Þýskaland
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Landsliðsfyrirliðinn og knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir átti frábært ár en hún varð Þýskalandsmeistari síðasta vor með félagsliði sínu Bayern München, þar sem hún er einnig fyrirliði.
Til að toppa árið 2024 var Glódís sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðarlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag.
„Þetta er gríðarlega mikill heiður og kom mér mikið á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég hafði í raun aldrei pælt eitthvað sérstaklega í því að þetta gæti verið möguleiki. Ég er þakklát og dagurinn í gær [fyrradag] var mjög fallegur í alla staði. Nú er bara að halda áfram á sömu braut til þess að standa undir orðunni,“ sagði Glódís í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.
Glódís Perla, sem er 29 ára gömul, var í lykilhluverki í varnarleik þýska liðsins og þá var hún einnig í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2025 með sögulegum sigri gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli í júlí.
Þá varð hún í 22. sæti í Ballon d‘Or-kjörinu um besta knattspyrnufólk heims og var hún efst allra miðvarða í kjörinu en enginn Íslendingur hefur áður verið tilnefndur til verðlaunanna virtu sem France Football stendur fyrir ár hvert.
Mjög sátt við árið
„Ég er mjög sátt við árið sem var að líða,“ sagði Glódís Perla og hélt áfram:
„Það var mikið af hápunktum á árinu og fyrir mig persónulega voru kannski tveir hápunktar sem standa upp úr. Annars vegar að lyfta bikarnum sem fyrirliði Bayern München í fyrsta sinn og svo sigurinn gegn Þýskalandi á Laugardalsvelli. Þetta er líklega það sem stendur upp úr á árinu en þetta var líka ótrúlega krefjandi ár fyrir mig persónulega. Í því fólst mikill lærdómur og það gerði sigrana líka sætari fyrir vikið,“ sagði Glódís.
Töpuðu ekki deildarleik
Bayern München fór í gegnum síðasta tímabil án þess að tapa leik í deildinni en liðið endaði með 60 stig, vann 19 leiki og gerði þrjú jafntefli.
„Þetta var frábært tímabil og að fara í gegnum það án þess að tapa deildarleik var virkilega gaman. Við lögðum ekki upp með það þegar við hófum í tímabilið en við áttuðum okkur svo á því eftir áramót, að við værum ekki búnar að tapa deildarleik. Það vatt svo bara upp á sig og við settum líka met yfir flesta leiki í röð í deildinni án þess að tapa.
Þetta voru rúmlega 40 leikir án ósigurs og það var sérstaklega gaman að upplifa það sem varnarmaður. Það er oft talað um markamet og annað í fótbolta en þegar þú tapar ekki í rúmlega 40 leikjum þá er það varnarleikurinn fyrst og fremst sem skilar því. Þá er allt liðið að verjast sem ein heild og liðið á stórt hrós skilið fyrir það.“
Tók gengið inn á sig
Norðmaðurinn Alexander Straus tók við þjálfun Bayern München árið 2022 og gerði Glódísi að fyrirliða liðsins fyrir keppnistímabilið 2023-24.
„Markmiðið hjá mér var að þetta myndi ekki breyta neinu persónulega og að ég myndi bara halda áfram að spila minn leik en svo breytast hlutirnir ósjálfrátt einhvern veginn. Það fylgir þessu bæði meiri ábyrgð og pressa og þó að við höfum verið frábærar eftir áramót þá gekk okkur til að mynda ekki vel í Meistaradeildinni fyrir áramót. Það var virkilega krefjandi tími að takast á við það í fyrsta skipti.
Við náðum ekki markmiðum okkar í Meistaradeildinni og féllum úr leik í riðlakeppninni. Mér fannst ég vera sú sem bar mesta ábyrgð á frammistöðunni og ég tók þetta inn á mig. Þetta hafði klárlega áhrif á mig en fyrirfram hélt ég að þetta myndi kannski ekki hafa bein áhrif á mig. Þetta var líka mjög lærdómsríkur tími og að vera fyrirliði er mjög skemmtilegt hlutverk. Það er skemmtilegast þegar vel gengur en getur verið erfitt líka þegar það gengur illa.“
Betri fyrirliði í dag
Gerir þú miklar kröfur til sjálfs þíns?
