Ásdís Jónsdóttir (Dísa) fæddist á Mýri í Bárðardal 22. október 1936. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 7. desember 2024.

Ásdís var dóttir hjónanna Jóns Jónssonar frá Mýri í Bárðardal og Friðriku Kristjánsdóttur frá Fremstafelli í Köldukinn. Jón og Friðrika bjuggu fyrstu búskaparárin á Mýri en fluttust að Fremstafelli 1940 og hófu þar búskap.

Systkini Ásdísar eru Aðalbjörg, f. 3. nóvember 1939, d. 31. janúar 2010, Rósa, f. 12. júlí 1943, Rannveig, f. 20. júní 1949, og Þorgeir, f. 26. júlí 1955.

Ásdís flutti til Reykjavíkur og giftist 1961 Stefáni Hannessyni, f. 22.10. 1923, d. 7.11. 2006. Leiðir þeirra skildi. Börn Ásdísar eru: 1) Friðrika Hildigunnur Friðjónsdóttir, f. 13.6. 1958, maki Guðlaugur Sigmundsson. Synir þeirra eru Árni og Guðni Hrafn. 2) Ólöf Stefánsdóttir, f. 22.9. 1961, maki Axel Sæmann Guðbjörnsson. Dóttir Ólafar er María Kristinsdóttir. Synir Axels eru Óskar Sæmann og Guðbjörn. 3) Jón Kristján Stefánsson, f. 25.12. 1962, maki Ása Björk Matthíasdóttir. Börn þeirra eru Bryndís Dagmar, Ásdís Elín og Stefán Matthías. Dóttir Jóns er Sólveig Ásta Sigurðardóttir. Barnabarnabörnin eru 13.

Ásdís tók þátt í almennum sveitastörfum heima í Fremstafelli eins og þá var títt, fór í farskóla í heimasveit og tók fullnaðarpróf frá Laugaskóla. Hún vann ýmis störf á Akureyri, á ljósmyndastofu og á sjúkrahúsinu og þar vaknaði áhugi hennar á að starfa við hjúkrun. En þrátt fyrir að löngun hafi verið að læra hjúkrun var það ekki gerlegt á þeim tíma fyrir fátæka sveitastúlku. Hún fór seinna í Sjúkraliðaskólann og var í fyrsta hópnum sem skólinn útskrifaði 1976. Meðan börnin voru lítil var hún heimavinnandi húsmóðir. Á þeim tíma tók hún að sér saumaskap fyrir vini og kunningja, en hún saumaði og prjónaði á sig og fjölskylduna alla tíð. Þegar börnin byrjuðu í skóla tók hún að sér að reka kaffistofu kennara í Melaskóla. Eftir að hún kláraði sjúkraliðanámið vann hún á sængurkvennadeild Landspítala. Síðar fór hún að vinna á Sjúkrastöðinni Vogi. Þar naut hún sín vel enda sjálf AA-manneskja og var stolt af því. Hún lauk starfsævinni við að annast aldraða á Dalbraut.

Útför Ásdísar fer fram frá Neskirkju í dag, 3. janúar 2025, klukkan 13.

Haustfölva slær á hlíðarvangann rjóða,

hjartsláttur dvín og liðin
sumarganga.

Voðin er unnin, vafin upp í stranga.

Vefarinn hefur lokið sinni skyldu.

Næst mun sér annar nema þarna spildu.

(Jón Jónsson frá Mýri)

Þau voru skrýtin þessi síðustu jól, hún mamma okkar, tengdamamma og amma varð bráðkvödd á jólaföstu og allt breyttist. Það kom okkur á óvart, þó að síðustu ár hafi oft verið henni erfið. Hún flutti á Hrafnistu í haust eftir þvæling milli stofnana síðastliðið sumar. Þar var hún sátt, glöð og þakklát og fann öryggi. Henni fannst gott að leggja sig, dorma, hlusta á útvarpið, ráða krossgátur, dunda við prjónaskap eða lesa Meistarann og Margarítu sem var hennar aðal- og uppáhaldsbók. Minnkandi kraftur, versnandi heyrn og sviminn endalausi hafði mikil áhrif á lífsgæði hennar, áhuga og getu til að gera hluti sem hún gerði áður og hafði svo gaman af. Hún saknaði mikið að komast ekki lengur norður í sælureitinn okkar allra í Fremstafelli, geta ekki farið á AA-fundina sína og komast ekki í sund. Hún átti erfitt með að vera í margmenni vegna versnandi heyrnar. Hún fann líka fyrir að vera orðin svolítið gleymin og sagði oft „ég er nú orðin svo gleymin, heiti ég ekki örugglega Sigríður“ og brosti kankvís, stutt í kaldhæðnina.

