Bækur
Kristján Jóhann
Jónsson
Tilvitnun sem Guðjón Friðriksson sækir til baráttukonunnar Guðrúnar Erlendsdóttur lögmanns hefst á þessum orðum: „Af minnihlutahópum þjóðfélagsins hefur það tekið börnin lengstan tíma að fá viðurkennd réttindi sín.“ Í þessari staðhæfingu felst býsna alvarleg ákæra. Undir hana er góðum stoðum rennt í bók Guðjóns og að sumu leyti endurspeglast þetta viðhorf í allri bókinni. Þar er rakin saga barna í Reykjavík og höfundurinn heldur afar vel á sínum spilum. Til er heilmikið af góðu efni um sögu barna á Íslandi en hvergi á einum stað. Sú heildarmynd sem birtist í bókinni Börn í Reykjavík er mikilvæg.
Frásögnin tekur mið af sjónarhorni barna og það er upphaf þessarar sögu að í Reykjavík verður mannfjölgun sem yfirvöldum sýnist ekki boða neitt gott. Bændasamfélaginu er nóg boðið! Ég get ekki stillt mig um að birta annað brot úr tilvitnun sem Guðjón tekur, í þetta sinn úr frumvarpi til laga um húsmenn, frá 1887. Hér tala yfirvöldin um innflytjendur úr sveitum á mölina: „… hafa þeir týnt niður að vinna það, sem þeir kunnu upphaflega að sveitavinnu, og þannig er fjöldi barna upp alinn í iðjuleysi og ómennsku sem leggur grundvöllinn til ævilangrar vesalmennsku, sem því miður oft leggst í ættir.“
Það er sjaldgæft að mönnum takist að rúma svo marga fordóma í svo fáum orðum! Það er hins vegar ekki eina ástæðan fyrir því að ég leyfi þessu broti úr tilvitnun að fljóta hér með. Í henni birtist það einnig að þegar samfélagið breytist á fullorðna fólkið yfirleitt nóg með sig og börnin verða nýtt vandamál. Margt af því fólki sem fluttist til Reykjavíkur úr sveitunum í upphafi aldarinnar var ungt og því fylgdu lítil börn. Þau léku sér á götum Reykjavíkur, um annað rými var ekki að ræða. Húsnæðiskreppan var margföld á við það sem nú gerist þó að mörgum þyki nóg um hana hér og nú, reiðmenn og hestvagnar sköpuðu hættu á götunum og svo komu bílarnir og slys á börnum urðu mjög tíð. Konur reyndu einna helst að berja í brestina en í huga valdsmanna virðast fátækt og „vesalmennska“ hafa verið samheiti.
Það varð mikil breyting á samfélaginu þegar fólk þyrptist til Reykjavíkur úr sveitunum um og upp úr stríðsárunum, um miðja 20. öldina. Yfirvöld voru frekar óhöndugleg á fyrstu árum hinnar hraðvaxandi borgar og það getur svo sem hver maður séð sjálfan sig í því að ekki er auðvelt að fóta sig í veruleika sem breytist hratt, en það er varla réttlætanlegt að vandamálið í augum hins opinbera virðist fyrst og fremst vera „fátæka fólkið og börnin“. Ekki viðbrögð stjórnvalda. Þannig finnst mörgum stjórnvöldin einnig bregðast við innflytjendum til landsins á vorum dögum og djúpt á lausnamiðuðum viðhorfum.
Svipaða atburðarás má sjá á stríðsárunum þegar foreldrar reyna að setja börnum mjög strangar reglur um það hvernig þau eigi að umgangast hermenn og yfirvöld reyna að senda öll börn í sveit, burt úr bænum, til þess að losna við vandamálið. Sum þeirra voru auðvitað heppin og lentu hjá góðu fólki en önnur gerðu það ekki.
