Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Nú þarf að kalla hópinn saman. Eyjólfur þarf að kveðja söfnuðinn og segja frá þeim áformum sem hann stefnir nú að,“ segir Guðni Ágústsson, einn talsmanna Orkunnar okkar, um áframhaldið hjá samtökunum eftir að formaðurinn Eyjólfur Ármannsson hefur tekið við embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Eyjólfur hefur farið fyrir okkar liði í baráttunni gegn Bókun 35 og gegn aðild að Evrópusambandinu. Hann hefur nú kúvent og gleypt allt sem hann sagði áður. Ég hef ekki heyrt að hann hafi sett einn einasta fyrirvara í þessu máli.“
Guðni segir að þegar þingið komi saman þurfi Eyjólfur að skrifa undir drengskaparheitið.
„Sannfæring hans sem stjórnmálamanns er að ekki eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að Bókun 35 sé stjórnarskrárbrot. Þetta þarf hann að hafa í huga þegar hann sver drengskapaheitið og byrjar sinn ráðherraferil í ríkisstjórn sem gengur gegn hans grundvallarprinsippum.“
Þetta er ekkert stórmál
Eyjólfur sagði við mbl.is rétt fyrir áramót þegar ríkisstjórnin var mynduð að skoðun hans, um að Bókun 35 væri brot á stjórnarskrá, hefði ekkert breyst.
„Þetta er ekkert stórmál, þannig lagað. En ég er ekki að fara að slíta ríkisstjórn vegna þessa,“ sagði Eyjólfur við mbl.is.
Guðni segir stærstu tíðindin við myndun stjórnarinnar vera að Inga Sæland hafi kokgleypt stefnu Þorgerðar Katrínar og sé komin í sömu stöðu og Steingrímur J var í, með Jóhönnu, þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu.
„Í þeim vonlausa leiðangri sat Steingrímur öfugur í hnakknum þegar reiðin hófst til Evrópu og það sama virðist ætla fyrir Ingu að liggja. Svo saltar Þorgerður allsherjarráðherra grautinn svo heiftarlega að þjóðin verður klofin í þessu máli alveg eins og gerðist síðast. Við vitum hvar sú stjórn endaði með Evrópumálin. Össur Skarphéðinsson veitti því máli forystu, skoðaði ofan í alla potta Evrópusambandsins og þegar kom að auðlindum Íslands pakkaði hann saman og fór til Kína og er þar enn.“
Síðasta Evrópuvegferð endaði í Kína
Hann segir Evrópusambandsviðræður vinstri stjórnarinnar hafa endað með fríverslunarsamningi milli Íslands og Kína.
„Þannig að Össur minn er ekki hátt skrifaður hjá Evrópusambandinu og ég veit ekki hvernig Evrópusambandið tekur á móti evrópusinnuðum íslenskum stjórnmálaflokkum sem leika tveimur skjöldum.“
Guðni segist ekki vilja tala niður fríverslunarsamninginn við Kína sem Össur gerði og segir að þann samning hefði aldrei verið hægt að gera ef við værum í Evrópusambandinu. „Slíkir samningar verða úr gildi ef við göngum í Evrópusambandið.“
Spurður hvaða áhrif Evrópusambandsaðild geti haft á Íslandi segir Guðni að Ísland sé meira og meira að færast inn í kerfi ESB sem taki af okkur frelsið og raforkuverð muni halda áfram að hækka.
Orkan okkar – Talsmenn
Bjarni Jónsson
Elinóra Inga Sigurðardóttir
Erlendur Borgþórsson
Frosti Sigurjónsson
Guðni Ágústsson
Haraldur Ólafsson
Hjörleifur Guttormsson
Ingibjörg Sverrisdóttir
Jón Baldvin Hannibalsson
Jón Kári Jónsson
Vigdís Hauksdóttir