Unnsteinn Ólafsson fæddist í Reykjavík 7. júlí 1966. Hann lést í Kaupmannahöfn 1. desember 2024.
Foreldrar Unnsteins eru Stefanía Erla Gunnlaugsdóttir, f. 2. janúar 1942, og Ólafur J. Unnsteinsson, f. 7. apríl 1939, d. 9. september 1996. Bróðir Unnsteins er Gunnlaugur, f. 21. maí 1968, eiginkona hans er Sigríður H. Pálsdóttir, f. 29. maí 1973, þau eiga þrjár dætur.
Unnsteinn giftist Berglindi Hilmarsdóttur, f. 11. febrúar 1967, þau skildu. Dóttir þeirra er Arna Björk, f. 14. janúar 1994, maki hennar er Símon Haukur Guðmundsson, f. 11. janúar 1993. Börn þeirra eru Svanur Hilmar, f. 27. febrúar 2014, Sigursteinn Guðmundur, f. 18. nóvember 2015, og Lilja Bergrós, f. 15. ágúst 2019.
Unnsteinn ólst upp í Reykjavík og gekk í Álftamýrarskóla. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1987 og nam síðar í stuttan tíma viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fjölmiðlun við CBS í Kaupmannahöfn. Húsamálun átti þó hug hans og hjarta og varði hann starfsævi sinni á því sviði, stundum á Íslandi en að mestu í Kaupmannahöfn, sem var heimili hans í nær þrjátíu ár.
Unnsteinn var afar músíkalskur og lék á fjölda hljóðfæra. Hann söng um árabil í ýmsum kórum og var meðlimur í hljómsveitinni Hekkenfeld þar sem hann lék á trommur.
Unnsteinn var fjölskyldumaður og ljósið í lífi hans var einkadóttir hans, Arna Björk, og afabörnin þrjú.
Útför Unnsteins fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 3. janúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Hann Unnsteinn er dáinn, hann varð bráðkvaddur í Danmörku í dag. Þannig hljómaði símtalið sem ég fékk þann 1. desember síðastliðinn, þegar aðventan var að byrja og jólahugurinn að vakna í huga landsmanna. Hvað segir maður þegar besti vinur manns til 45 ára fellur skyndilega frá? Við Unnsteinn vorum í sama árgangi í Álftamýrarskóla en ekki sama bekk. Vissum vel hvort af öðru enda samgangur mikill milli bekkja en það var um 12 ára aldur sem við urðum bestu vinir. Ég man ekkert sérstaklega af hverju en ætli sameiginlegur áhugi á tónlist, það að vinahóparnir okkar tengdust og að svipaður húmor einkenndi okkur hafi ekki sinn þátt í því.
Ljóslifandi í minningunni eru sprenghlægilegar trommukennslustundir í bílskúrnum í Safamýrinni og þolinmæði hans við að kenna mér skiptingarnar á skellinöðrunni sinni, við gátum endalaust hlegið að þessum stundum síðar í lífinu. Hann varð heimalningur á Háaleitisbrautinni og þeir pabbi voru góðir vinir. Amtmannsstígurinn þar sem hann bjó ásamt svo mörgum sameiginlegum vinum okkar kom mikið við sögu í lífinu og á tímabili bjuggum við þar bæði, hann á 5 og ég á 6. Svo komu makar, börn, búseta í útlöndum og lífið en við vissum alltaf hvort af öðru, við myndum alltaf hittast aftur og eiga stund saman. Við ætluðum að hittast núna um jólin þegar þú kæmir til Íslands, til elsku Örnu þinnar og barnabarnanna, en enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Elsku vinur, ég sakna þín.
Júlía Margrét
Sveinsdóttir.
Ég minnist Unnsteins. Augu hans fólu í sér sérstakt blik sem var í senn gáfulegt, glettið, hlýtt og notalegt. Hann var mörgum dýrmætur. Vinum. Frænda. Móður og bróður sem syrgja svo djúpt og fallega.
Elsku Arna Björk og fjölskylda, hjarta mitt stingur og svíður þegar ég hugsa um ykkar missi og framtíðina sem fékk einhverra hluta ekki að verða.
Unnsteinn, mágur minn. Stundum ögn breyskur og svo dásamlega marglaga og flókinn. Hann gekk ekki endilega í takt við hefðina sem rígheldur svo gjarnan í okkur hin. Ég dáðist á stundum að frelsinu sem bjó innra með honum og þótti vænt um einstakan mann.
Hikandi kveð ég en óska þér góðrar ferðar, kæri vinur. Svífðu hratt inn í sumarlandið.
Sigríður H. Pálsdóttir.
