Íslenskukennsla í skólum hefur verið nokkuð til umræðu en kennsla í íslensku fer fram víðar. Hingað til hafa landsmenn skilið orðið loforð á ákveðinn hátt, en það reyndist misskilningur.
Nú hefur formaður Flokks fólksins upplýst um að hin „svokölluðu kosningaloforð eru viljayfirlýsingar“. Og hún virðist einnig telja að nái flokkur ekki að minnsta kosti 51% atkvæða sé hann óbundinn af þessum „svokölluðu“ loforðum.
Þar með er það svo að orðið loforð þýðir ekki loforð, að minnsta kosti ekki ef hægt er að hengja kosninga- framan á orðið. Þetta þýðir auðvitað, sem er framboðum framtíðarinnar mjög til þæginda, að svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað.
Flokkur fólksins lofaði hátíðlega að skattlaus lágmarksframfærsla upp á 450 þúsund á mánuði væri ófrávíkjanleg enda hefði flokkurinn verið stofnaður um þetta loforð. En nú er komið í ljós að þetta var bara kosningaloforð og þar með eru svikin engin svik.
Hjörtur J. Guðmundsson upplýsti á stjornmalin.is að Flokkur fólksins hefði svarað með nei spurður af Heimssýn fyrir kosningar hvort hann myndi styðja að sótt yrði á ný um aðild að ESB. Nú er líka komið í ljós að þetta var bara kosningaloforð, þar sem nei þýðir ekki nei, og þess vegna hefur Flokkur fólksins ekkert svikið af loforðum sínum.
Verst að enginn kjósandi vissi um orðskýringarnar fyrir fram.