Æðruleysisbænin var hennar mantra og fylgdi henni í yfir 40 ár, því auðvitað skiptust á skin og skúrir í hennar lífi eins og annarra. Hún ræktaði alla tíð af ástúð ættingja og vini og naut þess að hitta sitt fólk og bjóða upp á veitingar. Þar voru auðvitað kleinurnar á toppnum, gerðar eftir uppskrift ömmu Friðriku. Hún elskaði fjölskylduna sína, svo ánægð með uppáhaldstengdasynina, sem hún sagðist næstum hafa valið sjálf. Hún fylgdist vel með sínu fólki, óskaði að allir hefðu það gott og væru hamingjusamir.

Hún var alltaf dugleg að hreyfa sig og henni fannst dásamlegt að labba úti, ein eða með okkur – alltaf berfætt í skónum, gekk aldrei í sokkum. Hún naut þess að ferðast og nú síðast að fara í bíltúr, sjá landið og fjöllin, finna lykt af lyngi og skóg, komast í berjamó, dást að fallegum litbrigðum náttúrunnar; á vorin þegar allt var að vakna, á sumrin þegar blóm og tré voru í skrúða, haustlitirnir dásamlegu og svo birtan og himinninn á veturna, allt svo fallegt, hver árstíð hafði sína töfra. Og henni fannst gaman að skreppa á kaffihús. Hún var endalaust þakklát fyrir allt sem við gerðum með henni og fyrir hana.

Mamma var sannfærð um að hún færi í sumarlandið góða þegar þessari jarðvist lyki og myndi þar hitta sína góðu ættingja og vini sem farnir eru. Við erum sannfærð um að þar hefur verið vel tekið á móti henni. Við röltum ekki fleiri hringi, fleiri bíltúra, ekki fleiri kaffihúsaheimsóknir eða búðarferðir með henni. Okkur kvaddi hún oft með orðunum „takk for kommen – eins og hún Áslaug mín sagði“ og það á sannarlega við þegar við þökkum elskaðri ættmóður fyrir allar góðu samverustundirnar, dekrið og endalausu umhyggjuna sem hún sýndi okkur alla tíð.

Hvíl í friði.

Hildigunnur, Guðlaugur, Ólöf, Axel, Guðni Hrafn
og Patricia.

Amma sótti mig einu sinni á ári í kringum afmælið mitt og við fórum á kaffihús. Ég á sterka minningu af því að hafa heyrt í dyrabjöllunni, opnað dyrnar með fiðring í maganum og fengið ofbirtu í augun þegar ég sá ömmu. Sólin skein skært fyrir aftan hana þar sem hún stóð í sandölum með hringa á fingrum og tám, dökkt naglalakk, heimsborgaralegan klút og bros sem var hárfín blanda af glotti og hlýju. Hún virtist tilheyra mörgum heimum, talaði um sveitina og bústörf sem hún sinnti, störf sín sem sjúkraliði, sundiðkunina (sem ég ætla að taka upp hver einustu áramót), tónlistarlífið og hittingana sína allt í bland. Hún var mér framandi á marga vegu og hugsa ég stundum hvort hún hafi markvisst unnið að því að fara sína eigin leið bæði í stórum þáttum lífsins en líka í hversdagslegum athöfnum eins og að elska veturinn og myrkrið, tortryggja sumarið og hressileikann og ganga um berfætt mitt um hávetur. Ávallt spennandi og glæsileg.

Hún var ein af huldufólkinu sem hún söng svo oft um í Næturljóði úr Fjörðum og þrátt fyrir að við hittumst ekki oft til að byrja með talaði hún alltaf um fólkið í lífi sínu, hvort sem það voru skjólstæðingar sem hún vann með, börn, barnabörn, félagar úr sundi eða föstudagshittingum. Hún var áhrifamikill sögumaður og notaði rithöfunda og tónskáld sem hún elskaði óspart í samræðum. Vísanir í Meistarann og Margarítu og Íslandsklukkuna voru algengar en einnig átti hún til að bresta í söng í miðju samtali og söng þá ekki bara eina línu eða tvær heldur allt lagið áður en samtalið hélt áfram, enda fátt betra en söngur með þeim sem manni þykir vænt um.

