Sumarrós Magnea Jónsdóttir fæddist á Akranesi 11. janúar 1946. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. desember 2024.
Foreldrar hennar voru hjónin Jón Pálsson, vélstjóri og vélvirki frá Sólmundarhöfða á Akranesi, f. 8. okt. 1917, d. 15. apríl 1994, og María Magnúsdóttir húsfreyja frá Siglufirði, f. 22. maí 1920, d. 8. nóvember 1979. Systur hennar eru Guðný, f. 13. júlí 1941, og Jóna Maja, f. 21. maí 1950.
Hún giftist árið 1965 fyrri manni sínum, Magnúsi Þórarni Jónssyni, f. 28. maí 1943, d. 8. maí 2021.
Hún giftist seinni eiginmanni sínum 1976, Svavari Ágústssyni, f. 8. október 1946, d. 27. júlí 2016. Synir þeirra eru: 1) Jón Már, f 29. ágúst 1979, giftur Söndru Mariu Troelsen og eiga þau þrjú börn saman, Indíönu Mist 8 ára, Ísar Mána 5 ára og Móeyju Maríu 3 ára. Jón Már á svo einn son úr fyrra hjónabandi, Leó Má, 22 ára. 2) Rúnar Ágúst, f. 25. nóvember 1982, giftur Helgu Maggý Magnúsdóttur og eiga þau tvo syni, Bjart Aron 8 ára og Ólíver Egil 5 ára.
Rósa gekk í Grunnskóla Akraness og síðar meir lauk hún námi frá Húsmæðraskólanum.
Þau Svavar komu þau sér fyrir á Seltjarnarnes. Hófu þau útgerð upp úr 1980 með Hirti Jónssyni vélstjóra og Jóhönnu Gunnarsdóttur konu hans allt til ársins 2005. Sá Rósa m.a. um allt bókhald sem sneri að útgerðinni en þar áður hafði hún unnið sem gjaldkeri hjá Landsbankanum á Langholtsvegi. Á útgerðartímabilinu var hún meðlimur og á tímabili í stjórn kvenfélagsins Öldunnar, sem var félag eiginkvenna skipstjórnarmanna.
Leiðir hennar og Svavars lágu svo í sundur upp úr 2010. Seinna á lífsleiðinni starfaði Rósa einnig í afgreiðslu í efnalaug og í Múlakaffi. Síðustu árin bjó hún og undi sér vel á Dalbraut 18.
Útförin fer fram í Seltjarnarneskirkju í dag, 3. janúar 2025, klukkan 13.
Elsku mamma.
Sorgin og söknuðurinn er mikill.
Eftir situr þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum með þér og allt sem þú varst og gerðir fyrir okkur. Góðar og hlýjar minningar taka utan um okkur á erfiðum stundum.
Takk fyrir allt, ástina og lífið.
Liljublóm sem að leit sólu mót.
Á lífsins morgni var í burtu hrifið
slitið óvænt upp af sinni rót.
Ekkert finnst þar síðan nema grjót.
Aftanstund og örlítill þeyr.
Í eyra mér er hvíslað dimmum rómi:
Lætur eftir sig það líf, sem deyr
lítið skarð í hópinn, ekki meir.
Hjálpar alltaf að,
eiga í sínum hjartastað,
ljóselska minning ljúfa,
ljóselska minning ljúfa.
Sorgin er ein á yfirferð.
Ótti af henni mannfólkinu stendur,
hún er bæði köld og viðsjárverð,
og velur ekki neina sáttagerð.
Liljublóm sem að leit sólu mót.
Á lífsins morgni var í burtu hrifið,
slitið óvænt upp af sinni rót.
Ekkert finnst þar síðan nema grjót.
Hjálpar alltaf að,
eiga í sínum hjartastað,
ljóselska minning ljúfa,
ljóselska minning ljúfa.
(Ásgeir Trausti og
Einar Georg Einarsson)
Rúnar Ágúst
Svavarsson.