Áslaug Jónsdóttir fæddist á Akureyri 29. október 1947. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 18. desember 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Arason Jónsson, f. 15. október 1914, d. 15. október 2004, og Elín Málfríður Guðmundsdóttir, f. 29. maí 1922, d. 21. maí 2000.

Systkini Áslaugar eru Ragnheiður, f. 30. mars 1946, d. 9. september 1992, Birgir, f. 27. febrúar 1953, d. 4. desember 2016, Jón, f. 3. júlí 1955, Sigríður, f. 20. september 1959, og Sólveig Þóra, f. 5. júlí 1965.

Eiginmaður Áslaugar er Jón Hlíðberg Ingólfsson, f. 20. nóvember 1939, og eiga þau börnin Rósu Hlíðberg, f. 11. júní 1965, Jóhann Þór, f. 10. janúar 1971, Elínu Björgu, f. 27. nóvember 1973, Kristjönu Hlíðberg, f. 11. mars 1976, og Aðalheiði Hlíðberg, f. 16. desember 1986.

Áslaug og Jón gengu í hjónaband 7. desember 1964 og bjuggu hvað lengst í Vestursíðu á Akureyri. Áslaug vann síðustu ár starfsævinnar í Brekkuskóla.

Áslaug verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, 3. janúar 2025, klukkan 13.

Elsku hjartans mamma mín, þá er komið að leiðarlokum og þú hefur nú fengið hvíldina þína eftir baráttu við krabbamein. Það voru erfiðar stundir sem við áttum með þér síðustu dagana á sjúkrahúsinu og við sátum öll hjá þér og fylgdum þér alla leið. Það var ákveðinn léttir að hugsa til þess að þú myndir ekki finna lengur til. Það var erfitt að sjá þig finna til og við gátum ekkert gert en vorum til staðar fyrir þig eins og þú hefur alltaf verið fyrir okkur.

Á þessari stundu trilla tárin niður og hugsunin að þú verður ekki lengur til staðar fyrir okkur er mjög sár. Góðu og fallegu minningarnar spretta fram. Á milli okkar var alltaf gott og hlýtt samband, við vorum í sambandi daglega og ég þakka fyrir það alla daga.

Oft var hringt í ömmu Ásu og afa Nonna og beðið um gistinótt og það var aldrei neitt vandamál. Gista hjá ömmu og afa í Vestursíðu var algjör veisla og hvað þá að fá þau í heila viku til Sigló og passa, þá var mikill spenningur. Afi sá um að elda eins og alltaf og amma alltaf til staðar fyrir alla. Gunnar Örn, Elva Ýr og Jón Einar og Brúnó áttu ómetanlegar stundir með ykkur.

Við getum þakkað pabba fyrir það að hann var alltaf með myndavélina á lofti og við þökkum fyrir þær dýrmætu minningar sem við áttum og njótum góðs af en það heyrðist nú oft: „Æi elsku Nonni, er þetta ekki komið gott?“ Elsku mamma, takk fyrir þig, takk fyrir að vera góð mamma, takk fyrir að hvetja mig áfram, takk fyrir öll knúsin, takk fyrir að elska okkur öll skilyrðislaust. Við munum standa sterk saman eins og alltaf og ég trúi því að þú sért komin á góðan stað og móttakan hafi verið yndisleg. Við pössum öll upp á pabba. Elska þig mamma mín og ég er þakklát fyrir að hafa verið í góðu sambandi og við fjölskyldan hugsum til þín með fallegar, góðar og dýrmætar minningar í hjörtum okkar.

Hin hinsta kveðja, þín dóttir,

Elín Björg.

Elsku mamma.

Þau eru þung sporin sem ég hef þurft að taka undanfarna daga. Þótt ég hafi vitað í langan tíma í hvað stefndi, þá var höggið mikið og miklu meira en ég gat ímyndað mér. 18. desember var sá dagur sem þú fékkst hvíldina og sársaukinn sem þú varst búin að upplifa síðastliðin þrjú ár hvarf með þínu síðasta andartaki. Þú kvartaðir aldrei, maður gat einungis séð hversu verkjuð þú varst. Þú hafðir alltaf meiri áhyggjur af öllum öðrum en sjálfri þér og það er svo sterkt þegar ég fer yfir farinn veg hversu sterk og óhlífin þú varst.

Allt mitt líf hefur þú verið þátttakandi í mínu lífi, alveg sama hvað ég var að bralla og þið pabbi, alltaf tilbúin að koma austur og vera hjá okkur hvort sem það var got, sauðburður eða jafnvel álag í vinnu hjá mér þá voruð þið mætt og fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Þú kenndir okkur að það þarf að hafa fyrir hlutunum og að gefast upp var ekki í boði. Það var alltaf mikill húmor í þér og strákunum fannst mjög gaman að fá þig með í alls konar vitleysisgang eins og að fara á rúntinn á fjórhjóli og hafa gaman. Stundirnar með hundunum og reyndar öllum dýrum sem þú komst nálægt voru svo sérstakar, það var nánast eins og þið gætuð skilið fullkomlega hvert annað.

Undanfarin þrjú ár hefur þú ekki komist austur en það sem ég þakka fyrir tæknina því með myndsímtölum fékkstu að sjá sauðburðinn og allt sem við vorum að bralla eins og allar framkvæmdir og nýju verslunina sem reis í sumar. Það eru endalausar dýrmætar stundir sem við fjölskyldan geymum þétt í hjarta okkar um ókomna tíð. Takk fyrir að vera besta mamma og amma.

Þín

Kristjana, Ingibergur, Eyþór Bergmann og Felix Freyr.