Anton Guðjónsson
anton@mbl.is
Vatn flæddi úr farvegi Hvítár nærri bænum Brúnastöðum í Flóahreppi og yfir í áveituskurð þar nærri síðdegis í gær. Veðurstofa Íslands, almannavarnir og lögreglan á Suðurlandi hafa fylgst með ástandinu.
Ísstífla var búin að vera að byggjast upp á svæðinu undanfarna daga. Vatnshæð hækkaði mikið í gær og síðdegis tók vatn að flæða fram hjá Flóaáveitustíflu ofan í Flóaáveituskurð. Frost minnkaði nokkuð snögglega í gær, sem gæti hafa orsakað snögga breytingu á flæðinu, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
„Vatnið fer út í áveituskurðinn sem er fullur af klaka og stíflur gætu verið víða. Í raun er áveitan eins og æðakerfi um allan Flóann, sem er mjög stórt svæði. Stíflur í skurðunum geta því orðið til þess að vatn flói yfir landið, eins og oft hefur gerst,“ sagði Grétar Einarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, á fjórða tímanum í gær.
Á sjöunda tímanum var lögreglan á Suðurlandi kölluð út til þess að kanna aðstæður. Þótti lögreglu aðstæður ekki vera með þeim hætti að nauðsynlegt væri fyrir lögreglu að vera með stöðuga viðveru á staðnum.
„[Áin] fer aðeins fram hjá því sem kallast flóðgátt, það sem rennur inn í Flóaáveituna. Enn sem komið er fer læna úr henni sunnan megin við og út í Flóaáveituna aftur. Það hefur svo sem ekki dreifst neitt um enn þá að ráði,“ sagði Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hann segir að ekki hafi komið í ljós neinar skemmdir vegna flóðsins en vel sé fylgst með aðstæðum, ekki síst af Veðurstofunni, sem fylgist með vatnamælingum.
Spurður hvort það komi til greina að samgöngur spillist svaraði Þorsteinn því að litlar líkur væru á því, enda sé smá spölur frá árbakkanum þar sem flæðir yfir og að þjóðvegi 1. Vatn hafi þó áður flæmst yfir Flóann vegna stíflna.
Erfitt að spá um framhaldið
Er blaðamaður ræddi við náttúruvársérfræðing Veðurstofunnar í gærkvöldi hafði lítið breyst í ánni. Enn flæddi hún yfir bakka sína, nokkurn veginn sömu leið, eitthvað ofan á tún og ofan í áveituskurðinn.
Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, sagði að ekki hefði flætt inn í hús og ekki hefði verið um neinar stórar skemmdir að ræða að svo stöddu.
Sagði hún að vel væri fylgst með aðstæðum en ef aðstæður myndu versna gæti farið að flæða inn í sumarbústaði og yfir lága vegi á svæðinu.
„Það er frekar erfitt að spá fyrir um framhaldið á þessu eins og er. Þetta er atburður í þróun. Svo kemur í ljós hvernig hitastig og veðurfar í nótt og á morgun hefur áhrif á þetta. Þannig að við erum að fylgjast með og bregðumst við þeirri þróun,“ sagði Jóhanna Malen. Frost tekur aftur að herða í nótt og enn frekar um helgina.