Skógarsel Devon Tomas úr Grindavík sækir að körfu ÍR-inga í gærkvöldi. Collin Pryor, Jacob Falko og Matej Kavas hjá heimamönnum verjast.
Skógarsel Devon Tomas úr Grindavík sækir að körfu ÍR-inga í gærkvöldi. Collin Pryor, Jacob Falko og Matej Kavas hjá heimamönnum verjast. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úrvalsdeild karla í körfubolta hófst á ný í gærkvöldi eftir jólafrí og er óhætt að segja að keppni hafi farið af stað með miklum látum. Gríðarleg spenna var í öllum þremur leikjum gærkvöldsins og úrslitin réðust á lokasekúndum í venjulegum leiktíma í tveimur leikjum og í framlengingu í þeim þriðja

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Úrvalsdeild karla í körfubolta hófst á ný í gærkvöldi eftir jólafrí og er óhætt að segja að keppni hafi farið af stað með miklum látum. Gríðarleg spenna var í öllum þremur leikjum gærkvöldsins og úrslitin réðust á lokasekúndum í venjulegum leiktíma í tveimur leikjum og í framlengingu í þeim þriðja.

Eftir töp fyrir toppliði Stjörnunnar og Tindastóli í öðru sæti tókst Njarðvík að vinna kærkominn sigur á Þór frá Þorlákshöfn í miklum spennuleik. Urðu lokatölur í Njarðvík 106:104.

Með sigrinum er Njarðvík ein í þriðja sæti með 14 stig, tveimur stigum á eftir Tindastóli og sex á eftir Stjörnunni, en þau eiga bæði leik til góða.

Njarðvíkingar virtust ætla að sigla þægilegum sigri í höfn, því staðan þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta var 88:76. Þór neitaði að gefast upp og komst yfir tæpum 90 sekúndum fyrir leikslok, 102:101. Njarðvíkingar reyndust hins vegar sterkari í blálokin.

Eftir gott gengi þar á undan hefur Þór tapað fimm leikjum af síðustu sjö. Njarðvík er með þrjá sigra og þrjú töp í síðustu sex leikjum.

Evans Ganapamo skoraði 31 stig fyrir Njarðvík og Veigar Páll Alexandersson gerði 28 stig og tók sjö fráköst að auki.

Nikolas Tomsick skoraði 32 stig fyrir gestina og Mustapha Heron og Jordan Semple gerðu 23 stig hvor.

ÍR sterkari í framlengingu

ÍR hafði betur gegn Grindavík á heimavelli, 98:90. Réðust úrslitin í framlengingu, því staðan eftir venjulegan leiktíma var 82:82. ÍR-ingar eru nú með tíu stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Grindavík er í fimmta sæti og í sama pakka og Þór, með tólf stig.

ÍR var með fimm stiga forskot, 82:77, þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Daniel Mortensen minnkaði muninn í 82:80 með þriggja stiga skoti sjö sekúndum fyrir leikslok og Valur Orri Valsson jafnaði með tveimur stigum af vítalínunni þegar aðeins ein sekúnda var eftir.

Heimamenn voru hins vegar mun sterkari í framlengingunni og sigldu átta stiga sigri í höfn. Gott gengi ÍR eftir að Borche Ilievski tók við liðinu hélt áfram. Hann hefur stýrt ÍR í fimm leikjum og eru sigrarnir fjórir. ÍR tapaði sex fyrstu leikjum sínum á tímabilinu og hefur gert mjög vel í að snúa genginu við.

Gengi Grindavíkur hefur ekki verið gott á sama tíma. Í síðustu sex leikjum eru töpin fjögur og sigrarnir aðeins tveir. Í síðustu níu leikjum eru sigrarnir aðeins þrír og er ljóst að Grindavik verður ekki með í baráttu um efstu sæti deildarinnar.

Matej Kavas skoraði 26 stig fyrir ÍR og tók átta fráköst. Jacob Falko gerði 19 stig, tók níu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Daniel Mortensen og Devon Tomas skoruðu 21 stig hvor fyrir Grindavík.

Langþráður sigur Álftaness

Þá vann Álftanes langþráðan sigur er liðið sótti Keflavík heim og sigraði með tveimur stigum, 89:87. Sigurinn var sá fyrsti hjá Álftanesi frá því 14. nóvember en liðið tapaði fjórum síðustu leikjum sínum á nýliðnu ári. Keflavík hefur unnið og tapað til skiptis í síðustu sex leikjum og vantar stöðugleika í Suðurnesjaliðið.

Keflavík er í sama pakka og Grindavík og Þór með tólf stig. Álftanes er með tíu stig, eins og ÍR-ingar, og í baráttu um sæti í úrslitakeppninni og rétt fyrir ofan fallsæti á sama tíma.

Haukur Helgi Pálsson skoraði 22 stig fyrir Álftanes og David Okeke bætti við 20 stigum og níu fráköstum. Igor Maric skoraði 20 fyrir Keflavík og Jaka Brodnik gerði 15 stig.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson