Anna G. Þorsteinsdóttir fæddist á Akureyri 28. nóvember 1931. Hún lést á Hrafnistu, Laugarási, 10. desember 2024.
Foreldrar Önnu voru Þorsteinn Jónsson, verkamaður á Akureyri, f. 24. des. 1881 í Hrafnsstaðakoti, Svarfaðardal, d. 25. apríl 1966, og k.h. Guðrún Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1894 í Bolungarvík, d. 2. maí 1977.
Anna var send í fóstur fjögurra ára suður til Reykjavíkur til föðursystur sinnar, Önnu Jónsdóttur húsfreyju, f. 20. júní 1889 í Hrafnsstaðakoti í Svarfaðardal, d. 2. jan. 1974, og manns hennar Sveinbjörns Angantýssonar innheimtumanns, f. 13. ágúst 1891, d. 9. júní 1969.
Systkini Önnu eru Guðmundur, verkfræðingur, f. 1921, d. 2012, Jón, lögfræðingur, f. 1924, d. 1994, Albert, f. 1926, d. 1926, Kristján, f. 1929, d. 1949, Frímann, bóndi, f. 1933, d. 2019 og Guðrún Margrét, hjúkrunarfræðingur, f. 1935, d. 1987.
Anna ólst upp hjá Önnu og Sveinbirni í Verkamannabústöðunum á Bræðraborgarstíg 49. Anna og Sveinbjörn voru barnlaus en ólu upp þrjú fósturbörn, Önnu, Anton Sigurðsson, bifreiðarstjóra, f. 1919, d. 1988, og Carmen Bonitch, bónda á Geirmundarstöðum og bæjarfulltrúa í Porsgrunn í Noregi, f. 1943, d. 2006.
Anna giftist 29. júlí 1955 Þórhalli Guttormssyni cand. mag. frá Hallormsstað, f. 17. febrúar 1925. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 8. maí 2009. Foreldrar hans voru hjónin Guttormur Pálsson, skógarvörður, f. 12. júlí 1884, d. 5. júní 1964, og Sigríður Guttormsdóttir, húsfreyja, f. 17. maí 1887, d. 29. október 1930. Síðari kona Guttorms og stjúpmóðir Þórhalls var Guðrún Pálsdóttir, f. 24. sept. 1904, d. 19. nóv. 1968.
Synir Önnu og Þórhalls eru: 1) Þorsteinn Gunnar, kennari, f. 2. júlí 1956, kvæntur Rögnu Steinarsdóttur, bókasafnsfræðingi. Börn þeirra eru: a) Þóra, f. 1977, gift Sigurgeiri Finnssyni, synir þeirra eru Vésteinn og Sighvatur. b) Guttormur, f. 1988. c) Steinar, f. 1993. 2) Páll skrifstofustjóri, f. 24. september 1964. Synir hans og fyrri konu hans Þórdísar Kjartansdóttur læknis eru: a) Hjalti, f. 1991, í sambúð með Elínu Dröfn Jónsdóttur. Börn þeirra Marinó Páll og Sonja Dís. b) Kjartan, f. 1996, í sambúð með Kristínu Ingu Friðþjófsdóttur. Páll var kvæntur Hrund Hólm dýralækni. Þau skildu. Dætur Hrundar eru Brynja og Katrín.
Anna lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1949 og vann síðan við skrifstofustörf hjá Atvinnudeild Háskólans og víðar. Á árunum 1954 til 1960 bjuggu þau Þórhallur á Selfossi. Eftir að þau fluttu aftur til Reykjavíkur bjuggu þau í Bólstaðarhlíð, Safamýri, Barmahlíð og síðast á Meistaravöllum 31. Eftir að til Reykjavíkur kom vann Anna í hlutastörfum hjá Ólafi Þorgrímssyni lögfræðingi, Lögmannafélaginu og víðar. Anna tók mikinn þátt í félagsstörfum og var virkur félagi í Kvenréttindafélaginu, rauðsokkuhreyfingunni, Alþýðubandalaginu og víðar.
