Steingrímur Þormóðsson
Steingrímur Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Takmörkuð rannsókn starfsmanna einkahlutafélagsins kann að leiða til þess að réttarstaða þeirra sem slasast í umferðarslysum verði þung og erfið.

Steingrímur Þormóðsson, Þ. Skorri Steingrímsson og Fjölnir Vilhjálmsson

Fræðimenn í lögum hafa sagt að umferðarlögin séu merkilegur lagabálkur fyrir þær sakir að samkvæmt lögunum hefðu allir vegfarendur greinilegan og jafnan rétt. Lögin leggi ríka tillits- og varúðarskyldu á alla ökumenn gagnvart öðrum vegfarendum, að viðlagðri ábyrgð.

Meðal þeirra skyldna sem á ökumenn eru lagðar með lögunum er að stoppa gegn rauðu ljósi og við biðskyldumerki, eins og flestum er kunnugt. Einnig þurfa ökumenn að hafa aflað sér ökuréttinda og vera allsgáðir við aksturinn.

Þegar umferðarslys eða -óhöpp verða vegna þess að ökumenn sinna ekki þessum ríku skyldum sínum varðar slíkt fésektum eða annarri þyngri refsingu.

Samkvæmt umferðarlögum, lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála kemur það í hlut lögreglu að rannsaka öll umferðarslys og -óhöpp.

Hér á höfuðborgarsvæðinu hafa þessi mál hins vegar þróast á þá leið að mikill meirihluti umferðarslysa á höfuðborgarsvæðinu er ekki rannsakaður af lögreglu heldur hefur sú skylda lögreglu að rannsaka umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu að miklu leyti verið framseld einkahlutafélaginu Aðstoð og öryggi ehf. Mætti komast svo að orði að starfsmenn fyrrgreinds einkahlutafélags gangi í störf lögreglumanna.

Fyrstu viðbrögð þeirra ökumanna sem lenda í umferðarslysum eru að hringja á Neyðarlínuna, í síma 112, og biðja um aðstoð lögreglu. Svarið er hins vegar oftast þannig að starfsmaður Aðstoðar og öryggis ehf. er sendur á staðinn.

Sá starfsmaður Aðstoðar og öryggis ehf. sem á slysstað kemur byrjar á að taka viðtal við ökumenn þeirra bifreiða sem saman rákust, í hljóði og mynd. Í kjölfarið eru teknar myndir af skemmdum á bifreiðunum. Ef bifreiðarnar, báðar eða önnur, eru ógangfærar vegna skemmdanna hringir starfsmaðurinn á Krók, sem fjarlægir bifreiðarnar. Aftur á móti er ekkert hugað að ökumönnum bifreiðanna og þurfa þeir að bjarga sér sjálfir af slysstað. Í beinu framhaldi verða þeir að fara til lækna á eigin vegum, sem getur verið tafsamt.

Skýrsla Aðstoðar og öryggis ehf. um umferðarslys er yfirleitt mjög fábrotin. Aðeins er skráð í tveimur til þremur línum frásögn hlutaðeigandi ökumanna af slysinu og síðan eru fjölmargar myndir af þeim skemmdum sem á bifreiðunum eru.

Að mati höfunda kann takmörkuð rannsókn starfsmanna einkahlutafélagsins að leiða til þess að réttarstaða ökumanna og farþega sem slasast í umferðarslysum verði oft þung og erfið. Oft á tíðum komi ekki fram mikilvæg atriði í skýrslum fyrirtækisins sem síðar kunna að skipta sköpum fyrir réttarstöðu tjónþola. Í dæmaskyni má nefna hvort tjónvaldur hafi virt stöðvunarskyldu eða aðrar reglur umferðarlaganna.

Tekið skal fram að Aðstoð og öryggi ehf. starfar á höfuðborgarsvæðinu fyrir öll vátryggingarfélögin. Er sá háttur hafður á að fyrirtækið fær greidda ákveðna fjáræð fyrir hverja skýrslu. Alla jafna eru viðkomandi tjónþolar ekki upplýstir um þá staðreynd og margir hverjir líta svo á að starfsmenn Aðstoðar og öryggis ehf. gegni opinberu hlutverki enda eru þeir sendir á vettvang í stað lögreglu fyrir tilstuðlan Neyðarlínunnar. Eru þá dæmi þess að tjónþolar af erlendu bergi brotnir hafi litið svo á að um hafi verið að ræða aðila á vegum lögreglunnar.

Ólíkt því sem þekkist í þeim tilvikum þegar lögregla rannsakar umferðarslys kanna starfsmenn fyrirtækisins Aðstoðar og öryggis ekki hvort hluteigandi bifreið sé lögleg og með skoðun, hvort ökumenn bifreiðanna séu með gild ökuréttindi og hvort þeir séu allsgáðir. Einnig kannar lögregla hemlunarvegalengdir og ástand hjólbarða og aflar framburðar sjónarvotta. Ef í ljós kemur að ökumenn eða farþegar eru með áverkaeinkenni er hringt í sjúkrabifreið, sem ekur þeim á bráðadeild Landspítalans þar sem áverkar eru rannsakaðir af læknum. Sá ökumaður sem af sér brýtur fær viðeigandi refsingu, en sleppur við slíkt í tilviki Aðstoðar og öryggis ehf.

Lögmenn Árbæ slf. hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og telja að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu starfi ekki í samræmi við lög með því að útvista lögreglustörfum með þessum hætti til Aðstoðar og öryggis ehf. Lögmenn Árbæ slf. hafa ítrekað kvartað til stjórnvalda vegna þessarar framkvæmdar án þess að það hafi borið árangur.

Höfundar eru starfandi lögmenn hjá Lögmönnum Árbæ slf.