Svava Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 28. september 1937. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 10. desember 2024.

Foreldrar Svövu voru Guðrún Brandsdóttir, f. 12. júlí 1908 d. 31. desember 1991, og Ólafur Stefánsson, f. 3. ágúst 1915, d. 17. maí 1970.

Systir Svövu var Birna S. Ólafsdóttir, f. 7. febrúar 1939, d. 22. september 2021, og hálfsystir sammæðra var Kristín Björk Einarsdóttir f. 28. júní 1945, d. 25. október 2020.

Svava giftist 12. júlí 1957 Þorkeli E. Kristinssyni, f. 11. nóvember 1933, d. 25. október 2016. Foreldrar Þorkels voru Sigurlína Jónína Margrét Scheving, f. 7. apríl 1911, d. 18. júní 1976, og Kristinn Maríus Þorkelsson, f. 17. ágúst 1904, d. 10. mars 1980.

Börn Svövu og Þorkels eru:

1) Guðrún, f. 1957. Var gift Hákoni Hákonarsyni, f. 1955, og eru þeirra börn a) Svava Björk f. 1977, gift Haraldi Johannessen, f. 1968, og eiga þau Önnu, f. 2010, og Lovísu, f. 2013, b) Íris Dögg, f. 1981, í sambúð með Sveini Kristjáni Ingimarssyni, f. 1968, og eiga þau saman Brynju, f. 2007, og Ívar Orra, f. 2013. Var í sambúð með Gunnari Þór Björnssyni, f. 1963, dóttir þeirra er Rakel, f. 1992.

2) Kristinn Maríus Þorkelsson, f. 1958, d. 1994.

3) Jóhann, f. 1964, kvæntur Rannveigu Öldu Jónsdóttur, f. 1968, börn þeirra eru a) Harpa Ýr, f. 1995, er í sambúð með Jóni Inga Jónssyni, f. 1989, og eiga þau Viktor Breka, f. 2024, b) Kristinn Þorri, f. 2000, c) Jón Jökull, f. 2004, d) Þorkell Kári, f. 2006. Sonur Rannveigar Öldu er Ólafur Sveinn Ragnarsson, f. 1987.

Svava ólst upp í Reykjavík og vann ýmis störf fram eftir aldri, lengst af við félagsþjónustu í Furugerði 1.

Útför Svövu fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 3. janúar 2025, klukkan 13:00.

Elsku mamma, ég trúi varla að þú sért farin.

Það eru svo margar góðar minningar sem hjálpa mér í gegnum þessa erfiðu daga.

Ó, mamma mín hve sárt ég sakna
þín,

sál mín fyllist angurværum trega.

Öll þú bættir bernskuárin mín,

blessuð sé þín minning ævinlega.

Oft ég lá við mjúka móðurkinn,

þá mildar hendur struku tár af hvarmi.

Oft sofnaði ég sætt við vanga þinn,

þá svaf ég vært á hlýjum móður armi.

Ó, móðir kær, ég man þig enn svo
vel,

mikill var þinn hlýi trúarkraftur.

Þig blessun Guðs í bæninni ég fel,

á bak við lífið kem ég til þín aftur.

(Jón Gunnlaugsson)

Elsku mamma, ég á eftir að sakna þín alla tíð.

Þinn sonur

Jóhann.

Það eru svo mörg orð sem lýsa henni ömmu minni. Fyrst má nefna hvað hún var umhyggjusöm, traust og góð. Alltaf eins og klettur sem vildi allt fyrir mig gera. Mér finnst hún alltaf eiga allan heiminn inni hjá mér fyrir allt sem hún hefur gert. Það var aldrei mikið til en hún náði að gera heimilið að ævintýralegum stað. Það var alltaf svo gott að vera og mikla hlýju að finna á Jörfabakkanum og uppi í sumarbústað. Svo margar góðar minningar, það breytti því ekki hvort við vorum að gera blómaskreyttar drullukökur í sumarbústaðnum, gera kókoskúlur á Jörfabakkanum eða að taka síðdegiskaffið á svölunum, allt eru þetta ævintýralegar minningar.