Útför Önnu fer fram í Laugarneskirkju í dag, 3. janúar 2025, klukkan 13.
Anna Þorsteinsdóttir mágkona mín var einkar ljúf í lund og skemmtileg heim að sækja. Hún giftist Þórhalli hálfbróður mínum og kennara sumarið 1955 þegar hann stóð á þrítugu. Þau hófu búskap sinn á Selfossi, þar sem Þórhallur var kennari um skeið. Hjá þeim dvaldi ég ásamt fleiri skyldmennum um páskana 1956 og bjó lengi að þeirri heimsókn. Áður höfðu leiðir okkar þó legið saman í verkamannabústað fósturforeldra hennar við Bræðraborgarstíg. Sé ég hana þar ætíð fyrir mér unga og glæsilega sem þá tilvonandi mágkonu.
Anna útskrifaðist með próf frá Verslunarskólanum 1949. Reyndist það henni notadrjúgt, sá skóli varð síðar lengi starfsvettvangur bónda hennar. Skólagangan þar gagnaðist Önnu vel, m.a. þegar hún var ritari um skeið við Atvinnudeild Háskólans áður en þau Þórhallur hófu búskap.
Vegna búsetu okkar Kristínar eystra lágu leiðir okkar og fjölskyldu Önnu helst saman í stuttum heimsóknum okkar í höfuðstaðnum. Þeim fjölgaði þó eftir að Alþingi varð minn helsti starfsvettvangur um skeið. Ég heimsótti þau hjón þá öðru hvoru í Barmahlíð og á Meistaravöllum, þar sem landsmálin voru rædd. Í mínu minni reyndist Anna þá oft róttækari í skoðunum en eiginmaðurinn. Ég sá syni þeirra, Þorstein og Pál, vaxa úr grasi og reyndar dvaldi sá fyrrnefndi hjá okkur Kristínu part úr sumri í Neskaupstað 1968. Sagnfræðingnum Þorsteini hef ég síðan kynnst sem ötulum aðstoðarmanni við að rýna í fortíð ættfeðranna.
Fyrir Þórhall bróður var Anna mikil heilladís og reyndist honum stoð og stytta í veikindum, áður en hann kvaddi fyrir 15 árum. Við Kristín minnumst Önnu mágkonu fyrir glaðværð og gott úthald í blíðu og stríðu.
Hjörleifur Guttormsson.
Leiðir okkar Önnu, tengdamóður minnar, hafa legið saman í meira en 50 ár, eða frá því ég fór að venja komur mínar í Safamýrina árið 1973. Það var stutt að fara því ég bjó í þarnæstu blokk.
Mér var strax vel tekið og það var þægilegt og afslappað andrúmsloft í kringum Önnu, ekkert óþarfa tilstand. Asi og læti þekktust ekki á heimilinu, aldrei var skammast og aldrei brýndi Anna raustina. Það var helst að hún sussaði á heimilisfólk þegar fréttir voru í gangi. Margt í heimilishaldinu var ólíkt því sem ég átti að venjast. Matartímar voru t.d. ekki í mjög föstu formi, stundum borðað seint og stundum snemma. Ein jólin í Safamýri voru þau Anna og Þórhallur að byrja að elda rjúpurnar eftir að búið var að borða og opna pakka á mínu heimili. Þau voru þreytt eftir jólaannirnar og höfðu lagt sig.
Anna var með afbrigðum umhyggjusöm og ræktarsöm bæði við afkomendur, ættingja og vini. Hún fór daglega með strætó til Þórhalls í Sóltún hvernig sem viðraði. Börnum mínum öllum hefur hún reynst ákaflega vel og þau kunnu vel að meta rósemina í fari hennar. Þóra var lengi vel eini kvenkyns afkomandi hennar og þær voru duglegar að fara saman í leikhús og á kaffihús. Hún taldi ekki eftir sér að sækja Gutta nokkrum sinnum í viku í leikskólann, en þegar hann var lítill var bara hálfsdags leikskóli í boði þótt flestir ungir foreldrar væru í fullri vinnu.