Amma iðkaði hreinskilni á hátt sem ég hafði ekki vanist. Það hefur líklega verið krefjandi í samfélagi þar sem venjan er að lækka róminn þegar erfiðir hlutir eru ræddir en hún sagði að hún og aðrir á föstudagsfundum hefðu ekki heilsu til að fara í kringum hlutina, lífið þyrfti að ræða skýrt og skorinort og ekki mála það í bjartari litum en maður byggi yfir. Á sama hátt var hún óvægin í eigin garð og sjálfsgagnrýnin. Í því fólst bæði sársauki og styrkur. Í samræðum okkar fékk ég að taka þátt í hennar frásagnarhætti þar sem við lögðum á borðið allt frá hversdagslegum vandamálum til heimspeki og guðfræði, frásagna úr sveitinni, femínisma, óréttlæti.

Það er erfitt að kveðja eins litríka og áhrifamikla persónu og þá sem amma gegndi í mínu lífi. Ég mun heiðra minningu hennar og þau gildi sem hún miðlaði til mín með því að reyna að skilgreina og rækta tengsl á eins fjölbreyttan hátt og ég get. Með því að reyna að rugga við jaðrinum og heiðra þau sem samfélagið ýtir þangað. Ég mun reyna að taka veturinn og kuldann í sátt og jafnvel finna leiðir til að njóta dimmunnar. Líklega mun ég aldrei ná að synda kílómetra á dag eins og amma hélt fram að hún gerði en mun leggja mig fram um að heimsækja Fjörður, staðinn sem amma elskaði og sagðist myndi dvelja, „þar sem grasrótin mjúka, græn og hrein, grær yfir huldufólksins bein“.

Sólveig Ásta.

Nú er mikil sorg í hjarta mínu, en líka endalaust þakklæti og gleði yfir öllum samverustundum sem við amma áttum. Nú taka við allar góðu og skemmtilegu minningarnar sem ég á. Elsku amma mín, takk fyrir allt. Betri ömmu gat ég ekki beðið um. Okkar samband var einstakt.

Þegar ég var lítill pjakkur voru ófáar gistinæturnar hjá þér og þá söngstu alltaf eftirfarandi ljóð til mín og það hefur fylgt okkur alla tíð. Nú er komið að mér að syngja það til þín:

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Sofðu rótt elsku amma mín.

Þinn elskandi litli ömmukútur,

Árni, og Bríet langömmustelpa.

Feðurnir tvíburar og mæðurnar systur. Börnin geta eiginlega ekki orðið skyldari. Þess vegna þarf ég ekki í bernsku að láta mér nægja þrjár systur. Þær eru fimm því Ásdís og Bogga í Fremstafelli bætast við Hvítafellssysturnar þrjár. Þeim átti eftir að fjölga, en þessar tvær voru með frá upphafi mínu. Nú eru þær allar farnar og þegar Ásdís Jónsdóttir er kvödd eigum við Hvítafellsbræður enga af gömlu systrum á lífi. En minningarnar eru sælar og myndirnar líða um þilið.

Það á að halda afmælisveislu á Mýri og það á að fjölmenna svo að það hefur verið efnað í rútu frá Akureyri. Við sem komum úr Reykjadal bætumst í hópinn á Stóruvöllum. Mér dettur ekki í hug að reyna að telja í rútunni en það er fjöldi fólks í minningunni. Og vitanlega er sungið. Þetta er Mýrarættin og þetta er rúta. Ættjarðarlögin og allt saman. En allt í einu er kastað sprengju: Einhvers staðar aftur í er unga fólkið byrjað af krafti: Hver ekur eins og ljón? – Bjössi er mættur á mjólkurbílnum. Það er ný kynslóð. Og í barnsminninu er það enginn vafi: Ásdís hefur forystuna. Og nú er gaman. En það eru jafnógleymanlegir svipir fullorðna fólksins. Svona hefur Mýrarættin aldrei hagað sér! Þeir höfðu að vísu staðið fyrir danshljómsveitum Mýrarbræður og Páll Há. En það voru gömlu dansarnir. Og almenni söngurinn var ekkert dægurlagagarg.

Minningin verður mannkynssöguleg fyrir strákinn í Hvítafelli. Hann á sér systur sem þora, geta og vilja.

