Ef litið er til alþjóðlegs samanburðar á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) eru Íslendingar langt frá því að vera sérstök menntaþjóð. Framboð á ósérhæfðu vinnuafli, vinnuafli sem hefur ekki lokið öðru námi en grunnskólanámi, sem…

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Ef litið er til alþjóðlegs samanburðar á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) eru Íslendingar langt frá því að vera sérstök menntaþjóð. Framboð á ósérhæfðu vinnuafli, vinnuafli sem hefur ekki lokið öðru námi en grunnskólanámi, sem hlutfall af íbúum á aldrinum 25-64 ára, er langtum meira á Íslandi en í flestum samanburðarríkjum. Aðeins fimm ríki í kortlagningu OECD eru með meira framboð af ósérhæfðum starfskrafti og eru það Spánn, Ítalía, Portúgal, Tyrkland og Mexíkó.

Gríðarlegur skortur er á sérhæfðu starfsfólki á Íslandi eins og víða annars staðar en vandinn virðist meiri hér á landi. Fleiri hagsmunasamtök, svo sem Samtök iðnaðarins, hafa lýst áhyggjum af því að fleiri sæki ekki í iðn- og tækninám og vísa meðal annars til samkeppnishæfni landsins. Hafa þau kallað eftir því að í boði sé menntun til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Einnig hafa nýjar greinar kallað eftir sérhæfðu starfsfólki og má sem dæmi nefna að vegna mikils vaxtar í fiskeldi hafa fyrirtækin kallað eftir því. Var 2023 komið á fiskeldisnámi í Menntaskólanum á Ísafirði í samstarfi við fiskeldisfyrirtækin. Þá hefur lítið framboð af sérmenntuðum mannauði hamlað á móti örum vexti í tækni- og hugverkagreinum, en slíkt nám er yfirleitt kennt á háskólastigi.

Eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða

Alls voru 22,2% Íslendinga á aldrinum 25-64 ára aðeins með grunnskólapróf árið 2022. Til samanburðar var hlutfallið 18,2% í Danmörku, 17,36% í Noregi, 14,37% í Svíþjóð og 10,89% í Finnlandi.

Fæstir án menntunar umfram grunnskólanám voru í Tékklandi þar sem aðeins 5,55% höfðu ekki lokið öðru námi. Á eftir fylgir Slóvakía með 6,5%, svo Pólland með 6,53% og Kanada með 6,84%. Hlutfall þeirra sem ekkert nám hafa umfram grunnskóla var hæst í Mexíkó þar sem það var 56,22%.

Þá voru 34,24% Íslendinga á aldrinum 25-64 ára með framhaldsmenntun umfram grunnskóla, en ekki háskólamenntun. Það er lægsta hlutfall á Norðurlöndum og vel undir meðaltali OECD sem mældist 40,22%. Hæsta var hlutfall þeirra sem höfðu lokið framhaldsnámi í Tékklandi þar sem 67,78% hafa náð því námsstigi.

Háskólamenntaðir flestir í Kanada

Margir sem sækja í framhaldsnám hér á landi halda áfram námi en hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólanámi er hins vegar aðeins þremur prósentustigum yfir meðaltali OECD og var 43,56%. Það er hærra hlutfall en í Danmörku og Finnlandi, en minna en í Noregi og Svíþjóð sem er með hæsta hlutfall háskólamenntaðra á Norðurlöndum. Alls voru 48,53% Svía á aldrinum 25-64 ára með háskólamenntun árið 2022.

Norðurlönd eru hins vegar ekki með hæsta hlutfall háskólamenntaðra, heldur trónir Kanada á toppnum með 62,74%. Á eftir fylgja Japan, Írland, Kórea, Ástralía, Lúxemborg, Bretland, Ísrael og Bandaríkin. Þessi níu ríki eiga það öll sameiginlegt að yfir helmingur fólks á umræddu aldursbili hefur lokið háskólamenntun.

Segjast vilja efla nám

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins segir að hún hyggist sjá til þess að „framhaldsskólar og háskólar fá[i] stuðning til að efla menntun, nýsköpun og aðgengi um allt land, auk þess sem hugað verður sérstaklega að iðn- og verknámi, sí- og endurmenntun og raunfærnimati“.

Slíkt átak þarf til að mæta þeirri stöðu sem blasir við en ekki liggur fyrir hvernig ríkisstjórnin hyggst ná þessu markmiði, umfram þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs.