Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Nýjustu aflögunargögn frá Veðurstofunni, frá 30. desember, sýna að hraðinn á kvikuinnflæði undir Svartsengi er svipaður og hann var fyrir síðasta eldgos sem hófst 20. nóvember sl. Ef kvikusöfnun verður á svipuðum hraða má gera ráð fyrir að 12 milljónir rúmmetra af kviku hafi safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi í lok mánaðar og strax í fyrstu viku febrúar gæti sú tala orðið 13,5 milljónir rúmmetra.
Líkanreikningar Veðurstofu sýna að líkur aukast mikið á kvikuhlaupi þegar kvikumagnið hefur náð 12-15 milljónum rúmmetra og því verða líkur á nýju eldgosi orðnar umtalsverðar í lok mánaðar eða byrjun febrúar, svo fremi að hraðinn haldist á svipuðu róli og hingað til.
Uppfært hættumat Veðurstofunnar gildir að öllu óbreyttu til 14. janúar nk. Í matinu er hætta nú metin nokkur á svæði 6 og hættustig þar með fært niður í gult frá appelsínugulu vegna minni hættu á hraunflæði á svæðinu. Hins vegar er nýjasta hraunbreiðan ennþá heit og metin hættuleg göngufólki.
Lítil skjálftavirkni hefur verið á Sundhnúkagígaröðinni frá því að síðasta eldgosi lauk 8. desember sl. Meiri virkni var við Eldey í hrinu þegar 200 jarðskjálftar mældust frá 29.-31. desember.