[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýsku handknattleiksmennirnir Sebastian Heymann og Jannik Kohlbacher hafa báðir þurft að draga sig úr þýska HM-hópnum vegna meiðsla

Þýsku handknattleiksmennirnir Sebastian Heymann og Jannik Kohlbacher hafa báðir þurft að draga sig úr þýska HM-hópnum vegna meiðsla. Báðir voru þeir í stórum hlutverkum þegar Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, höfnuðu í 2. sæti á Ólympíuleikunum í París í Frakklandi í sumar. Þeir Tim Zechel, Magdeburg, og Lukas Stutzke, Hannover-Burgdorf, hafa verið kallaðir inn í landsliðshópinn í þeirra stað.

Íslandsmeistarar Breiðabliks taka á móti nýliðum Aftureldingar í upphafsleik Bestu deildar karla í fótbolta 2025, laugardagskvöldið 5. apríl, samkvæmt drögum að niðurröðun deildarinnar sem KSÍ birti í gær. Aðrir leikir fyrstu umferðar eiga að fara fram 6. og 7. apríl og þar mætast Valur – Vestri, KA – KA, Fram – ÍA, Víkingur R. – ÍBV og Stjarnan – FH.

Keppni í Bestu deild kvenna á að hefjast 15. apríl og þar mætast í fyrstu umferðinni Breiðablik – Stjarnan, Þróttur R. – Fram, Tindastóll – FHL, Víkingur R. – Þór/KA og Valur – FH.

Breiðablik og KA mætast í meistarakeppni KSÍ í karlaflokki 31. mars og Breiðablik mætir Val í Meistarakeppni KSÍ í kvennaflokki 11. apríl en báðir leikirnir fara fram á Kópavogsvelli. Þá er áætlað að bikarúrslitaleikur kvenna fari fram á Laugardalsvellinum 16. ágúst og bikarúrslitaleikur karla 22. ágúst.

Beatrice Chebet frá Kenía náði langbesta tíma sögunnar í 5.000 metra hlaupi er hún hljóp vegalengdina á 13 mínútum og 54 sekúndum í götuhlaupi í Barcelona á gamlársdag. Bætti hún eigið heimsmet um heilar 19 sekúndur og varð í leiðinni fyrsta konan til að hlaupa fimm kílómetra á undir 14 sekúndum. Nýliðið ár var afar gott hjá Chebet því hún varð tvöfaldur ólympíumeistari á leikunum í París í sumar er hún bar sigur úr býtum í 5.000 og 10.000 metra hlaupum. Þá sló hún heimsmetið í 10.000 metra hlaupi í maí.

Svíinn Andreas Palicka, einn besti handboltamarkvörður heims um árabil, hefur samið við norsku meistarana Kolstad til tveggja ára frá og með næsta sumri. Palicka, sem er 38 ára gamall, lýkur sínu þriðja tímabili með París SG í Frakklandi í vor en hann lék áður lengi með bæði Kiel og Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Með Kolstad leika fjórir Íslendingar þar sem fyrirliðinn Sigvaldi Björn Guðjónsson er fremstur í flokki.

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah hefur fengið betra tilboð frá París SG í Frakklandi en frá félagi sínu á Englandi, Liverpool. Salah hefur farið með himinskautum hjá Liverpool á þessu keppnistímabili og er bæði markahæstur og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni. Romain Collet Gaudin, íþróttafréttamaður hjá Eurosport, segir á X að Parísarfélagið hafi boðið Salah þriggja ára samning og 500 þúsund evrur í laun á viku. Samkvæmt fréttum hafi Liverpool boðið honum tveggja ára samning og 400 þúsund evrur á viku.