Eins mætti nefna að þegar börnum fer að fjölga ótæpilega í bænum þá er ekki brugðist við því með fleiri skólabyggingum fyrr en seint og um síðir. Enn og aftur eru hagsmunir barnanna taldir til vandamála og þau til trafala en óburðugar lausnir réttlættar langt fram yfir það sem eðlilegt má teljast. Þetta er svo endurtekið þegar samfélagið breytist á þann veg að konur fara að vinna úti. Í því tilviki urðu bæði börnin og konurnar „vandamál heimsins“ eins og ágætt skáld orti og lausnir ekki í sjónmáli fyrr en eftir dúk og disk. Nú stöndum við frammi fyrir börnum erlendra innflytjenda og hefur ekki hugkvæmst að setja á stofn frambærilega íslenskukennslu fyrir þau eins og skot. Ég tek það fram að þetta er túlkun mín í framhaldi af texta Guðjóns. Hann er gætinn og yfirvegaður í allri sinni framsetningu en heimildirnar tala sínu máli. Ég hef aldrei fyrr en í þessari bók séð á einum stað jafngóða heildarmynd af sögu barna í Reykjavík og þar með að mörgu leyti á landinu öllu, því munurinn á þéttbýli og dreifbýli er minni en margir vilja vera láta.
Það er samhengi í þeirri sögu barna sem hér er rakin frá síðustu árum nítjándu aldar, gegnum þá tuttugustu og inn í fyrsta fjórðung þeirrar tuttugustu og fyrstu. Það birtist ekki einungis í silalegum viðbrögðum stjórnvalda við hvörfum í samfélagsþróun. Framrás tækninnar kemur líka við sögu í bók Guðjóns og eitt af þeim umræðuefnum sem lifa góðu lífi hér og nú þegar þetta er skrifað, og mun verða á gangi enn um nokkra hríð, er umgengni barna við tækni. Þar virðist vera að birtast sú mynd sem er skýr í sögu liðinna ára. Þegar meiri háttar hvörf verða þá er tekið á hlutskipti barna af ráðvilltri hálfvelgju og helsta flóttaleiðin sú að segja að börnin séu vandamálið. Tæknirisar, skólar og foreldrar virðast vera „stikkfrí“ þegar tæknin er annars vegar. Börnin hanga hins vegar stöðugt í símanum og virðast tæpast viðræðuhæf.
Í þessari stóru bók Guðjóns er margt tekið upp og rætt og í þessum stutta texta verður því miður engin ítarleg grein gerð fyrir því. Það er til dæmis fjallað mjög skemmtilega um leiki barna og vegna hins sögulegu samhengis birtast þeir oft í nýju ljósi. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft segir máltækið. Bílaleikirnir komu með bílunum og stríðsleikirnir með hernum og kvikmyndunum, mömmuleikirnir með staðalímyndum kynjanna og leikir nútímabarna mótast enn og aftur af þeim fyrirmyndum sem koma inn í þeirra líf.
Í bókinni er fallegur kafli sem heitir: „Óhreinu börnin hennar Evu“. Þar er rakin saga af því þegar loksins tókst að fá viðurkennt að fötluð börn ættu sama rétt á skólanámi og önnur börn. Til þess þurfti baráttufólk að láta að sér kveða. „Allt fram til ársins 1936 voru ekki til nein sérstök ákvæði um þroskahefta í íslenskri löggjöf,“ segir m.a. í bók Guðjóns og þar er fjallað um börn með ýmiss konar fötlun og aðgengi þeirra að námi.
Að lokum er rétt að ítreka að stuttur ritdómur af þessu tagi gefur trauðla skýra heildarmynd af 635 blaðsíðna fræðiriti. Ég hef þar að auki leyft mér að túlka lítillega þann mikla fróðleik sem hér er dreginn saman. Eina staðhæfingu á ég þó ósagða:
Þar til gert ráðuneyti ætti að kaupa þessa fallegu bók og gefa hana hverjum einasta kennara á Íslandi. Það væri raunverulegt innlegg í menntun kennara.