Fjölskyldan Ingunn og Guðmundur og börnin, frá vinstri: Guðmundur, Stefán, Ragnheiður, Guðbjörg og Jón, árið 1972.
Fjölskyldan Ingunn og Guðmundur og börnin, frá vinstri: Guðmundur, Stefán, Ragnheiður, Guðbjörg og Jón, árið 1972.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingunn Erla Stefánsdóttir er fædd 3. janúar 1925 á Minni-Borg í Grímsnesi. „Ég gekk í farskóla í sveitinni og hjálpaði til við heimilisstörf og bústörf. Á Minni-Borg var verslun og samkomuhús sveitarinnar

Ingunn Erla Stefánsdóttir er fædd 3. janúar 1925 á Minni-Borg í Grímsnesi.

„Ég gekk í farskóla í sveitinni og hjálpaði til við heimilisstörf og bústörf. Á Minni-Borg var verslun og samkomuhús sveitarinnar. Pabbi minn var bóndi og oddviti. Móðir mín var organisti og símstöðvarstjóri. Við vorum níu systkinin, það var alltaf líf og fjör á bænum.

Ég hef alltaf haft gaman af dansi og voru böll hálfsmánaðarlega á Borg. Ég steig mín fyrstu dansspor í samkomuhúsinu þriggja ára.

Ég fór til Reykjavíkur 17 ára og fór þá strax að stunda fimleika með Ármanni, var í sýningarflokki og sýndi víða.“

Ingunn var í Húsmæðraskólanum í Reykjavík 1943-1944. „Þar eignaðist ég mínar bestu vinkonur. Nú er ég ein eftir af 35 skólasystrum. Það var mjög gaman og gagnlegt að vera í húsmæðraskólanum. Eftir skólann fór ég að vinna við verslunarstörf.

Ég kynntist eiginmanni mínum á kennaraskólaballi 1946 og giftum við okkur 24. ágúst 1947. Guðmundur maðurinn minn var í Vélskólanum og útskrifaðist þaðan sem vélstjóri. Við fluttum 1950 til Seyðisfjarðar og bjuggum þar í þrjú ár. Eftir að við komum aftur til Reykjavíkur fór Guðmundur að vinna í Áburðarverksmiðjunni og vann þar í 40 ár.“

Ingunn starfaði við ýmislegt. „Ég og systir mín Ólöf tókum að okkur veislur og einnig rak ég kökugerðina Erlu þar sem kleinuhringir og flatkökur voru bakaðar.

Ég vann hjá Hreyfli í sjö ár og síðan í móttöku hjá Orkustofnun Reykjavíkur í 15 ár, lauk störfum þar 67 ára.“

Eftir að Ingunn hætti að vinna var hún kosin af kvenfélagi Bústaðakirkju í stjórn Orlofsnefndar húsmæðra Reykjavíkur. „Ég ferðaðist víða með nefndinni, bæði innanlands og utanlands og hafði mjög gaman af.“

Ingunn hefur alltaf hreyft sig mikið, stundað leikfimi alla tíð og sund. „Í dag spila ég bridds einu sinni í viku og félagsvist sömuleiðis. Ég er svo heppin að búa í eigin íbúð í góðu húsi þar sem er spilað tvisvar í viku. Þar er söngur, messa og ýmislegt fleira félagslíf sem ég nýti mér.

Það er mikið langlífi í fjölskyldunni, við erum fjögur systkinin komin yfir nírætt. Móðir mín Ragnheiður náði 100 ára aldrinum og Hlíf móðursystir mín varð 106 ára og var þá elsta konan. Svo er Þórhildur Magnúsdóttir frænka mín, en hún er elsti Íslendingurinn í dag.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ingunnar var Guðmundur Jónsson, f. 6.10. 1925, d. 23.2. 2006. Foreldrar hans voru hjónin Jón Árnason skipstjóri, f. 1886, d. 1972, og Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 1898, d. 1991.

Börn Ingunnar og Guðmundar: 1) Jón Örn, f. 4.11. 1949, sjávarútvegsfræðingur, maki: Kari Jóhansen, þau skildu, börn þeirra eru Ingunn Margrét, f. 1974, og Jens Marius, f. 1979; 2) Ragnheiður, f. 19.9. 1953, hjúkrunarfræðingur, maki: Eiríkur Þorgeirsson augnlæknir, börn þeirra eru Ása Margrét, f. 1981, Ingunn Erla, f. 1984, Hrafnhildur Hekla, f. 1988, Þorgerður Edda, f. 1993, og Eiríkur Ari, f. 1996. Sonur Eiríks er Guðni Rafn, f. 1977; 3) Guðbjörg Gróa, f. 21.4. 1955, bókmenntafræðingur og kennari, börn hennar: Ágústa Hera, f. 1978, Heba Margrét, f. 1980, Guðmundur Ísar, f. 1985, d. 1998, Ingunn Erla, f. 1994, og Matthías Már, f. 1997; 4) Stefán Már, f. 18.7. 1961, d. 13.3. 2017, húsasmíðameistari og kennari, maki: Vilborg Stefánsdóttir sjúkraþjálfari, stjúpsonur hans og sonur Vilborgar er Sævar Steinn, f. 1997; 5) Guðmundur Ingi, f. 28.8. 1963, félagsfræðingur og kennari, maki: Nína Rom Oporto, börn Guðmundar eru Theodór Már, f. 1994, og Gaukur Steinn, f. 1997. Langömmubörnin eru 15.

Systkini Ingunnar: Böðvar, f. 1924, d. 2015; Erla, f. 24.1. 1926, d. 6.6. 1926, Ólöf, f. 1927, Áslaug, f. 1928, d. 2011, Hörður, f. 1930, Sigrún, f. 1931, Hulda Sigurlaug, f. 1933, d. 2000, Kristrún, f. 1937, og fósturbróðir Ingunnar var Tómas Halldór Jónsson, f. 1921, d. 1994.

Foreldrar Ingunnar voru hjónin Stefán Diðriksson, f. 15.12. 1892, d. 18.1. 1957, bóndi á Minni-Borg í Grímsnesi, kennari og kaupfélagsstjóri, og Ragnheiður Böðvarsdóttir, f. 7.11. 1899, d. 10.9. 2000, organisti og símstöðvarstjóri.