Hann Unnsteinn okkar er fallinn frá, tíðindin eru einhvern veginn áfall sem erfitt er að lýsa. Við hópurinn úr Álftamýrarskóla erum svo sannfærð um að vera ódauðleg og einhvern veginn átti það sérstaklega við um Unnstein. Árgangar '65 og '66 í Háaleitishverfinu tengdust alla tíð mjög vel, sem var frekar óvenjulegt. Vinátta okkar Unnsteins er því að nálgast 50 ár. Þessi snaggaralegi strákur sem gat svo margt og kunni svo margt. Alla tíð frekar stuttur en þeim mun liprari í íþróttum og hefði getað náð langt hvort sem var í fótbolta eða handbolta ef hugur hans hefði stefnt þangað. Tónlistin náði hins vegar mjög snemma yfirhöndinni og var hann strax í grunnskóla kominn bak við trommusettið.
Mig langar bara hér í örfáum fátæklegum orðum að kveðja þig, kæri vinur, og þakka fyrir samfylgdina í gegnum þessa áratugi. Minningar renna í gegn úr Safamýrinni eða þegar við útskrifuðumst saman úr MH, áttum það sameiginlegt að vera óþarflega duglegir við að safna mætingarpunktum eða finna ástæðu til að draga það að skila ritgerðum. Þú varst hins vegar alveg snillingur í að græja þetta, hrista fram verkefnin þegar komin var alvörupressa. Við gátum alltaf spjallað saman þegar við hittumst eða heyrðumst í síma þótt það hefði vissulega orðið sjaldnar eftir að þú fluttir til Danmerkur.
Samúðarkveðjur til þinna, kæri vinur, við hittumst síðar.
Ólafur Jóhann Ólafsson.
Unnsteinn flutti sem ungur maður til Kaupmannahafnar, þar sem við kynntumst honum. Í fyrstu bjó hann á Øresundskollegíinu ásamt konu sinni og dóttur. Á þessum tíma starfaði hann sem sjálfstæður málari. Það voru margir Íslendingar í Kaupmannahöfn á þessu kollegíi og þar bjuggu Íslendingar sem langaði til að spila í hljómsveit, því á kollegíinu var góð aðstaða til hljómsveitaræfinga. Það fréttist fljótlega að Unnsteinn hafði spilað á trommur svo að þegar það vantaði trommuleikara í hljómsveitina Hekkenfeld var hann spurður hvort hann vildi ekki byrja að æfa með hljómsveitinni. Hann sló til og eftir það var æft einu sinni í viku niðri í kjallaranum á Øresundskollegíinu í pínulitlu gluggalausu og loftlausu herbergi í hita og svita. Unnsteinn passaði vel inn í hópinn og hamaðist alltaf svo mikið á trommunum að hann trommaði oftar en ekki ber að ofan. Hann vissi margt um tónlist og það var gaman að heyra sögurnar hans um tónleika sem hann hafði farið á, um umboðsmennsku hans fyrir tónlistarmenn á Íslandi, um reynslu hans úr íþróttum eða bara góð ráð varðandi málningarvinnu. Hljómsveitin spilaði á mörgum stöðum í Kaupmannahöfn á þessum árum.
Hljómsveitin tók upp plötuna Rumsk árið 2001 og plötuna Umturnast árið 2005. Að loknu námi fluttu hljómsveitarmeðlimir frá Kaupmannahöfn til Íslands, Englands, Noregs og til Jótlands. Eftir það hafa meðlimir samt haldið hópinn og hist öðru. Á tímabilinu 2020-2023 tók hljómsveitin upp heila plötu sitt í hvoru lagi og sendi upptökur á milli landa. Þannig var gerð platan Ég á þig sem kom út í janúar 2024.
Þó að hljómsveitin hafi æft saman reglulega framan af en stöpullega síðari ár hefur þessi félagsskapur sem hljómsveitin var fyrst og fremst verið afsökun til að skemmta hljómsveitarmeðlimum sjálfum og hitta góða vini með tónlist að áhugamáli.
Aldrei lék nokkur vafi á því að tónlistin átti hug Unnsteins allan næst á eftir fjölskyldunni. Þegar félagarnir í hljómsveitinni hafa skipulagt ferðir á stórtónleika fór Unnsteinn oft með. Allar þessar ferðir eru mjög eftirminnilegar og hinar mörgu sögur af Unnsteini úr þeim ferðum eru efni í heila bók.
Hljómsveitin kom saman í síðasta sinn ásamt Unnsteini í september 2024. Allir í hljómsveitinni hittust í stúdíóinu á Jótlandi, þar sem samin voru og gerðar upptökur af fjórum nýjum lögum. Það var samdóma álit allra að mjög gaman var að njóta lífsins með Unnsteini þessa fimm daga. Unnsteinn var þar í essinu sínu við trommuleik, var í mjög góðu jafnvægi og greinilegt var að hann hafði það mjög gott í Kaupmannahöfn og hafði fundið góða vini í Christianshavns beboerhus þar sem hann vann sjálfboðavinnu síðustu árin.
Við minnumst Unnsteins með söknuði. Einstaklega þolinmóður, yfirvegaður og góður maður er fallinn frá. Við viljum nota tækifærið og koma á framfæri innilegum samúðarkveðjum til dóttur hans og fjölskyldu hans allrar. Minning hans lifir enn í upptökum hans með hljómsveitinni.
Fyrir hönd hljómsveitarinnar Hekkenfeld,
Óskar
Ágústsson.