Og næsta minning: Það er samkoma niðri í skóla að sumarlagi og Ásdís kemur með gest með sér upp í Hvítafell. Og allt í einu ómar stóra píanóið hans pabba af tónlist sem aldrei heyrist á bernskuheimilinu. Djass! Gesturinn heitir Ingimar Eydal og Ásdís er að ögra pabba með því að láta þennan ljúfa pilt spila nýju lögin í stofunni heima. Þetta er menningaruppreisn sem ég gleymi ekki. Fleiri myndir: Við Ásdís syngjum með öðrum í Þingeyingakórnum í Reykjavík og í Fílharmóníu. Mér þykir alltaf jafnvænt um þessa systur mína.

Þegar ég er sestur að í útlöndum og við bæði komin talsvert til ára sendir hún mér vettlinga sem hún hefur prjónað. Hún veit að hlýir ullarvettlingar eru alltaf góðir þeim sem hefur lent í ferðalögum. Þeir eru hlýir og ég ætla að eiga þá meðan ég lifi.

Þegar við drekkum saman síðustu kaffibollana í Múlabæ erum við að vísu bæði gömul og hrör, en glampinn í augum Ásdísar og hláturinn eftir allt þetta líf segja mér að minningin um Bjössa á mjólkurbílnum er sönn.

Með kveðju frá Hvítafellssystkinunum lífs og látnum til Fremstafellssystkinanna og allra annarra aðstandenda Ásdísar.

Heimir Pálsson.

Einhvern veginn átti ég aldrei von á því að hún amma Dísa myndi kveðja þennan heim, eins órökrétt og það kann að vera, svo stór hluti lífs míns hefur hún alltaf verið.

Þegar ég loka augunum sé ég hana fyrir mér í stólnum sínum og heyri ennþá róandi smellina í prjónunum og einstöku röddina hennar, sem lifnaði við í óteljandi sögum og ævintýrum, sögum um Búkollu, Gilitrutt og um hina fjölmörgu kóngssyni, karla og kerlingar. Þá sat ég hugfangin í sófanum á móti henni eða hjúfruð upp í fangið hennar, á meðan hún lét sögurnar lifna með leikrænum tilburðum og sérstökum röddum fyrir hverja persónu.

Þær voru ófáar næturnar sem ég gisti hjá henni ömmu minni. Þær stundir voru einstakar, og nú, þegar ég hugsa til baka, átta ég mig á því að ekki í eitt einasta skipti var kveikt á sjónvarpi. Það var einfaldlega ekki þörf á því, slíkt var skemmtanagildi þess að vera hjá ömmu. Við höfðum alltaf nóg fyrir stafni. Ef við vorum ekki í sundi, að baka bollur, sinna blómunum í garðinum, útbúa mat fyrir fuglana eða steikja kleinur, þá var amma að segja mér sögur og ævintýri.

Sem barn var ég sannfærð um að amma mín gæti lagað allt. Hún gat plástrað sár, gefið ráð og lagað allar okkar flíkur. Hún prjónaði á okkur hlýjustu ullina, saumaði nýjar flíkur og lagaði það sem þörf var á. Ef, í heimsókn hjá ömmu, svo mikið sem minnst var á að buxurnar væru aðeins síðar eða að gat væri komið á peysuna var ekki annað í stöðunni en að vippa sér snarlega úr flíkinni svo amma gæti lagað hana samstundis. Á meðan hún sat við saumavélina blístraði hún sínu einstaka, blíða, hvíslandi blístri. Svo klæddi maður sig aftur og heimsóknin hélt áfram.

Öll sumur og flest skólafrí lá leið okkar fjölskyldunnar norður og mikið vildi ég að ég ætti upptöku af ömmu á leið norður í land. Á þeirri löngu leið var varla eitt einasta strá sem hún ekki gat sagt sögur af, komið með fróðleiksmola um eða rifjað upp gamla tíma sína á þeim slóðum. Þegar norður var svo komið tóku við einhverjar bestu stundir barnæsku minnar, í Fremstafelli, í sveitinni okkar, sveitinni hennar ömmu. Þar lékum við frændsystkinin lausum hala frá sólarupprás til sólarlags. Undir lok sumars fórum við með ömmu upp í hlíð að tína aðalbláber, þau ber sem sluppu óétin heim fórum við með rakleiðis inn í eldhús til að fá þau framborin sykruð með smá rjómaslettu.

Amma sat aldrei auðum höndum, hún gróðursetti, bakaði, þreif og sá um allt og alla. Hún hitaði kalda fingur í hlýjum lófum sínum þegar við komum inn, en sjálf fór hún allra ferða sinna berfætt í gull-sandölum og virtist aldrei vera kalt.

