Jurtaæta Eðlunni sem hér sést svipar til fenriseðlu með langan háls.
Jurtaæta Eðlunni sem hér sést svipar til fenriseðlu með langan háls. — AFP/Stephane de Sakutin
Fornleifafræðingar á Bretlandi rannsaka nú slóð fótspora sem varðveist hafa í kalksteini, en spor þessi eru um 166 milljóna ára gömul og voru mörkuð af risaeðlum. Alls eru þetta um 200 fótspor og er gönguleiðin forna alls um 150 metra löng. Hugsanlegt er að slóðin sé enn lengri, það mun koma í ljós við frekari rannsókn. Aldrei fyrr hafa álíka minjar fundist á Bretlandseyjum.

Fornleifafræðingar á Bretlandi rannsaka nú slóð fótspora sem varðveist hafa í kalksteini, en spor þessi eru um 166 milljóna ára gömul og voru mörkuð af risaeðlum. Alls eru þetta um 200 fótspor og er gönguleiðin forna alls um 150 metra löng. Hugsanlegt er að slóðin sé enn lengri, það mun koma í ljós við frekari rannsókn. Aldrei fyrr hafa álíka minjar fundist á Bretlandseyjum.

Sporin eru eftir tvær risaeðlur og liggja þau samsíða. Er önnur eðlan talin hafa verið fenriseðla en hin rumeðla. Hin fyrrnefnda var jurtaæta með langan háls. Eðlur af þessari tegund hafa fundist víðar, s.s. í Bandaríkjunum. Í nóvember árið 1990 fundust bein fenriseðlu í Wyoming. Þau sýndu að skepnan var um 21 metri á lengd og jafnframt stærsta fenriseðla sem fundist hefur. Rumeðlur voru um níu metra löng rándýr og voru eðlur af þessari tegund í hópi þeirra fyrstu sem vísindamenn grófu upp. Þær gengu uppréttar á tveimur fótum og höfðu stutta framstæða griparma. Auk þess að vera með beittar klær var vopnabúrið bitsterkur kjafturinn sem fullur var af vígtönnum.

„Þetta er ein áhugaverðasta þyrping fótspora sem ég hef rannsakað, í ljósi umfangs og fjölda fótspora,“ sagði Kirsty Edgar steingervingafræðingur í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC. „Hér er hægt að horfa á liðinn tíma og fá tilfinningu fyrir því hvernig lífið var þegar þessar risavöxnu skepnur gengu frjálsar um,“ bætti fræðingurinn við.

Sá er fyrst fann sporin er gröfumaður að nafni Gary Johnson. Hann segist fyrst hafa fundið fyrir ójöfnu í jarðveginum og ekkert spáð í það fyrr en hann fann aðra ójöfnu þremur metrum fjær og svo enn aðra. Þá áttaði Johnson sig á fundinum og gerði viðvart um hann. khj@mbl.is