Kristín Berta opnaði nuddstofuna Birtu Heilsu í júní í fyrra.
Kristín Berta opnaði nuddstofuna Birtu Heilsu í júní í fyrra. — Ljósmynd/Leifur Wilberg Orrason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líf hennar tók snarpa U-beygju, alls ekki áfallalausa, fyrir örfáum árum þegar hún elti gamlan draum sinn og skráði sig í nám á heilsunuddbraut Heilbrigðisskólans, sem er innan veggja Fjölbrautaskólans í Ármúla, eftir ríflega 20 ára starf í banka

Líf hennar tók snarpa U-beygju, alls ekki áfallalausa, fyrir örfáum árum þegar hún elti gamlan draum sinn og skráði sig í nám á heilsunuddbraut Heilbrigðisskólans, sem er innan veggja Fjölbrautaskólans í Ármúla, eftir ríflega 20 ára starf í banka. Námstíminn gekk alls ekki snurðulaust fyrir sig, en þrátt fyrir að námið gengi vel hafði hún jafnframt um annað og alvarlegra að hugsa. Að loknu fyrsta ári í skólanum greindist hún með brjóstakrabbamein, sem hefði auðveldlega getað sett allt líf hennar úr skorðum, en hún var staðráðin í að leyfa því ekki að gerast, heldur barðist hún eins og hetja við þennan skelfilega vágest og útskrifaðist sem heilsunuddari fimmtug að aldri.

Kristín Berta er gift tveggja barna móðir og segir að þau sem standi henni nærri fullyrði að hún hafi aldrei verið eins lífsglöð og kröftug eftir að hún fann sína hillu í lífinu og fór að starfa við að hjálpa öðrum í gegnum nuddið.

„Ég sá þetta auglýst“

Kristín Berta er brottfluttur Patreksfirðingur. Hún flutti úr sveitinni í höfuðborgina aðeins 16 ára gömul til að hefja framhaldsskólanám. Hún útskrifaðist af málabraut, enda með brennandi áhuga á tungumálum, frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og hélt fljótlega eftir útskrift út til Frakklands, þar sem hún dvaldi í nokkra mánuði, drakk í sig menningu og starfaði sem au pair.

„Ég hef alltaf verið mikil málamanneskja og átt auðvelt með að læra tungumál. Ég skráði mig í nám í frönskum fræðum við mála- og menningardeild Háskóla Íslands, stuttu eftir heimkomu, en fann fljótt að það átti ekki við mig. Ég kláraði eitt ár og fór út á vinnumarkaðinn.“

Kristín Berta vann alls konar störf áður en hún gerðist bankastarfsmaður árið 2001. Hún segir ráðninguna hafa komið sér skemmtilega á óvart.

Bankastarfsmaður, hvernig kom það til?

„Það var aldrei stefnan, það bara gerðist. Á þessum tíma starfaði ég hjá Gáska sjúkraþjálfun þar sem ég sinnti hinum ýmsu verkefnum. Mér var á endanum sagt upp störfum vegna fyrirhugaðs niðurskurðar og fór í framhaldi að sækja um önnur störf. Ég sá þetta auglýst og sótti um. Mér til mikillar undrunar var ég ráðin inn í Búnaðarbankann, sem þá var og hét, sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra. Ég vissi ekki út í hvað ég var að fara. Þetta var bara skrifað í skýin,“ segir Kristín Berta, sem starfaði í Búnaðarbankanum í tvö ár áður en hún fylgdi yfirmanni sínum yfir í Landsbankann þar sem hún starfaði þar til í fyrra.

„Ég starfaði í banka í 20 ár, lungann úr starfsævi minni. Ég var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra þar til ég færði mig yfir í mannauðsdeildina árið 2014. Ég sá ásamt frábæru teymi um fræðslumál, daglegan rekstur og fleira skemmtilegt. Starfið mitt fólst aðallega í því að sinna samstarfsfólki mínu. Ég hef engan áhuga á bönkum eða viðskiptamálum, ég hef mikinn áhuga á fólki, vellíðan fólks á vinnustöðum, og í því fólst starfið mitt í bankanum.“

Fékk slæmt brjósklos

Ákveðinn vendipunktur varð hjá Kristínu Bertu árið 2012 þegar hún fékk brjósklos.

„Ég lenti í helvítis veseni með heilsuna þegar ég fékk brjósklos. Ég upplifði erfið ár í kjölfarið en byrjaði að sjá ljósið við enda ganganna þegar ég kynntist Einari Carli Axelssyni, eiganda og stofnanda heilsuræktarstöðvarinnar Primal Iceland, árið 2015. Hann hjálpaði mér gífurlega, kenndi mér svo ótrúlega margt um sjálfa mig og hefur verið mjög stór áhrifavaldur í lífi mínu alla daga síðan. Ég á honum ansi margt að þakka,“ segir hún.

Kristín Berta gekkst undir aðgerð vegna brjóskloss í ársbyrjun 2016 og byrjaði að æfa hjá Einari Carli rétt rúmum mánuði síðar.

„Ég fann hvernig líkami minn breyttist með því sem hann kenndi mér. Einar Carl á stóran þátt í því hver ég er í dag, enda er hann meðal þeirra sem hvöttu mig til að elta drauminn og skrá mig í nuddnámið, sem ég gerði, að vísu nokkrum árum seinna.