Anna var talsvert virk í pólitík, ævinlega á vinstri vængnum. Þegar ég kynntist henni var hún eldheit rauðsokka. Einnig starfaði hún með Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna, MFÍK. Hún var vel menntuð á þeirra tíma mælikvarða, með verslunarpróf, enda var hún mjög talnaglögg. Hún var þó af þeirri kynslóð kvenna sem ekki átti mikla möguleika á starfsframa. Lengst af vann hún við bókhalds- og skrifstofustörf hluta úr degi. Húsmóðurhlutverkið átti kannski ekkert sérstaklega vel við þessa greindu og vel lesnu konu. Áhugi hennar á eldamennsku fólst einkum í söfnun matreiðslubóka og uppskrifta úr blöðum, en hún var ekkert sérstaklega nýjungagjörn í eldhúsinu. Hún vildi heldur verja tíma sínum í annað, svo sem lestur, en hún var mjög bókhneigð, var í leshring og sótti mjög í að ræða bækur við fólk. Svo hafði hún yndi af því að fara í leikhús, bíó og á myndlistarsýningar.
Anna var einhver sú orðheldnasta og heiðarlegasta manneskja sem ég hef þekkt. Í forsetakosningunum 1996 heimsótti hún kosningaskrifstofur flestra frambjóðenda. Hún vildi vanda valið. Henni varð það á að gefa einum frambjóðanda ádrátt um að hún myndi kjósa hann – hann var eitthvað tengdur fjölskyldunni. Hún sá eftir þessu, vildi heldur kjósa annan, en datt ekki í hug að ganga á bak orða sinna. Það gerði hún aldrei.
Anna var alla tíð trúuð, var í KFUK þegar hún var ung, en hélt sig ekki við einn söfnuð. Hún fór gjarnan með vinkonu sinni á samkomur hjá aðventistum ef henni sýndist svo.
Ég þakka Önnu fyrir samfylgdina og umhyggjusemina í garð allrar fjölskyldunnar.
Ragna Steinarsdóttir.
Mér þótti alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu Önnu, hvort sem það var í Barmahlíðinni þar sem hún og afi Þórhallur bjuggu lengst af eða vestur á Meistaravöllum þangað sem hún flutti á sínum efri árum, komin á gömlu æskuslóðirnar. Það var alltaf svo notalegt að spjalla um daginn og veginn, blaða í gömlum myndum og heyra sögur af ömmu og vinkonum hennar á skólaárunum og skrautlegum ferðalögum. Andrúmsloftið í kringum ömmu var svo afslappað. Það var algjörlega sjálfsagt mál að fleygja sér í sófann og leggja sig. Ég man eftir að hafa einu sinni sofnað á stofugólfinu í Barmahlíðinni og engum þótti það neitt athugavert að unglingur svæfi á gólfinu um miðjan dag. Það mátti alveg koma til dyranna eins og maður var klæddur og maður þurfti ekkert að þykjast vera fullkominn. Amma Anna leyfði sér að hafa sín sérkenni og tiktúrur og hafði bara gaman af því þegar við gerðum góðlátlegt grín að sérviskulegum háttum hennar.
Þegar ég var yngri fórum við oft í bíó og leikhús saman á meðan hún hafði heilsu til. Mér er minnisstætt þegar hún fór með mig á dásamlega sýningu eftir Tsjekov í Borgarleikhúsinu og var það líklega fyrsta fullorðinsleikritið sem ég sá. Við amma vorum líka báðar upprifnar yfir myndinni „Goodbye Lenin“ sem við sáum saman í Háskólabíói og var það síðasta bíómyndin sem við fórum á saman. Eftir að aldurinn færðist yfir létum við okkur nægja að fara saman á kaffihús, fá okkur kökusneið og skoða mannlífið, það þótti henni alltaf skemmtilegt.
