Sameina stofnanir, endurreisa stofnanir, herða aðgengi að landamærum, hætta við áform um borgarlínu, stafvæða umsóknar- og afgreiðslukerfi, einfalda regluverk í kringum húsbyggingar, hækka skatt á ferðaþjónustuna, hætta að styrkja Ríkisútvarpið,…

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Sameina stofnanir, endurreisa stofnanir, herða aðgengi að landamærum, hætta við áform um borgarlínu, stafvæða umsóknar- og afgreiðslukerfi, einfalda regluverk í kringum húsbyggingar, hækka skatt á ferðaþjónustuna, hætta að styrkja Ríkisútvarpið, hætta að styrkja aðra fjölmiðla en Ríkistútvarpið, fækka upplýsingafulltrúum ríkisstofnana, skera niður listamannalaun, styrkja skólakerfið og beita gagnreyndum aðferðum við lestrarkennslu barna.

Þetta eru meðal þeirra hugmynda sem landsmenn leggja nýrri ríkisstjórn til við sparnað í ríkisrekstrinum en ríkisstjórnin boðaði í gær til samráðs við þjóðina í þeim málum.

Tillögurnar ásamt rökstuðningi með þeim eru misítarlegar og sömuleiðis misróttækar. Sumir hvetja ráðamenn þjóðarinnar að líta í eigin barm, m.a. með því að endurskoða lög um þingfararkaup, afnema biðlaunarétt þingmanna og ráðherra, fækka starfsfólki ráðuneyta, fækka aðstoðarmönnum ráðherra og leggja niður svokallaða ráðherrabíla. Þá vildu aðrir draga úr alþjóðastarfi Íslands, m.a. með því að fækka sendiráðum, ganga úr Atlantshafsbandalaginu og draga úr eða taka alveg fyrir stuðning við Úkraínu, svo fátt eitt sé nefnt.

Eins og fyrr segir eru landsmenn hlynntir sameiningum stofnana, í því samhengi er m.a. nefnd sameining Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu, og sameining Tryggingastofnunar ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands. Þá er einnig lagt til að sameina háskóla.

Samráðinu lýkur 23. janúar og mun í kjölfarið starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins fara yfir tillögurnar. Ljóst er að hann mun hafa verk að vinna en þegar Morgunblaðið fór í prentun á ellefta tímanum í gær höfðu á áttunda hundrað umsagna borist í Samráðsgáttina.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra varð ekki við viðtalsbeiðni Morgunblaðsins í gær um samráðið. Í dag munu ríkisstjórnarflokkarnir halda vinnufund á Þingvöllum. » 14

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir