Afl Svanhvít Tryggvadóttir hér á sýningunni við stórt vatnshjól, en slík eru í raun hjartað í öllum virkjunum.
Afl Svanhvít Tryggvadóttir hér á sýningunni við stórt vatnshjól, en slík eru í raun hjartað í öllum virkjunum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Með þessari sýningu er byggðasafnið að færa safnið enn frekar út til almennings. Í safnastarfi er mikilvægt að brydda sífellt upp á einhverju nýmæli í samræmi við að samfélagið þróast hratt,“ segir Svanhvít Tryggvadóttir, sérfræðingur hjá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Á dögunum var þar í bæ opnuð sýningin Köldu ljósin, sem tileinkuð er starfi frumkvöðulsins Jóhannesar Reykdal (1874-1946). Sýningin er í glerskála í undirgöngum við Lækinn í Hafnarfirði, á svæði sem einu nafni er kallað Hörðuvellir.

Rafvæðing Íslands var hafin

Jóhannes Reykdal, fæddur í Reykdal í Suður-Þingeyjarsýslu, var maður sem munaði um; samanber að fyrsta virkjunin á Íslandi var reist að hans frumkvæði. Var hún við Lækinn og Hörðuvelli í Hafnarfirði. Gangsett 12. desember 1904 og framleiddi rafmagn fyrir fyrstu almenningsveituna á Íslandi. Sú orka dugði til að lýsa 16 hús, fern götuljós og trésmiðju Jóhannesar. Þegar hér var komið sögu hafði Jóhannes, eftir trésmíðanám í Kaupmannahöfn, sett sig niður í Hafnarfirði, eignast fjölskyldu og fest þar rætur.

Mikil eftirspurn var eftir rafmagni virkjunarinnar og fór Jóhannes því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur rafstöð á Hörðuvöllum. Sú rafstöð tók til starfa haustið 1906 og var að afli 37 kW, sem fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði. Var hún fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi. Ellefu árum síðar, það er 1917, reisti Jóhannes enn aðra virkjun sem er ofar í læknum. Þar með hafði teningunum verið kastað og rafvæðing Íslands var hafin. Allt er þetta saga sem vert er að halda til haga. Virkjunin við lækinn var svo endurbyggð á árunum 2007-2008 og hefur verið nefnd Reykdalsvirkjun. Endurbyggingin náði til endurgerðar miðlunarlóns, stíflu og aðveitustokks, auk þess sem byggt var nýtt aðveituhús sem hýsir hverfil og rafal í undirgöngum brúar yfir Lækjargötu. Var Reykdalsvirkjun formlega endurræst snemma árs 2008 og er uppsett afl hennar 9 kW.

Daglega fer fjöldi fólks um fyrrnefnd undirgöng, hvar er vinsæl gönguleið þegar gengið er meðfram Hamarskotslæk og fram hjá Lækjarskóla. Sýningin er því á besta stað og uppsetning hennar nýstárleg.

Hjólið sett af stað

„Það var heiður fyrir mig að fá tækifæri til að hanna þessa sýningu frá grunni. Hönnunarferlið hófst í ágúst og ég fékk til liðs við mig Trausta Sigurðsson húsasmíðameistara sem á ansi mikið í þessu öllu. Þá komu ýmsir iðnaðarmenn hér í bænum að málum en frá því í byrjun október fram að sýningaropnun, rétt fyrir jól, var ég svo meira og minna á hnjánum í skálanum að pússa, bæsa og mála, og undir lokin að raða inn síðustu sýningarmununum,“ segir Svanhvít.

Með því að líta inn í glerhýsið góða getur fólk kynnt sér sögu Jóhannesar Reykdal og skoðað eftirmynd af trésmíðaverkstæðinu hans. Einnig tekið í handfang sem hangir í keðju fyrir utan glerið. Með því var sett af stað stóra vatnshjólið sem virkjar rafmagnið sem kveikir á ljósunum í litlum húsum í líkani af Hafnarfirði frá þessum tíma. Þau tákna fyrstu 16 húsin sem fengu rafmagn í Hafnarfirði árið 1904.

Nafnið kom af sjálfu sér

Mikil heimildavinna fór í að finna hvaða hús það voru sem upphaflega fengu fyrst rafmagn. Rósa Karen Borgþórsdóttir hjá Byggðasafni Hafnarfjarðar hafði þá rannsókn með höndum. „Heimildum ber ekki saman um hvaða hús voru fyrst tengd veitunni og hversu mörg þau voru í raun,“ segir Svanhvít Tryggvadóttir og bætir við í lokin:

„Það er mjög áhugavert að aldrei hafi verið skráð nákvæmlega hver voru fyrstu raflýstu húsin á Íslandi. Líkleg skýring gæti þó verið sú að á þessum tíma gat fólk ekki ímyndað sér hve mikið þarfaþing rafmagnið yrði í framtíðinni. Fannst því ekki þörf á að skrá þessar upplýsingar sérstaklega. Fyrir fólk á þessum árum var þetta líklega „bara bóla“ eins og sagt var á sínum tíma um netið. Allir voru með annars konar ljósmeti svo það þótti einkennilegt að það þyrfti að vera að lýsa upp með köldum glerkúlum. Því kom nafn sýningarinnar góðu, Köldu ljósin, eiginlega alveg af sjálfu sér og lá beint við.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson