Elías Elíasson
Um áramót verður manni hugsað til þess hve hratt heimurinn er farinn að breytast.
Við fengum nýja þríhöfða stjórn í jólagjöf og öll höfuðin kvenkyns. Forseti Íslands og forseti Alþingis eru líka konur og vantar ekkert nema Hæstarétt til að hér sé algert kvennaríki. En þótt þetta geti breytt því hvernig við lögum okkur að nýrri framtíð heldur framtíðin áfram að breytast hraðar en fólk nær að skipta um skoðun. Það er vandinn.
Borgarlínusaga
Saga borgarlínunnar er ef til vill skýrasta dæmið um hvernig fer ef menn hengja sig í eina framtíðarsýn og eitt plan.
Umferðin var farin að þrengjast inn að miðju Reykjavíkur. Þar hafa stjórnkerfi lands og borgar aðsetur, þar var einnig viðskiptamiðjan og margar helstu stofnanir þjóðfélagsins sem nutu nálægðar hver við aðra. Menn sáu fram á að yrði ekkert gert myndu umferðartafirnar skerða aðgengi hæfs fólks að þessari þekkingarmiðju þjóðfélagsins og hæfasta fólkið leita starfa á öðrum vettvangi með ömurlegum afleiðingum.
Talið var að ráðið við þessu væri að koma hér upp almenningssamgöngum sem hefðu margfalt meiri flutningsgetu en bílvegirnir, svipað og við sjáum í London, Kaupmannahöfn og víðar.
Ákvörðun um að fara þá leið að byggja borgarlínu var tekin í lok fyrsta áratugar aldarinnar og þá farið að vinna skýrslur sem áttu að sýna hagkvæmni þess vals. Þó svo að skýrslurnar sýndu fyrst og fremst hve óraunhæfar allar forsendur voru þá skyldi halda ákvörðuninni en breyta heldur aðstæðum sem stýrðu forsendum, t.d. varðandi væntanlega notkun borgarlínunnar. Þannig var tekin upp sú stefna að þrengja að samgönguæðum bílsins, fækka bílastæðum og þétta byggð svo hverfin yrðu sjálfbær og hæfðu bíllausum lífsstíl. Horft var fram hjá því að þessar ráðstafanir takmarka aðgengi fólks að höfuðborgarsvæðinu utan miðju þess, sem skaðar efnahaginn, og að fólk þarf eftir sem áður bíl til að komast um land sitt. Framkvæmd stefnunnar hefur stuðlað að hækkun verðs á íbúðamarkaði en samt er borgarlínan í allt of dýrri útgáfu enn í samgöngusáttmálanum og óhagkvæmni hennar falin bak við hagkvæmni þeirra vegaframkvæmda sem þar eru inni.
Hvað breyttist?
Sú ákvörðun sem tekin var á fyrsta áratug aldarinnar var miðuð við að starfsemi miðborganna yrði að geta vaxið á staðnum og þekkingarmiðjan þar yrði að stækka og eflast í óbreyttu formi. Á þeim tíma voru þegar farin að koma fram veruleg skörð í þessa framtíðarsýn sem síðan hafa vaxið. Fjármálafyrirtæki eru t.d. ekki háð því lengur að viðskiptavinir þeirra mæti í afgreiðslusal þeirra með erindi sín, þau eru rekin á netinu og þar leita menn eftir miðlun þekkingar í stað þess að vingast við kollega á næsta kaffihúsi. Stofnanir hins opinbera eru líka að dreifa sér meira um höfuðborgarsvæðið og störfum án staðsetningar fjölgar. Dæmin sýna líka að borgir sem oft eru með vissri vandlætingu nefndar „bílaborgir“ virka alveg ágætlega.
Miklar framfarir hafa orðið í áætlanagerð og nú er ótvírætt að dýrari gerð borgarlínu er ótímabær.
Síðast en ekki síst hefur það breyst að nú er óvarlegt að gera ráð fyrir endalausum vexti borgarinnar. Hagstofan spáir því að eftir miðjan áttunda áratug þessarar aldar, eftir 50 ár, fari fólki að fækka á Íslandi eins og annars staðar á jörðinni. Fækkunar gætir nú þegar í mörgum löndum eins og Kína, S-Kóreu og víða í Bandaríkjunum. Fæðingartíðni kvenna hér á landi er komin niður í 1,5 en þarf að vera 2,2 til að viðhalda þjóðinni. Ef spáin rætist verður dýrari gerð borgarlínu aldrei tímabær.
Orkumálin breyttust líka
Fyrir meira en hálfri öld komu upp hugmyndir um útflutning raforku um sæstreng, fyrst til Færeyja og síðar til Skotlands. Aldrei tókst þó að sýna fram á nógu góðar markaðsforsendur til lengri tíma þannig að þær tilraunir runnu út í sandinn. Þegar markaðsverð raforku varð á endanum nægilega hátt fundum við út að enn betra væri að nýta orku okkar sjálf til orkuskipta og þar með breyttust líka forsendur um myndun auðlindasjóðs að norskri fyrirmynd því raforkuiðnaðurinn þarf mikið fé til framkvæmda á næstu árum. Þar ráða sjónarmið hagkvæmni og framsýnar, öfugt við það sem gilt hefur um borgarlínu.
Fyrir 20 árum var ekki talið neinum vandkvæðum bundið að innleiða raforkumarkað ESB hér á landi en nú 20 árum síðar búum við enn við okkar eigin útgáfu af þeim markaði. Komið er í ljós að aðstæður hér eru allt aðrar.
Lokaorð
Hinar fornu valkyrjur okkar báru nöfnin Urður (framtíð), Verðandi (nútíð) og Skuld (fortíð). Þær réðu ráðum sínum og stóðu saman líkt og valkyrjur jólastjórnarinnar ætla sér að gera og víst er að samstöðu þarf ef ferðin til framtíðar á að verða farsæl. Fögur orð og plön um hvernig koma má fram þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem allir flokkar settu á oddinn fyrir kosningar duga skammt ef Skuld ríkisstjórnarinnar getur ekki komið þeim Verðandi og Urði í skilning um að plön verða að innihalda viðbrögð við allt annarri framtíð en við blasir nú. Sáttmálinn sem þær hafa gert sín á milli vitnar ekki um þann skilning. Öll vonum við þó að vel takist.
Gleðilegt ár!
Höfundur er verkfræðingur.