Ég er mjög heppin að eiga sterkt bakland, það er alls ekki sjálfgefið. Ég er afar þakklát fyrir allan þann stuðning sem mér hefur verið sýndur í gegnum árin, hann er algjörlega ómetanlegur, og verð ég að minnast á eiginmann minn, Hafstein Orra Ingvason. Hann er kletturinn minn og sá sem gerði mér kleift að elta drauminn.“

Stóð á tímamótum

Kristín Berta skráði sig í nuddnám árið 2020.

„Ég skráði mig í bóklega hlutann, samhliða vinnu, og byrjaði haustið 2020. Ég man hvernig mér leið, ég var svo spennt. Ég flaug í gegnum fyrsta árið og var yfir mig spennt að hefja annað námsárið, en rétt áður en önnin hófst greindist ég með brjóstakrabbamein sem setti babb í bátinn,“ segir hún.

Kristín Berta var þrátt fyrir greininguna staðráðin í að halda áfram í náminu. Hún fór í tímabundið leyfi frá störfum, nýtti veikindarétt sinn og sinnti náminu samhliða krabbameinsmeðferð.

„Ég var allan veturinn í meðferðarferli. Ég greindist um miðjan september, fór í tvær aðgerðir, báðar 4. október, og byrjaði í lyfjameðferð í nóvember. Í gegnum allt þetta sinnti ég náminu af mikilli einurð og metnaði og kláraði fimm fög og tvö námskeið og var með yfir níu í meðaleinkunn. Já, ég segi bara geri aðrir betur,“ segir hún og hlær.

Kristín Berta skráði sig í verklega hluta námsins haustið 2022 og útskrifaðist í desember í fyrra.

„Ég setti mér það markmið að útskrifast 50 ára að aldri, mér fannst það eitthvað svo ótrúlega töff. Ég byrjaði í náminu 47 ára gömul og var alltaf með það á bak við eyrað að útskrifast 50 ára, sem ég gerði,“ segir Kristín Berta, sem var verðlaunuð fyrir frábæran námsárangur. „Já, við getum svo miklu meira en við höldum, ég veit það, ég veit það vel.“

Varstu aldrei hrædd við að ofkeyra þig?

„Nei, námið var næringin mín í gegnum meðferðarferlið. Þetta hjálpaði mér, gaf mér eitthvað til að einblína á og hugsa um.“

„Ég er búin að umturna lífi mínu ansi hressilega“

Kristín Berta sagði upp starfi sínu í Landsbankanum og opnaði nuddstofu í Kópavogi í júní á síðasta ári og hefur byggt upp stóran og tryggan kúnnahóp.

Hvað var það við nuddið sem kallaði svona á þig?

„Það er eitthvað við það að geta hjálpað fólki, snertingin er svo mikið afl. Það að geta nýtt snertingu til góðs var eitt af því sem dró mig að starfi heilsunuddara þar sem ég hef alla daga tækifæri til að bæði snerta fólk og snerta við því. Ekki bara með höndunum, heldur líka með nærveru minni og orðum. Í mínum huga er svo mikilvægt að ég nýti snertinguna mína alltaf til góðs, í hvaða formi sem hún er, því hún getur haft svo mikil áhrif á líf fólks. Snertingin, rétt eins og orðin okkar, hefur mikinn heilunarmátt en hún getur líka meitt, ef ekki að er gætt.

Nuddið hefur líka opnað nýja leið fyrir mig til að elska fólkið mitt. Með fallegri snertingu, tímanum mínum og í rými þar sem ekkert er sem truflar samverustundina. Að fá að hlúa að börnunum mínum þegar mikið gengur á í tilveru þeirra, að nudda stífa kálfa á eiginmanninum eftir golfmót og að eiga stundir með fjölskyldu og vinum sem koma á stofuna til mín er svo óendanlega dýrmætt. Mér er svo minnisstætt þegar pabbi minn kom til mín í fyrsta sinn í nudd, hafði þá aldrei farið í nudd, kominn fast að áttræðu. Þegar ég var að nudda á honum handleggina kom sterkt upp sú hugsun um að það væru áratugir síðan ég hefði síðast haldið í höndina á pabba. Á nuddbekknum er nefnilega ekkert eðlilegra en að fimmtug kona leiði pabba sinn,“ segir hún og hlær.

Hvernig hefur þetta breytt þér?

„Ég sit betur í mér í dag en á yngri árum. Þetta er hápunktur ævi minnar. Ég er hamingjusamari í dag en ég hef nokkru sinni verið. Mér finnst ég fylla svo vel út í mig. Engar efasemdir, ég er full sjálfstrausts.

Dóttir mín sagði við mig um daginn: „Það er svo gaman hvað þú ert alltaf svo glöð þegar þú kemur heim úr vinnunni, þú varst ekki svona þegar þú komst heim úr bankanum“. Þetta segir allt um það hvernig mér líður með þessa ákvörðun. Ég er í skýjunum.“

Fimm hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

Ég er með sjö hluti:

 Virði þitt liggur svo miklu víðar en bara í því að vera dugleg.

 Það er ekki raunhæft að vera alltaf besta útgáfan af sjálfri þér, það er alveg nóg að gera sitt besta, hvað sem það þýðir á hverjum degi.

 Talaðu jafn fallega við þig og vinkonur þínar og þau sem þú elskar.

 Stundum er nauðsynlegt að segja nei við aðra til að geta sagt já við þig, settu mörk.

 Taktu engu persónulega, það sem fólk segir hefur yfirleitt meira með það að gera en þig.

 Komdu alltaf vel fram við fólk og af nærgætni. Þú veist aldrei hvað fólk er að ganga í gegnum.

 Þér kemur ekkert við hvaða álit aðrir hafa á þér, þú veist hver þú ert.

Höf.: Erna Ýr Guðjónsdóttir |