Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Evrópusambandið (ESB) hefur styrkt Hveragerðisbæ um tæpar 343 milljónir króna til að byggja nýja skólphreinsistöð og um leið þróa heildstæðar úrgangslausnir og sýna framfarir í meðhöndlun á úrgangi. Þá mun bærinn sýna fram á nýtt eftirlit með seyru og örplasti en það hefur ekki verið gert áður hér á landi, að því er segir á vef sendinefndar ESB á Íslandi.
Hveragerði er meðal 22 samstarfsaðila Umhverfisstofnunar sem fengu samtals 3,5 milljarða króna styrk frá ESB til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Greint var frá styrknum eftir að Clara Ganslandt tók við sem sendiherra ESB á Íslandi.
Þurfa að efla fráveituna
Pétur G. Markan, bæjarstjóri í Hveragerði, segir bæinn framarlega í þessum málaflokki.
„Í grunninn snýst okkar þátttaka í þessu verkefni um skólphreinsistöðina og fráveituna okkar og uppbyggingu á henni. Það hefur legið fyrir að við þurfum að efla fráveituna og skólphreinsistöðina. Styrkurinn mun því nýtast mjög vel. Við höfum haft sérstöðu þegar kemur að fráveitumálum með því að vera með þrepaskipta skólphreinsistöð, sem er í raun krafa hjá löggjafarvaldinu. Við höfum verið með slíka stöð og þannig verið í fararbroddi þegar kemur að skólphreinsun vil ég meina. Við erum líka með viðkvæman viðtaka, Varmána, sem er mikil perla, og málið því enn mikilvægara fyrir okkur. Nú þarf einfaldlega að stækka stöðina og efla hana, og við þurfum að vinna málið af festu, skilvirkni og fagmennsku,“ segir Pétur. Styrkur ESB dugi fyrir u.þ.b. þriðjungi kostnaðarins.