Ég mun hugsa til þín elsku amma mín í hvert sinn sem kærkomið skammdegið gengur í garð, þegar ég klæði mig í ullina þína og þegar ég segi börnunum mínum ævintýrin sem þú kenndir mér. Og ef ég verð einhvern tímann svo lánsöm að verða amma sjálf þá mun ég leika það eftir þér að bjóða öllum mínum afkomendum í fisk alla mánudaga.

Takk fyrir allt

Hvíldu í friði, elsku amma mín.

María Kristinsdóttir.

Tárin eru dýrmætar daggir,

perlur úr lind minninganna.

Minninga sem tjá kærleika og ást,

væntumþykju og þakklæti

fyrir liðna tíma.

Minninga sem þú einn átt

og enginn getur afmáð

eða frá þér tekið.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Það er með sorg i hjarta að ég sest niður og skrifa nokkur orð um hana Ásdísi mína. Konu sem ég er svo lánsöm að hafa getað kallað vinkonu mína í næstum 40 ár. Þær voru ófáar ánægjustundirnar sem ég átti með henni í gegnum tíðina. Ég reyndi alltaf að hitta Ásdísi þegar ég var stödd á landinu mínu. Hún var höfðingi heim að sækja, bauð alltaf upp á heimabakað rúgbrauð, kleinur, tertur o.s.frv. Þú fórst aldrei svöng úr húsi, samt fannst henni þetta bara vera smáræði sem hún bauð upp á. Við fórum oft saman í laugarnar, þar kynnti hún mig sem Gunnu „dönsku“ vinkonu sína fyrir öllum sund-vinunum, (undirritaðri til mikillar ánægju). Ég dáðist að henni fyrir að nota útiklefana, sama hvernig viðraði. Við sátum lika saman ansi hreint marga fundi í stærsta leynifélagi heimsins, hvern föstudag í áratugi. Það voru yndislegar stundir. Ásdís var sjúkraliði og þar valdi hún rétta starfsgrein, hún vildi alltaf hjálpa til þar sem þörf var á. Við vorum vinnufélagar á Vogi fyrir margt löngu og þar áttum við gott samstarf. Ásdís hafði stórt hjarta fyrir sjúklingum sem þangað leituðu, hún vissi alveg hvernig þeim leið. Ásdís var hörkudugleg kona, skemmtileg, mikill húmoristi, hlý og hjálpsöm. Á sama tíma ákveðin og gat alveg svarað fyrir sig ef þess var þörf. Takk fyrir öll trúnaðarsamtölin, símtölin, samveruna, öll knúsin og alla umhyggjuna. Takk fyrir fallegu ullarsokkana og vettlingana sem þú prjónaðir handa okkur Poul. Takk fyrir að passa Snúlla köttinn minn ef þess þurfti, þegar við vorum nágrannar á Hrísateigi fyrir all löngu. Okkar síðasta símtal áttum við á afmælinu þínu í lok október. Þá varstu komin inn á Hrafnistu og varst þakklát fyrir það og þar leið þér. Heilsan hafði ekki verið nógu góð um tíma og þú varst leið yfir að geta ekki lengur gert allt það sem þú varst vön að gera, sem var ekki lítið. Þú varst mjög stolt af fólkinu þínu og afar þakklát þeim fyrir allt sem þau gerðu fyrir þig. Þú sagðist eiga bestu tengdasyni í heimi, (það þótti mér svo fallegt og hef nú grun um að það hafi líka verið á hinn veginn). Vegna búsetu erlendis hef ég ekki tök á að vera viðstödd jarðarförina og þykir mér það miður. Þess í stað mun ég setjast niður, kveikja á kerti, fara í fallegu ullarsokkana frá þér og drekka kaffi úr einum af fallegu kattarbollunum, sem þú komst með og gafst okkur Poul í brúðargjöf. Poul minn og Helga systir mín sakna líka góðs vinar. Þú hreyfðir við svo mörgu fólki sem varð á vegi þínum.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr).

Ég sendi börnum, fjölskyldu og vinum Ásdísar mínar innilegustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði elsku vinkona, mikið sem ég á eftir að sakna þín.

Þín Gunna „danska“

Guðrún I. Bjarnadóttir.

