Karlmaður vopnaður skotvopni myrti 12 á veitingahúsi í suðurhluta Svartfjallalands á miðvikudag. Í hópi hinna látnu eru tvö börn. Árásarmaðurinn féll síðar fyrir eigin hendi.
Árásin hófst um klukkan 17.30 að staðartíma og segir lögreglan manninn, sem var 45 ára gamall, hafa rifist við fjölskyldumeðlimi sína skömmu áður. Veitti hann ættingjum sínum banvæna áverka með skotvopni í kjölfarið, staðarhaldara og börnum hans tveimur. Þau voru 10 og 13 ára. Fjórir til viðbótar voru fluttir særðir á sjúkrahús.
Árásarmaðurinn er sagður hafa verið mjög ölvaður þegar hann greip til vopnsins.
Forsætisráðherra Svartfjallalands segir árásina varpa dimmum skugga á landið allt.