfir farinn veg og meta stöðuna. Yfirleitt vitum við hvort við erum að koma eða fara en oft er þægilegra að láta lífið bara líða hjá án þess að við þurfum sjálf að leggja eitthvað á okkur.

Ef fólk andar djúpt og gefur sér nokkrar mínútur í friði og ró þá er svörin við öllum helstu spurningum að finna í hjartanu. Ef þú nennir ekki að anda og leita svara í hjartanu þá gæti verið einfalt að spyrja sig einnar spurningar: Hlakkar þú til að vakna á morgnana og mæta í vinnuna á hverjum degi?

Það er líklega fátt verra en að vera í vinnu sem veitir takmarkaða gleði og enn þá verra ef þú hefur ekki hæfni í starfið. Það er mjög vont að vera í vinnu sem fólk ræður ekki við. Ég hef einu sinni verið í þessum sporum og það var afleitt.

Þegar ég var yngri vantaði mig óskaplega meiri peninga því dagvinnulaunin dugðu ekki fyrir húsbréfunum. Ég tók þá ákvörðun að ræsta leikskóla í Þingholtunum í aukavinnu. Vinnustaðurinn leit vel út. Húsið var reisulegt og var mitt verkefni að þrífa hátt og lágt eftir að leikskóladegi barnanna lauk.

Á meðan ég ryksugaði og skúraði línóleumdúka, þreif klístur af borðum og stólum, hurðum og sótthreinsaði klósett komst bara ein hugsun að; hvernig get ég komist út úr þessum hræðilegu aðstæðum? Að vera alein í risastóru húsi eftir lokun að þrífa upp óhreinindi eftir fólk á öllum aldri hentaði mér illa. Að burðast með ryksugu á milli hæða og passa að það sé ekki ryk á gólflistum er ekki alveg mín hugmynd um framúrskarandi skemmtun. Til að bæta gráu ofan á svart þá var ég reglulega tekin á teppið hjá leikskólastjóranum fyrir að þrífa kámið ekki nógu vel af hurðunum.

Þetta áhugaverða atvinnutímabil varði þó ekki mjög lengi því í öllum ræstingunum fékk ég nokkrar atvinnuskapandi hugmyndir sem komu mér úr gúmmíhönskum og fyrir framan tölvu og myndavélar sem átti eftir að setja tóninn fyrir næstu tvo áratugi.

Óánægja í vinnu á þó ekki bara við fólk í gúmmíhönskum sem ræstir leikskóla í aukavinnu vegna blankheita. Það getur komið fyrir alla að finna til vanmáttar og hætta að finnast gaman í vinnunni. Það getur líka verið leiðinlegt í vinnu þótt hún sé vel borguð og að þig hafi dreymt um að verða það sem þú varðst að lokum. Það er engin dyggð að hanga í starfi því það þykir fínt ef þú hlakkar ekki til að vakna næsta morgun og reykspóla af stað í vinnuna.

Hér í blaðinu má finna viðtöl við fólk sem breytti um takt. Lærði eitthvað nýtt til þess að lifa innihaldsríkara lífi og jafnvel á einhverjum allt öðrum vettvangi. Það er aldrei of seint að læra eitthvað nýtt. Það er einmitt það sem ég sagði við tengdamóður mína um áramótin þegar hún rifjaði upp Grikklandsferðina sem hún fór í á dögunum. Þessi 84 ára ættmóðir okkar þráir að læra grísku og ég spurði hvers vegna í ósköpunum hún skráði sig ekki í háskólanám. Þá kom í ljós að það er því miður búið að loka fyrir skráningu þessa önnina en það kemur vonandi önn eftir þessa. Ekki nema hún byrji á TikTok. Það hlýtur að vera hægt að læra grísku þar.