„Já ég geri það. Ég er með miklar og háar kröfur og kannski er maður aldrei fullkomlega sáttur með sjálfan sig, sama hvað. Það getur verið bæði gott og slæmt. Ég held að þessi hugsunarháttur hafi klárlega hjálpað mér á margan hátt og ég væri kannski ekki á þeim stað sem ég er á í dag ef ég gerði ekki svona miklar kröfur til sjálfrar mín.
Á sama tíma getur verið erfitt að njóta sín alltaf þegar þú finnur alltaf eitthvað sem dregur þig niður. Ég er samt alltaf að læra og mér finnst ég læra meira, eftir því sem ég eldist. Ég hef lært mjög mikið af fyrirliðabandinu og hlutverkinu sem því fylgir. Ég vona að ég hafi vaxið í hlutverkinu og að ég sé betri í því í dag.“
Talar mikið á vellinum
Glódís tók við fyrirliðabandinu hjá kvennalandsliðinu í febrúar árið 2023 þegar Sara Björk Gunnarsdóttir lagði landsliðsskóna á hilluna en Glódís á að baki 132 A-landsleiki og er þriðja leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.
„Mér hefur alltaf fundist ég bera ábyrgð innan vallar, jafnvel þó að ég sé kannski ekkert með mikla ábyrgð á mínum herðum. Ég hef alltaf gert kröfur til sjálfrar mín og ég gerði það löngu áður en ég var gerð að fyrirliða og ég held að það hafi hjálpað mér í þessu hlutverki. Mér hefur ég fundist bera ákveðna ábyrgð á frammistöðu liðsins og það er ágætis undirbúningur fyrir fyrirliðahlutverkið.“
En hvað gerir Glódísi að góðum fyrirliða?
„Þetta er spurning fyrir liðsfélagana en ég held að ég sé bæði hvetjandi og geri samt kröfur á sama tíma. Ég tala mikið inni á vellinum og tek ákveðna stjórn. Ég reyni að leiða liðið áfram. Að bera fyrirliðabandið hjá landsliðinu og Bayern München er gríðarlegur heiður sem ég er þakklát fyrir.“
Umræðan hefur ekki áhrif
Kvennalandsliðið hefur verið á mikilli uppleið að undanförnu en Þorsteinn Halldórsson, sem hefur stýrt liðinu frá því í janúar árið 2021, fékk sinn skerf af gagnrýni ásamt leikmönnum liðsins, á sínum fyrstu árum með liðið.
„Ég er búin að segja það áður að ég geri miklar kröfur en á sama tíma er ég ekki að kippa mér mikið upp við það sem aðrir segja. Við vissum allan tímann að liðið væri á ákveðinni vegferð og að sú vegferð myndi taka tíma.
Það hafa allir sína skoðun sem er hollt og gott og gerir fótboltann skemmtilegri fyrir vikið en það sem skiptir mestu máli er að við séum með leikplan, hvernig við leggjum leikina upp og hvað við gerum sem lið inni á vellinum. Maður lætur ekki utanaðkomandi umræðu hafa áhrif á sig og það er eitthvað sem kemur með reynslu og tíma. Við vitum það best sjálfar þegar við spilum ekki nægilega vel og hvað það er sem við getum bætt.“
Líður vel í München
Sér landsliðsfyrirliðinn fram á það að vera áfram í München næstu árin?
„Ég er ekki komin svo langt. Ég á eitt og hálft ár eftir af samningi mínum og er ekkert að hugsa neitt lengra en það. Ég er fyrst og fremst að einblína á yfirstandandi tímabil þar sem við ætlum okkur að verja meistaratitilinn. Það er líka mjög stórt sumar fram undan með landsliðinu. Við erum með frábæran hóp og ef við náum að stilla strengina rétt saman þá gæti þetta orðið okkar besta Evrópmót til þessa en það þarf allt að ganga upp.
Mögulega, eftir sumarið, fer maður að velta framtíðinni aðeins fyrir sér og hver næstu skref á ferlinum verða. Ég er ótrúlega ánægð hjá Bayern München og mér líður virkilega vel hjá félaginu. Ég er með frábæra liðsfélaga og hef bætt mig á hverju einasta ári. Eins og staðan er í dag sé ég ekki af hverju ég ætti að vilja breyta því.“