Addi býr í Árbænum með Hrafnhildi Sesselju Mooney og segir þau eiga samtals fjögur börn og átta mánaða míní-schnauzer-hundinn Lottu. Hann bjó í ein tíu ár í Svíþjóð þar sem hann gifti sig og eignaðist tvö börn. Þar vann hann sem PGA-golfkennari í stórum klúbbi en hann vinnur enn við golfkennslu. Auk golfsins segist hann fara í fjallgöngur, á skíði og hafa gaman af ferðalögum.
„Ég hef líka mjög gaman af því að dunda mér við endurbætur á heimilinu.“
Hálfgerður Bjarnfreðarson
Addi er fæddur og uppalinn í Reykjavík en hann hóf skólagöngu sína í Laugarnesskóla og lauk grunnskólanum í Hólabrekkuskóla með viðkomu í Fossvogsskóla. Addi segist geta státað af nokkrum gráðum og bætir við að hann sé nettur Bjarnfreðarson. „Eftir grunnskólann lá leiðin í Fjölbraut við Ármúla þaðan sem ég útskrifaðist sem stúdent árið 1994. Ég lærði svo golfkennarann í Svíþjóð og fór í Háskólann á Akureyri þegar ég flutti aftur heim til Íslands. Ég útskrifaðist þaðan með BS-gráðu í viðskiptafræði árið 2009. Síðar bætti ég við mig Msc-gráðu í fjármálum fyrirtækja árið 2011 í Háskólanum í Reykjavík.“
Eftir að hafa klárað viðskiptafræðina fór Addi að vinna hjá Íslandsbanka þar sem hann starfaði í ein 15 ár. Hann ákvað svo að venda kvæði sínu í kross og settist aftur á skólabekk til að hefja nám í rafvirkjun. „Ég byrjaði í rafvirkjanáminu haustið 2020 og fór svo að vinna sem rafvirkjanemi í kjölfarið. Ég lauk loks sveinsprófinu vorið 2024. Í upphafi þessa árs fór ég svo að vinna hjá Jóhanni Ólafssyni & Co sem sölumaður og lýsingarráðgjafi en ég vinn einnig sem sjálfstætt starfandi rafvirki og golfkennari.“
Viðskiptafræðinámið kom ekki til af góðu
En hvers vegna lá leiðin á sínum tíma í viðskiptafræðina?
„Það kom eiginlega ekki til af góðu. Draumurinn var alltaf að verða golfkennari og starfa erlendis. Ég byrjaði í golfi 13 ára, golfvöllurinn varð mitt annað heimili, ég spilaði með unglingalandsliðinu og fór fljótt að kenna golf þegar ég bjó í Svíþjóð. Svo lenti ég í bílslysi, fékk slæmt brjósklos og það var tvísýnt hvort ég gæti haldið áfram sem golfkennari. Ég fann þarna að ég vildi mennta mig meira og þá ekki síst til að tryggja mér atvinnu í framtíðinni. Ég var á þessum tíma að flytja til Íslands eftir Svíþjóðardvölina og skráði mig í fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.“
Hafði alltaf áhuga á að vinna með höndunum
Addi segist hafa unnið í fullu starfi í þjónustuveri Íslandsbanka meðfram náminu og þegar hann útskrifaðist með Msc í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík hafi honum boðist að færa sig yfir í fjármögnunardeildina í Íslandsbanka sem síðar varð Ergo. Hann starfaði þar sem atvinnutækjaráðgjafi til ársins 2021. En hvað varð svo til þess að hann ákvað að setjast á skólabekk og fara að læra iðngrein?
„Í gegnum árin hafði ég alltaf áhuga á að gera eitthvað með höndunum, hef sinnt viðhaldi og gert upp eigið húsnæði nokkrum sinnum. Ætli það hafi ekki verið 2017 sem ég spáði fyrst í að læra rafvirkjun. Ég var þá að gera upp eigin íbúð og var einnig að aðstoða kærustuna við að græja rafmagn í hennar íbúð. Við vorum metnaðarfull, fræstum meðal annars fyrir nýjum raflögnum og múruðum svo inn rörin með kökuskreytingapoka! Þetta gekk fáránlega vel hjá okkur og ég áttaði mig á að þetta var eitthvað sem ég gæti hugsað mér að starfa við. Ég hafði orð á þessu við gamlan golffélaga sem er kennari í rafvirkjun við kvöldskólann í FB og hann hvatti mig eindregið til að sækja um.“ Addi segir að um vorið 2020 hafi hann virkilega fundið að hann langaði að breyta til og skráði sig í námið. „Það var í raun alltaf planið hjá mér að skipta um starfsvettvang.“
Fann fyrir miklum stuðningi
En hvernig var að setjast aftur á skólabekk á miðjum aldri? „Það var gaman að fara aftur í skóla en auðvitað áskorun meðfram fullu starfi og fjölskyldu. Ég byrjaði rólega í tveimur fögum fyrstu önnina til að kanna álag og áhuga. Ég fann að þetta var málið og fór því í fullt nám í kvöldskóla á vorönn 2021.“ Hann bætir við að fjölskyldan hafi stutt hann í ákvörðun sinni þótt eflaust hafi einhverjum fundist þetta bölvuð vitleysa.
