Mest Handknattleikssambandið er efst á blaði hjá afrekssjóði ÍSÍ.
Mest Handknattleikssambandið er efst á blaði hjá afrekssjóði ÍSÍ. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Handknattleikssamband Íslands fær áfram langhæstu úthlutunina úr afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2025. Úthlutunin í heild er rúmar 519 milljónir króna og hækkar um sjö milljónir frá síðasta ári en framlag ríkisins er óbreytt, 392 milljónir, og hefur verið það sama frá árinu 2019

Handknattleikssamband Íslands fær áfram langhæstu úthlutunina úr afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2025.

Úthlutunin í heild er rúmar 519 milljónir króna og hækkar um sjö milljónir frá síðasta ári en framlag ríkisins er óbreytt, 392 milljónir, og hefur verið það sama frá árinu 2019.

HSÍ fær rúmlega 72,5 milljónir króna en fékk um 84 milljónir á árinu 2024 og greiðslan til sambandsins lækkar því um 12 milljónir.

Fimleikasambandið og Skíðasambandið koma næst og fá um 45 milljónir hvort í sinn hlut og þar á eftir kemur Körfuknattleikssamband Íslands með tæpar 40 milljónir.

Alls sóttu 33 sérsambönd um styrk úr sjóðnum og voru 32 umsóknanna samþykktar.

Knattspyrnusamband Íslands var eina sambandið sem sjóðurinn hafnaði. Í tilkynningu um úthlutunina á vef ÍSÍ segir að þar sé, líkt og síðustu ár, horft til fjárhagslegrar stöðu KSÍ.

KSÍ kemur inn síðar

Hins vegar sé reiknað með að KSÍ fái stuðning þegar því fjármagni sem enn á eftir að úthluta vegna ársins 2025, og byggist á nýjum áherslum í afreksstarfi, verður úthlutað síðar á árinu.

Aðrar íþróttagreinar fá styrki sem hér segir:

33-35 milljónir: Golf, sund og frjálsíþróttir.

Um 24 milljónir: Kraftlyftingar og Íþróttasamband fatlaðra.

15-16 milljónir: Lyftingar, bogfimi og keila.

11-12 milljónir: Dans, badminton, íshokkí, skotíþróttir og hestaíþróttir.

7,5-8,6 milljónir: Skylmingar og klifur.

5,3-6,8 milljónir: Blak, júdó og karate.

4-4,5 milljónir: Taekwondo og þríþraut.

1,7-1,8 milljónir: Hjólreiðar, akstursíþróttir, borðtennis, hnefaleikar, skautar, mótorhjól/snjósleðar, siglingar og tennis.