Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Þetta er ekki hönnunargalli og kemur öllum á óvart,“ segir Steve Christer arkitekt spurður hvort hönnunargalla sé um að kenna þegar Smiðja Alþingis titrar undan umferð um Vonarstræti.
„Það ber á þessu þegar þyngri vagnar eins og rafmagnsstrætó keyra yfir hraðahindrun við húsið. Þá myndast titringur í jarðvegi sem magnast upp í burðarvirki hússins.“
Spurður hvort þetta hafi komið fyrir áður segir Steve að þetta sé uppákoma og náttúrulegt fyrirbæri.
„Þetta er eitthvað sem er nýtt og fer inn á annað tíðnisvið sem við höfum ekki upplifað áður og er algjörlega óvænt,“ segir Steve Christer arkitekt hússins.
Eigintíðni veldur titringi
Ingimar Jóhannsson, burðarþolsverkfræðingur hjá Eflu, segir að burðarþoli hússins stafi engin hætta af þessu en titringurinn valdi vissulega óþægindum og verið sé að skoða hvað sé framkvæmanlegt.
„Það getur verið erfitt að útskýra þetta en allir hlutir hafa ákveðna eigintíðni sem þeir sveiflast á. Þegar það kemur titringur sem hittir á eigintíðni magnast sá titringur upp og það er það sem gerist þarna. Högg af þungum ökutækjum hittir á eigintíðni þegar ekið er yfir hraðahindrunina.“
Spurður hvort hægt sé að breyta burðarvirki hússins til að breyta þessari tíðni eða hvort einfaldast sé að færa hraðahindrunina segir Ingimar að einfalt sé að breyta hraðahindruninni.
Smiðjutitringur
Inga Sæland upplýsti í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu að þegar sest var til fundar í Smiðju við myndun ríkisstjórnarinnar hefði ítrekað á 15 mínútna fresti komið titringur á herbergið.
Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis sagði við Morgunblaðið í gær að þegar þungar bifreiðar ækju yfir hraðahindrun við húsið ylli það þessum titringi.