Ásdís frænka átti æskuheimili í Fremstafelli í Köldukinn. Hún bjó lengst af ævi sinnar í Reykjavík, en kom nánast á hverju sumri norður og bjó á sumrum í Fremstafelli. Fáa staði þekki ég gjafríkari á aðalbláber og man margar berjaferðir, þegar farið var í berjamó hjá Rikku og Jóni, foreldrum Ásdísar, ábúendum Fremstafells, en Jón var föðurbróðir minn. Ásdís frænka kom sem farfugl í sumarbyrjun og dvaldi þar löngum. Móðir mín, Sigurbjörg, naut mjög návistar við Ásdísi, þessa vösku og skemmtilegu konu. Hennar tryggðar og einlægu vináttu fengum við systkinin og makar okkar alla tíð notið. Eins og fram kemur í ljóðinu hér á eftir tel ég að frænka mín hafi sjálf haft meira aðdráttarafl en berin, þegar mamma og frænkur hér á Akureyri fóru austur yfir heiði til Ásdísar í nánast ágústvissum berjaferðum í Fremstafell.

Það stirnir á dökkblá

berin á lynginu.

Ásdís frænka í essinu sínu

í Fremstafelli.

Frænkurnar og mamma

með berjafötur

í bíl á austurleið

yfir heiðina

með berjatínslu

að yfirvarpi.

berin bara tilefni

til að hitta Ásdísi

svo skemmtilega

að meira að segja berin

fölna í návist

litríkrar, dáyndis konu.

Ég sendi stórfjölskyldu Ásdísar innilegar samúðarkveðjur og þakkir fyrir að hafa átt Ásdísi frænku sem umhyggjusaman og hvetjandi vin.

Jón Hlöðver Áskelsson.

Ásdís Jónsdóttir (Dísa) hefur nú lokið sinni jarðvist og er á leiðinni í sumarlandið. Sumarlandið, æskustöðvar hennar að Fremstafelli í Köldukinn eða Mýri í Bárðardal, þaðan sem foreldrar hennar voru ættaðir?

Okkur langar að minnast Dísu með nokkrum orðum.

Kynni okkar hófust fyrir rúmum 30 árum, bjuggum við þá á Húsavík. Þar var grunnurinn lagður að vináttu sem varði þar til yfir lauk. Dísa dvaldi í Fremstafelli á sumrin og þangað var gaman og gott að koma.

Í einni heimsókninni í Kópavoginn var ákveðið að Brynja færi með Dísu og hinum í kvennaskaranum til Mallorka. Ferðin er Brynju minnisstæð enda hennar fyrsta utanlandsferð.

Heimsóknum fjölgaði eftir að við fluttum í Garðabæ árið 1999. Dísa keypti sér íbúð í Sigtúninu og þangað komum við oftast, þar var ekki í kot vísað gestrisnin, veitingarnar og notalegheitin. Spjallað, setið yfir prjónum og hekli og skoðaðar bækur og myndir. Dísa var vel máli farin, sagði skemmtilega frá, var kjarnyrt og tileinkuðum við okkur hin ýmsu orð sem hún ein notaði. Dísa var ágætlega ritfær, ferðasögur og lýsingar.

Dísa var gestrisin og mikil húsmóðir, í matargerð, bakstri (kleinurnar og jólakakan) og þrifin.

Gaman var að spjalla við hana um hitt og þetta, menn og málefni, hún var stolt af sínu fólki, næstum því drjúg en gat einnig rætt neikvæðu hliðarnar. Andlitssvipur hennar breyttist er hún lumaði á einhverju er hún segja vildi eða var fyndið, þá teygðist á andlitinu og augun blikkuðu aðeins hraðar: „Henni þótti það nú ekki verra að hafa ættarnafn.“

Við fluttum í Hveragerði 2016 og Dísa á Brúnaveg 9 og heimsóknum fækkaði en urðu lengri. Fyrsta heimsóknin á Brúnaveg. Dísa í stuði og kynnti húsakynnin, einn salur: „Þarna er svefnherbergisálman, eldhúsið, borðstofan, stofan og baðherbergis- og þvottahúsálman.“

Dísa var sjúkraliði og hlúði að margri sálinni, vann um tíma á Vogi og hélt sambandi við fv. vinnufélaga eftir að starfsdegi lauk. Dísa stundaði sund og sína AA-fundi og oftar en ekki hafði hún eitthvað nýbakað í farteskinu.

Margs er að minnast og kveðjum við Dísu með söknuði og þakklæti fyrir samferðina. Vottum við eftirlifandi afkomendum einlæga samúð.

Brynja og Kári.