Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Hlutfall erlendra ríkisborgara af þeim sem afplánuðu dóm á Íslandi árið 2024 var 33%, sem er það mesta frá upphafi. Aldrei í sögunni hafa jafn margir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og í fyrra, 298 manns, og þar af voru 70% með erlent ríkisfang.
Þetta kemur fram í svörum Fangelsismálastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Eins og fyrr segir voru útlendingar 33% þeirra sem afplánuðu dóm innan og utan fangelsa á Íslandi en ef aðeins er litið á þá sem afplána dóm í fangelsi er hlutfallið 35%. Alls voru að meðaltali 88 manns á dag sem afplánuðu dóm í fangelsum á Íslandi á síðasta ári.
Þeim sem afplánuðu dóm í fangelsum fækkaði frá fyrra ári þar sem ekki var hægt að nýta 22 fangelsispláss á Litla-Hrauni á síðasta ári vegna viðhalds.
Árin 2019 og 2020 var hlutfall erlendra ríkisborgara sem afplánuðu dóm hér á landi 19%, árið 2021 var hlutfallið 17%, árið 2022 var það 21% og árið 2023 var það 28%.
Á boðunarlista til að afplána dóm eru nú 340 manns og á boðunarlista í samfélagsþjónustu eru 180.
Þar að auki eru yfir 180 á boðunarlista sem eru farnir úr landi og nokkrir dómar eru óunnir þar sem á eftir að boða í afplánun.
Birgir Jónasson settur fangelsismálastjóri varaði við því í samtali við mbl.is í desember að það gæti þurft að hægja á boðun fanga í afplánun vegna 80 milljóna króna hallareksturs Fangelsismálastofnunar.
Metfjöldi í gæsluvarðhald
Eins og sjá má á eftirfarandi tölum hefur þeim sem úrskurðaðir eru í gæsluvarðhald fjölgað umtalsvert síðustu ár. Í svörum Fangelsismálastofnunar segir að aldrei áður hafi jafn margir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og á síðasta ári. Árið 2024 voru 90 Íslendingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald, sem er talsverð fjölgun frá árinu 2023 þegar 59 Íslendingar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
208 útlendingar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald árið 2024 en árið 2023 voru 182 útlendingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald.
Hlutfall erlendra ríkisborgara af þeim sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald lækkar þó á milli ára úr 75% í 70% sökum þess hversu mikið Íslendingum fjölgaði.
Að meðaltali voru 54 á dag í gæsluvarðhaldi árið 2024, en 51 árið áður. Árið 2020 voru þeir 27.