Amma var áhugasöm um fólk og það lifnaði yfir henni þegar hún hitti fólk sem hún kannaðist við á förnum vegi. Hún var alls ófeimin að kynna sig fyrir fólki sem hún þekkti aðeins lítillega. Amma vatt sér eitt sinn að þekktum myndlistarmanni á leið okkar í apótekið á Eiðistorgi og tilkynnti honum að hún hefði hitt hann á listasýningu árið 1974. Þetta var alveg dæmigert fyrir ömmu, en þótt ég hafi orðið svolítið vandræðaleg hafði maðurinn gaman af og þau áttu gott spjall fyrir framan apótekið.
Ég á ömmu minni svo margt að þakka og ég hugsa hlýlega til hennar.
Þóra Þorsteinsdóttir.
Sumar af mínum fyrstu minningum eru með ömmu Önnu í Barmahlíðinni þegar hún sótti mig á Hlíðaborg. Hún gekk með mig um Hlíðarnar, hélt þéttingsfast í höndina á mér og hlustaði á mig telja upp bíltegundir. Stundum stoppuðum við í Sunnubúð og keyptum skonsur eða sveskjugraut sem við borðuðum með rjóma. Hún kynnti fyrir mér Pavarotti og Stellu í orlofi sem hún átti á spólu og ef það þurfti að hafa ofan af fyrir mér lét hún mig hafa eina af þeim fjölmörgu matreiðslubókum sem hún átti svo ég gæti skoðað myndirnar. Þegar ég komst á grunnskólaaldur styrkti hún mig til að taka þátt í heimspekiskólanum sem var einstaklega skemmtilegt námskeið sem ræktaði gagnrýna hugsun og kynnti mér ýmsar hugmyndir sem móta mig enn í dag.
Amma var alltaf mikill safnari og geymdi úrklippur af uppskriftum, leikdómum, ritdómum eða fréttum af afkomendum hennar og ættingjum, enda var hún bæði félagslynd og ættrækin. Ég man eftir að hafa farið með henni í allmargar heimsóknir til mágkonu hennar Jónínu og hún talaði oft um vinkonur sínar og ættingja. Þegar ég minntist á einhvern í samræðum okkar vildi hún vita hverra manna viðkomandi væri ef ske kynni að hún þekkti hann, þó að mér þætti það ekkert endilega koma sögunni við. En þegar hún hafði hitt einhvern sem hún vissi að við fjölskyldan þekktum þá lét hún okkur giska þangað til við komumst að því, „gettu hvern ég hitti“ meinti hún bókstaflega.
Sjálf las amma mikið og eftir að ég byrjaði að vinna á bókasafninu hringdi hún oft til þess að biðja um ákveðnar bækur eða forvitnast um hvað væri nýtt og spennandi. Fyrir jólin þurfti ég stundum að taka þátt í samsæri um að halda frá henni nýjum bókum sem var búið að kaupa fyrir hana í jólagjöf. Hún og afi deildu líka ást á fallegum ljóðum og hún fékk mig stundum til að lesa fyrir sig eftir að hún flutti inn á Hrafnistu. Amma var vandlát og lá ekki á skoðunum sínum, hún þurfti oft að byrja á því að viðra áhyggjur sínar þegar við hittumst, en svo var hægt að taka upp léttara hjal. En hún var líka húmoristi og hló við þegar hún rifjaði upp skemmtileg atvik hjá fjölskyldu og samferðafólki.
En nú er amma búin að kveðja í hinsta sinn. Ég mun sakna samverustundanna og samræðna okkar um fólk og menningu.
Guttormur Þorsteinsson.
