Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sendir þættinum góðar kveðjur: „Mér dettur í hug að þú getir kannski notað þessar, nú þegar sól fer að hækka á lofti þó að lítið sjáist til hennar:
Bak við fjöllin bjarmi af sól
boðar hlýrri daga,
er vorið sest á veldisstól
og vekur grös í haga.
Vekur líf og vonar þrótt,
vermir kalið hjarta,
hrekur dimma, dapra nótt,
daga glæðir bjarta.“
Hún heldur áfram: „Þessi árstími verður mér oft að yrkisefni, það hefur eitthvað að gera með skil birtu og myrkurs og þau óræðu tímamót sem nýja árið ber með sér – því varð þessi til:
Tímans öra flýgur far,
fleytir bárur stundar gnoð.
Allt sem verður, er og var
ofið mun í sömu voð.“
Jón Jens Kristjánsson dregur áramótin saman í innblásnum og skemmtilegum brag:
Nýárið fæðist og nóttin er dimm
nú fer að greiðast vegur
frjósa mun 2025
við 2024
allt sem að gerðist þá ei verður
breytt
og yfir skal draga með striki
samt á því byrjaða sést ekki neitt
í sóti og flugeldaryki.
„Lyft mínum anda, loft við þitt
brjóst“
lýsist upp næturhúmið
í skoteldakófinu heyra má hóst
og hundarnir skríð' undir rúmið
þó svo að kunni í bálinu brár
bæði að loga og sviðna
þá koma óskir um þokkalegt ár
og þakkir fyrir hið liðna.
Þá barst kveðja frá Ingólfi Ómari Ármannssyni, sem bætti á sig um jólin:
Um matarvenjur mínar veit
minnka þyrfti átið.
Stundum reynt að strengja heit
en stenst þó aldrei mátið.
Að síðustu limra eftir Friðrik Steingrímsson:
Hangikjöt hafði í matinn
Helgi og tuggði það natinn.
Lærið af Rauð
reykti og sauð,
en sá þótti sérlega pratinn.