Hefur nýjum ráðamönnum í raun snúist hugur um ríkisútgjöld?

Ríkisstjórnin hefur kallað eftir tillögum frá almenningi, fyrirtækjum og hagsmunaaðilum um hagræðingu í ríkisrekstri, auk þess sem sérstaklega verður kallað eftir upplýsingum og ábendingum frá ríkisstofnunum um sama efni. Samráðsgátt var opnuð af þessu tilefni í gær og verður opin í þrjár vikur og eru tillögur þegar farnar að tínast inn.

Ætla má að töluverður fjöldi tillagna muni berast og fær starfshópur forsætisráðuneytisins án efa nóg að gera við að fara í gegnum þær og velja úr þær sem álitlegar eru til að hrinda í framkvæmd.

Vonandi kemur eitthvað út úr þessu, ekki veitir af, en þó
verður vart hjá því komist að benda á að skýringin á því að ríkið hefur fremur tilhneigingu til að þenjast út en dragast
saman er ekki skortur á tillögum um hvar megi spara eða hagræða. Ýmsir hafa lagt til niðurskurð á mörgum liðum fjárlaga og má nefna Viðskiptaráð sem lagði sem dæmi fram fjölda tillagna um mikinn sparnað hjá ríkinu við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Á þeim tillögum hafa menn vitaskuld ólíkar skoðanir, en þær eru nefndar hér sem dæmi um að ekki hefur skort á hugmyndir
um aðhald. Það sem hefur vantað upp á og skýrir umsvif ríkisins er að viljinn til niðurskurðar er yfirleitt af skornari skammti en hugmyndirnar um hvar hægt sé að munda niðurskurðarhnífinn.

Ágætt dæmi um það er að finna í nefndaráliti 2. minnihluta fjárlaganefndar vegna fjárlaga fyrir árið 2024. Þessi minnihluti samanstóð af Kristrúnu Frostadóttur, nú forsætisráðherra, og í álitinu leggur Kristrún til að skattar verði hækkaðir um 24 milljarða króna frá því fjárlagafrumvarpi sem fyrir lá og að útgjöld verði hækkuð um 12 milljarða króna. Þessa tillögu sagði hún til þess fallna að „draga úr verðþrýstingi í samfélaginu og verja kjör almennings“.

Þessu til viðbótar ræddi Kristrún í nefndarálitinu ýmis einstök mál og gagnrýndi mjög það aðhald sem finna mátti í fjárlagafrumvarpinu. Hún fann að „flatri aðhaldskröfu“ sem hún taldi að hefði orðið til þess að útgjöld rýrnuðu í ýmsum málaflokkum. Þá benti hún á nokkur dæmi um að ráðherrar hefðu ekki mætt öllum kröfum um útgjöld sem hún tiltók og var þar um allmarga milljarða að ræða. Voru þessar aðfinnslur um of lítil útgjöld þáverandi ríkisstjórnar raktar á um sex blaðsíðum, sem segir sitt um ástæður þess að ríkisstjórnum gengur almennt betur að bæta í útgjöldin en að draga úr þeim.

Ekkert liggur fyrir um það á þessari stundu hvort Kristrún Frostadóttir og aðrir í ríkisstjórninni, sem margir hafa einnig gagnrýnt skort á ríkisútgjöldum, hafa raunverulegan vilja til að draga nú úr ríkisútgjöldunum í stað þess að hækka þau eins og þeir hafa talað fyrir árum saman.

Skattgreiðendur hljóta að vona að nýir ráðamenn hafi nú raunverulegan vilja til að hagræða í ríkisrekstrinum en séu ekki aðeins að setja upp leikþátt til að slá ryki í augu almennings. Þess verður ekki langt að bíða að í ljós komi hvort er og mikilvægt að skattgreiðendur fylgist vel með.