Látin er Anna Þorsteinsdóttir eftir langvarandi veikindi. Hún var að norðan eins og sagt er og var nánast heimagangur á mínu heimili við Njálsgötu í Reykjavík. Þannig var að systir mín Helga, sem nú er látin, var með Önnu í Verslunarskólanum og sátu þær saman þar. Á þeim tíma þótti óþarfi að eyða peningum í strætó á milli bæjarhluta og höfðu skósmiðir næga vinnu en Anna var Vesturbæingur. Það gustaði ekki af Önnu er hún gekk um götur og torg, hún var hæglát og stundvís.
Anna var mjög ættfróð og hafði móðir mín mikla ánægju af heimsóknum hennar til Helgu systur minnar á Njálsgötuna og þar gátu þær mamma mín og Anna líka spjallað saman um ættir og tengdir fólks víða um landið okkar. Anna var einnig með okkur í KFUM og K á þessum tíma og vorum við systurnar, Anna og Margrét Jóhannsdóttir og fleiri saman á sumarmótum í Vatnaskógi og Vindáshlíð. Með þessum fáu línum kveð ég vinkonu mína Önnu Þorsteinsdóttur og minningarnar um hana munu ylja mér um ókomna tíð.
Guðfinna Guðmundsdóttir.
Það var þröngt í búi hjá verkafólki á Akureyri á kreppuárunum á fjórða áratugnum. Heimilin voru flest barnmörg, húsnæði ófullnægjandi, atvinna stopul og launin lág. Slíkar voru aðstæður afa míns og ömmu á Akureyri, Þorsteins og Guðrúnar, foreldra Önnu. Þegar yngsta barnið fæddist vorið 1935 stóðu þau uppi með sex börn, það elsta nýfermt. Þau leigðu lítinn hluta af risinu í Hafnarstræti 88, hús sem var kallað Gamli bankinn. Allra leiða var leitað til að bjarga sér við þessar aðstæður, sem bötnuðu ekki fyrr en Bretavinnan kom árið 1940. Þegar þau loks komust í eigin íbúð árið 1950 voru flest börnin farin að heiman.
Foreldrar Önnu neyddust til að láta tvö barnanna frá sér í fóstur sem var þeim erfið ákvörðun. Anna fór til föðursystur sinnar, Önnu Jónsdóttur, og manns hennar Sveinbjarnar Angantýssonar í Reykjavík. Þau voru barnlaus og höfðu eignast ágæta íbúð í verkamannabústað við Bræðraborgarstíg. Frímann, yngri bróðir Önnu, fór í fóstur til frændfólks að Syðri-Brekkum í Blönduhlíð og tók hann síðar við jörðinni. Anna ólst upp við gott atlæti og mikla umhyggju fósturforeldra sinna, enda talaði hún ætíð vel um þau. Þrátt fyrir það var hún aldrei fyllilega sátt við að alast upp fjarri systkinum sínum. Nokkrum árum eftir að Anna fór í fóstur fóru tveir elstu bræður hennar til Reykjavíkur í háskólanám. Þeir áttu innhlaup og voru um tíma kostgangarar hjá föðursystur sinni, fósturmóður Önnu, og þannig endurnýjuðust kynni systkinanna og héldust alla tíð náin og góð.
Eftir að Anna giftist eiginmanni sínum, Þórhalli Guttormssyni, bjuggu þau í nokkur ár á Selfossi þar sem Þórhallur kenndi við gagnfræðaskólann. Þá var Þorsteinn eldri sonur þeirra fæddur. Síðan fluttu þau aftur til Reykjavíkur og nokkrum árum síðar fæddist yngri sonurinn Páll. Í mörg ár bjuggu Anna og Þórhallur í næsta nágrenni við foreldra mína og var mikill samgangur á milli heimilanna. Mágkonurnar, móðir mín og Anna, voru góðar vinkonur þrátt fyrir að þær væru ólíkar og ekki pólitískir samherjar. Anna hallaði sér á vinstri hliðina í pólitíkinni og tók þátt í fundum og félagsstarfi á þeim vettvangi. Horft til baka þá voru það kalda stríðið, NATÓ, herinn, járntjaldið og Víetnamstríðið sem skiptu fólki í andstæðar fylkingar fremur en afstaða til samfélagsmála hér innanlands en þar voru þær Anna og móðir mín nokkurn veginn á svipaðri línu. Þá var Anna ákaflega bókhneigð og vel lesin í bókmenntum og hafði mikinn áhuga á hvers kyns listum og menningu.