Amma kenndi mér svo margt og mun það ganga til næstu kynslóða. Amma var mikill húmoristi og ásamt því að vera amma mín var hún svo góð vinkona og það var fátt sem var ekki hægt að segja henni frá.

Þegar maður missir manneskju sem spilaði svona stórt hlutverk i lífi manns setur það lífið í samhengi, hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Það vill nefnilega gleymast í hraðanum og daglega amstrinu. Ég skal reyna að hægja á og muna, amma. Ég syrgi þig svo mikið og finnst það svo erfið tilhugsun að fá aldrei aftur að sitja með þér, spjalla og hlæja. En ég elskaði þig það mikið að ég næ líka að samgleðjast þér að vera komin til fólksins sem þú saknaðir svo sárt.

Elska þig alltaf amma mín.

Þín

Íris Dögg.

Það er skrítið að hafa þig ekki lengur hjá okkur. Það er tómarúm.

En eftir sitja minningar um góða konu.

Þú varst handlagin og myndarleg húsmóðir, elskaðir veislur, bakstur og brauðtertur. Við Jói og krakkarnir eigum svo góðar minningar frá sumó þar sem þú varst búin að útbúa smörrebrod og baka eplakökuna góðu. Svo gott að koma þangað til þín og Kela í litla bústaðinn ykkar með krakkana og taka smá spjall. Þetta voru góðir tímar.

Þú varst dásamleg amma, elskaðir að fá fréttir af okkur og börnunum og varst svo stolt af þeim öllum. Alltaf vildir þú hjálpa okkur og það var aldrei neitt mál hjá þér. Þegar Kristinn Þorri okkar fæddist steigst þú svo sannarlega inn í og samband ykkar og afa Kela var einstakt við hann. Er ég þér ævinlega þakklát fyrir það.

Þú sýndir það í veikindunum þinum hversu dugleg og æðrulaus þú varst, þú greindist með lungnasjúkdóm fyrir tæpum tuttugu árum sem fór síðan stigversnandi með árunum.

Það var söknuður í augum þínum þegar þú sagðir mér að allar vinkonur þínar væru farnar og þú skildir ekki hversu lengi þú lifðir. En nú ertu búin að fá hvíldina þína elsku Svava mín og þér líður vel og það er huggun fyrir okkur í fjölskyldunni.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífs þíns nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði nú sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég kveð þig með söknuði og þakklæti í huga.

Þín

Rannveig.

Elsku amma mín.

Það er svo skrítið að þú sért farin og að geta ekki hringt í þig og heyrt röddina þína.

Þú varst frábær og góð amma, þú varst svo stolt af mér. Ég á svo margar góðar minningar með þér og afa á Jörfabakkanum og uppí sumarbústað, sem ég mun aldrei gleyma. Þú varst mikil veislukona og hélst alltaf upp á afmælið þitt.

Við áttum sama afmælisdag og þú spurðir mig alltaf hvaða köku ég vildi á afmælinu okkar, og að sjálfsögðu valdi ég jarðarberjakökuna þína, hún var svo góð. Ég mun aldrei gleyma þér.

Ég elska þig amma,

þú ert mér svo kær.

Til tunglsins og til baka,

ást mín til þín nær.

Sögur þú segir,

og sannleikann í senn.

Þú gáfuð og góð ert,

en það vita flestir menn.

Ég elska þig amma,

þú færir mér svo margt.

Það er ætíð hægt að sanna,

að um þig sé ljós bjart.

(Höfundur óþekktur)

Ég sakna þín.

Þín

Harpa.

Elsku amma.

Takk fyrir að leyfa mér að gista hjá þér og afa þegar ég var lítill.

Ég á góðar minningar með þér og afa í sumarbústaðnum en einnig á Jörfabakkanum.

Ég fór oft í körfubolta með afa og þú fylgdist með af svölunum.

Þú eldaðir svo góðar kjötbollur en það var uppáhaldið mitt.

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum lifum í trú

á að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Takk fyrir allt, þinn

Kristinn Þorri.