Fiskvinnslan í landinu fer aftur á fullt í næstu viku en togarar eru nú margir farnir á sjó. Smærri bátar eru að tínast út og í Ólafsvík reikna karlarnir á bátunum með því að fara í fyrstu róðra ársins í næstu viku. Kalt hefur verið á Snæfellsnesi síðustu daga og lagnaðarís er á höfninni í Ólafsvík sem er líkt og flísalögð, úr lofti séð.
„Útlitið er gott,“ segir Oddur Orri Brynjarsson, skipstjóri á Steinunni SH 167. „Strákarnir í áhöfninni eru sumir á Kanaríeyjum en eru á heimleið. Ég geri ráð fyrir að við förum út á þriðjudaginn í næstu viku og verðum til að byrja með hér frammi á Brún eða vestur á Kanti. Þetta eru heimamið Ólafsvíkurbáta; hefðbundin slóð á vetrarvertíð. Til að byrja með verður aflinn væntanlega þorskur, ýsa og ufsi í einhverri blöndu. Þegar kemur svo fram í febrúar og loðna fer að gera vart við sig verður sá guli meira áberandi.“
Í Ólafsvík hafa, auk Steinunnar SH, nú síðustu dagana legið inni dragnótabátarnir Guðmundur Jensson SH, Egill SH og Sveinbjörn Jakobsson SH.
„Við á þessum stærri bátum hér í Ólafsvík fylgjumst gjarnan að og fiskum oft á sömu miðum. Annars ræður kvótastaðan alltaf mestu um hvernig menn haga sinni sókn og svo auðvitað veðráttan,“ segir Oddur Orri skipstjóri. sbs@mbl.is