Anton Guðjónsson
anton@mbl.is
Hryðjuverkamaðurinn Shamsud-Din Jabbar er talinn hafa verið einn að verki á nýársnótt í New Orleans í Bandaríkjunum. Jabbar ók á pallbifreið inn í mannfjölda á Bourbon-stræti með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið. Fimmtán liggja á spítala vegna árásarinnar. Jabbar náði sjálfur að særa tvo lögreglumenn í skotbardaga við lögregluna áður en hann var skotinn til bana.
Á nýársdag tilkynnti lögreglan að Jabbar hefði líklega ekki verið einn að verki. Í gær hélt alríkislögregla Bandaríkjanna FBI blaðamannafund þar sem hið öfuga var staðfest. Christopher Raia, aðstoðarforstjóri FBI, sagði að ástæðan fyrir þessari breytingu væri sú að myndin af atburðarásinni væri mun skýrari en sólarhring áður eftir að um þúsund manna lögreglulið hefði farið yfir alls kyns upplýsingar í rannsókninni.
Einnig hafði komið fram að grunur væri um að Jabbar hefði komið heimatilbúnum sprengjum fyrir og var það staðfest á blaðamannafundinum. „Við fengum upptökur úr öryggismyndavélum sem sýndu Jabbar koma sprengjunum fyrir þar sem þær fundust,“ sagði Raia. Sprengjunum hafði Jabbar komið fyrir í kæliboxum á Bourbon-stræti en lögreglu tókst að aftengja þær. Óskar lögregla nú eftir vitnum sem sjást á upptökum skoða kæliboxin.
Lögregla hafði áður staðfest að Jabbar hefði framið ódæðisverkin að fyrirmynd hryðjuverka Ríkis íslams. Hann leigði Ford F150-pallbíl í Houston-borg í Texas-ríki og keyrði þaðan til New Orleans á gamlársdag. Sama dag birti hann nokkur myndbönd þar sem hann lýsti stuðningi við ISIS. Þar sagði hann einnig frá því að honum hefði fyrst hugnast að myrða fjölskyldu sína áður en honum datt í hug að fremja hryðjuverkin.
Jabbar var bandarískur ríkisborgari, alinn upp í Texas, og starfaði sem sérfræðingur í tölvumálum hjá bandaríska hernum í meira en áratug en virðist einnig hafa starfað sem fasteignasali í Houston. Hann var með tvær háskólagráður, eina frá Central Texas-háskólanum og aðra frá ríkisháskólanum í Georgíu-ríki. Báðar gráðurnar voru tengdar tölvunarfræði.