Ófriðarins í heiminum var víða getið um nýliðin áramót og full ástæða til. Innrás Rússa í Úkraínu var oft nefnd og sömuleiðis átök Ísraela við Hamas, Hesbollah og fleiri hryðjuverkahópa og -ríki. Stríðsins í Súdan var hins vegar sjaldan getið þó að ekki væri minni ástæða til. Þar hefur um fjórðungur þjóðarinnar, um tólf milljónir manna, flosnað upp frá heimilum sínum vegna átaka sem hafa kostað tugi þúsunda lífið á tæpum tveimur árum.
Við þetta bætist að milljónir líða matarskort og mikill fjöldi er einnig talinn í stórhættu á að lenda í alvarlegri hungursneyð, en stjórnvöld í landinu neita þessu og fyrtust við á dögunum þegar Sameinuðu þjóðirnar ásamt öðrum bentu á vandann. Stjórnvöld eru raunar talin, ásamt hraðsveitunum svokölluðu sem þau berjast við, nýta sér neyð almennings sem vopn í þessum skelfilegu innanlandsátökum. Má segja að með því líkist þau hryðjuverkasamtökunum Hamas sem um árabil hafa notað almenning sem skjöld og ýtt undir mannfallið á Gasa í áróðursskyni gagnvart almenningi og ráðamönnum á Vesturlöndum, og orðið furðuvel ágengt.
Miskunnarleysi stríðandi fylkinga í Súdan er með miklum ólíkindum og ekki er að sjá að von sé um lyktir átakanna í þessu stríðshrjáða landi í bráð. Það þýðir þó ekki að Vesturlönd eigi að loka augunum fyrir átökunum og gleyma þeim milljónum sem þjást í Súdan.