Samskipti mín við Önnu, Þórhall og synina voru alltaf mjög góð og einkenndust af góðvild í minn garð og síðar eiginkonu minnar og dætra. Það fylgdu Önnu ætíð hlýir straumar og væntumþykja í garð sinna nánustu. Hún mat það mikils að eiga góða fjölskyldu og fylgdist vel með frændfólkinu. Að leiðarlokum sendi ég og fjölskylda mín sonum Önnu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.
Sigfús Jónsson.
Anna var í leshring Kvenréttindafélags Íslands í yfir aldarfjórðung og var hún okkur leshringskonum mikilvæg. Hún var fróð og skemmtileg, með gott innsæi og lá ekki á skoðunum sínum. Við komum ekki að tómum kofunum hjá henni, því hún var alltaf vel lesin á fundum okkar. Leshringurinn var stofnaður í ársbyrjun 1993 af konum í Kvenréttindafélaginu og konum í bókmenntafræði í Háskóla Íslands. Þetta voru konur í kringum þrítugt upp í konur á sjötugsaldri sem fundu ekki fyrir aldursmuninum, heldur lærðu hver af annarri og nutu félagsskaparins. Við höfum lesið og fjallað um bækur um og eftir konur, séð kvikmyndir og leiksýningar, boðið höfundum heim, farið í sumarbústaðaferðir, ferðir um landið okkar og utanlandsferðir. Í gegnum tíðina höfum við verið á bilinu 15-20 talsins og konur bæst í hópinn í áranna rás og aðrar horfið á braut. Nokkrar úr hópnum eru til viðbótar við Önnu þegar farnar í sumarlandið, þær Björg Einarsdóttir, Sesselja Hrönn Guðmundsdóttir, Kristjana Steingrímsdóttir og Þorbjörg Daníelsdóttir.
Anna var mikill lestrarhestur og eftir sjötugt hóf hún að skrá það sem hún las í sérstaka lestrardagbók og gerði hún það fram á miðjan níræðisaldur. Það er skemmtilegt að lesa þessar stuttu færslur, sem eru á annað hundrað talsins, og leyfði hún okkur leshringskonum að skanna þessar dagbækur til eignar. Hún skrifaði þetta eftir lestur á bók Kristínar Steinsdóttur, Ljósa, 11.-13. janúar, 2011: „Frábær bók sem hrífur mann. Sérstaklega góð tök á íslensku. Persónulýsingar mjög góðar. Átakanleg saga ömmu Kristínar.“ Að loknum lestri á Kjalnesingasögu skrifaði hún, 6. maí 2012: „Íslendingasögurnar eru dýrmætur fjársjóður sem við ættum að sækja meira í. Stórkostlegar mannlýsingar, karlmenn hetjur og konur fallegar og kunna margt fyrir sér.“ Um bók Steinunnar Sigurðardóttur, Ástin fiskanna, skráði hún, 30. ágúst, 2015: „Ást, vín og rósir koma í hugann þegar ég hef hraðlesið þessa bók. Fallegar lýsingar á náttúrunni að utan sem innan. Les hana aftur.“ Afkomendur Önnu eiga eflaust eftir að njóta bókaumsagna hennar.
Góð og vitur kona er horfin á braut en minningin um hana lifir. Við þökkum fyrir samveruna og samfylgdina.
F.h. Leshrings KRFÍ,
Sigrún Þorvarðsdóttir.