Hvernig ætlarðu að byrja nýja árið?
„1. janúar er einn af skemmtilegustu dögum ársins en þá átti dóttir mín afmæli og dagurinn fór í afmælisdekur fyrir hana. Mér finnst það frábær byrjun á árinu.“
Seturðu þér markmið?
„Það er alltaf markmið að gera betur en árið áður.“
Hvað ertu að fást við þessa dagana?
„Eins og staðan er þá starfa ég sem vörumerkjastjóri tískufatnaðar hjá Rún heildverslun, stunda fjarnám í Skapandi greinum í Háskólanum á Bifröst ásamt því að vera einn af eigendum Ey Studio sem er ljósmyndastúdíó staðsett á Granda. Það er alltaf nóg að gera.“
Hvað getur þú sagt mér um uppáhaldsmatinn þinn?
„Nautalund með kartöflum og bearnaise klikkar ekki, annars er asískur og austurlenskur matur líka í uppáhaldi.“
Áttu þér uppáhaldsveitingahús?
„Ghandi veldur mér aldrei vonbrigðum.“
Hvernig hugsar þú um heilsuna?
„Reyni að hreyfa mig í frítíma, borða fjölbreyttan og næringarríkan mat og hitti vinkonur mínar fyrir andlega heilsu.“
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Alltaf tvö egg.“
Ertu að safna þér fyrir húsgagni?
„Já, er með valkvíða fyrir Kriptonite-hillusamsetningu sem fæst í Officina eða skenk frá USM sem fæst í Calmo. Mjög erfitt val.“
Hvaða forrit notar þú mest í símanum þínum?
„Það myndi vera pósthólfið og Instagram“
Er eitthvert lag sérstaklega mikið í spilun hjá þér núna?
„Iceguys eru mikið í spilun hjá börnunum heima fyrir.“
Langar þig í einhverja nýja flík?
„Já, er að bíða eftir einum geggjuðum jakka frá Karen By Simonsen sem ég pantaði mér í vinnunni.“
Hvaða bók last þú síðast?
„Ikigai, fyrir áfanga í skólanum.“
Hvaða þætti ertu að horfa á núna?
„Var að byrja á Black Doves.“
Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?
„Ég byrja alla virka daga eins. Græja mig fyrir vinnu og kem börnunum í skóla og leikskóla. Skipulagið í vinnunni fer síðan eftir hvað er að gerast hverju sinni. Ég get verið mjög „spontant” týpa.“
Hvernig núllstillir þú þig?
„Tek tíma fyrir sjálfan mig, finnst alltaf gott að fara út að hlaupa og fá útrás.“
Hvað reynir þú að forðast í lífinu?
„Slæma orku og leiðindi.“
Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?
„Get ómögulega valið eina. En fjölskyldan mín, maki og börn hafa haft mestu áhrifin.“