Flestir sem eru nú þegar með háskólagráður bæta við sig gráðum í því skólastigi, var ekkert erfitt að fara á þetta skólastig? „Í kvöldskóla er breiður hópur af fólki öllum aldri og með mismunandi bakgrunn. Ég var því ekkert öðruvísi en aðrir og ekki sá eini með mastersgráðu í fjármálum. Það munar auðvitað miklu að hafa lokið krefjandi námi, eins hef ég átt gott með að læra. Þar sem ég var með stúdentspróf þurfti ég bara að taka fög tengd rafmagni. Grunnnámskeiðin voru þægileg en svo þyngdist þetta þegar leið á.“
Hann segir svo að það hafi í raun ekki verið neitt sérstaklega erfitt að venda kvæði sínu í kross á þessum aldri. „Í raun var þetta ekki svo erfitt eftir að ég tók ákvörðunina. Ég hafði líka gert þetta áður þegar ég hætti að vinna sem golfkennari í fullu starfi, lærði viðskiptafræði og fór að vinna í banka 2007, korter í bankahrun!“
„Hvað er ég eiginlega að gera hér?“
Hvað skyldi hafa komið Adda mest á óvart á nýja starfsvettvanginum? „Ég hafði lítið velt fyrir mér líkamlega álaginu sem starf rafvirkjans felur í sér. Það var ákveðinn skellur fyrir fimmtuga „skrifstofublók“. Ég man alltaf eftir því þegar ég var að hlaupa upp og niður stiga allan daginn í nýbyggingu í frosti og kulda og hugsaði: hvað er ég eiginlega að gera hérna! Af hverju er ég ekki í þægilega hlýja sætinu mínu með góðu kaffivélina á 7. hæð í Norðurturninum?“ segir Addi.
Alger núvitund að brjóta vegg með SDS-borvél
Hann segir að rafvirkjastarfinu fylgi bæði kostir og gallar. „Rafvirkjun er mjög fjölbreytt og þar er mikil nýsköpun í gangi. Ég byrjaði til dæmis í nýbyggingum, vann við ljósleiðara og að endurnýja hótel. Nú má segja að hringnum sé lokað því í núverandi starfi hjá Jóhanni Ólafssyni og Co. sameinast viðskiptafræðin og rafvirkjunin. Ég er að hanna og gera tilboð í lýsingu fyrir verk af öllum stærðum og gerðum og svo er ég með minn eigin rekstur sem rafvirki. Þar er ég að fást við allar tegundir verkefna nema þau sem fela í sér að hlaupa á milli hæða allan daginn,“ segir hann og bætir við að það kunni að hljóma einkennilega en það sé eitthvað við það að vera með risa SDS-borvél og brjóta vegg. „Það er algjör núvitund.“ Addi segist aldrei hafa fundið fyrir fordómum gagnvart því að skipta um starfsferil og fara að vinna sem iðnaðarmaður. „Ég fann frekar fyrir hvatningu en fordómum í þessari vegferð minni. En kannski voru einhverjir sem hugsuðu: hvað er þessi bankadúddi að gera hér!“
Margt sem hann gat nýtt úr viðskiptafræðináminu
Var eitthvað sameiginlegt sem þú gast nýtt úr viðskiptafræðinni yfir í rafvirkjunina? „Já tvímælalaust, að hafa stundað háskólanám meðfram fullri vinnu krefst aga, samviskusemi og góðrar nýtingar á tíma. Þá eru þættir úr háskólanáminu og starfinu í bankanum sem nýtast vel t.d. varðandi skipulag, innkaup, verkferla, samvinnu og kostnaðaraðhald. Einnig fyrir minn eigin rekstur þar sem ég hef góða menntun og reynslu í fjármálum og bókhaldi. Öll þessi störf eiga það svo sameiginlegt að krefjast mikillar hæfni í samskiptum.“ Addi bætir hér við að það sé þó eitt sem hann sjái eftir af gamla starfsvettvanginum og það sé mötuneytið í bankanum.
„Framtíðin er í rafmagni“
En skyldi Addi mæla með því að læra og starfa sem rafvirki? „Ég mæli auðvitað með rafvirkjun. Í rafiðnaði eru gríðarleg tækifæri og störfin eru mjög fjölbreytt. Framtíðin er í rafmagni og orkuskiptin handan við hornið, það er vöntun á iðnmenntuðu fólki og atvinnutækifærin því nánast á hverju strái. Auk þess er það auðvitað kostur að geta unnið sjálfstætt og til viðbótar við önnur störf, hvort sem það er í banka eða lífeyrissjóði.“
Ekki ofhugsa ef fólk langar að læra eitthvað nýtt
Ekki stendur á svari þegar hann er spurður hvort hann geti gefið lesendum sem langar að mennta sig upp á nýtt einhver góð ráð. „Ég hvet alla sem langar í tilbreytingu og læra eitthvað nýtt að ofhugsa það ekki. Bara „let's go“ og skrá sig, það er í raun stærsta skrefið. Ég mæli með að byrja rólega, annars er hætt við að fólk gefist upp vegna álags. Svo er mikilvægt að hafa gaman því annars er svo leiðinlegt!“ segir Addi að lokum.